*

fimmtudagur, 18. apríl 2019
Andrés Magnússon
11. mars 2017 14:15

Fjölmiðlarýni: Meira um verðlaun

Hér var í liðinni viku minnst á veitingu blaðamannaverðlauna Blaðamannafélags Íslands, sem fjölmiðlarýnir hefur nokkrar efasemdir um. Og það þó hann sáldri um sig skammarverðlaunum á því sviði í viku hverri!

Allir verðlaunahafarnir voru vel að verðlaunum komnir og til hamingju með það!

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir á Stundinni fékk verðlaun fyrir Viðtal ársins 2016, en hún ræddi við systur konu, sem svipt hafði sig lífi eftir langvarandi fíkniefnaáþján og þrautir geðsjúkdóma.

Tryggvi Aðalbjörnsson á Ríkisútvarpinu fékk verðlaun fyrir Rannsóknarblaðamennsku ársins 2016 þar sem hann fletti ofan af Brúneggjum og kom upp um stórfellt hneyksli á sviði bæði dýraverndar og neytendaverndar.

Sigrún Ósk Kristjánsdóttir á Stöð 2 fékk verðlaun fyrir Umfjöllun ársins 2016 en það var fyrir þáttaröðina Leitin að upprunanum, þar sem Sigrún leiddi þrjár ættleiddar konur á fund líffræðilegra mæðra sinna. Þetta var vandasamt og viðkvæmt verkefni, sem var gefandi bæði fyrir umfjöllunarefnin og áhorfendur.

Loks fékk Jóhannes Kr. Kristjánsson hjá Reykjavík Media, aðalverðlaunin, Blaðamannaverðlaun ársins 2016, fyrir „ítarlega rannsókn á Panama-skjölunum“, en varla þarf að rekja athyglina, uppnámið og afleiðingarnar af þeim fréttaflutningi. Jóhannes var þar hluti af alþjóðlegri samvinnu blaðamanna, en dómnefndin gat einnig sérstaklega þáttar Aðalsteins Kjartanssonar, sem gekk til liðs við Jóhannes er á leið rannsóknina og styttist í birtingu tíðindanna hér og erlendis.

* * *

Fjölmiðlarýnir sá að vor gamli kollega Páll Vilhjálmsson var ekki alls kostar ánægður með að Jóhannes skyldi fá blaðamannaverðlaunin. Í bloggi sínum sagði hann að með þessu hefði Blaðamannafélagið verðlaunað siðlausa blaðamennsku, því Jóhannes hefði fengið sænskan fréttamann til þess að gerast eins konar tálbeita til þess að narra Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, í viðtal. Honum hefði verið sagt ósatt um tilefni og efni viðtalsins og raunar um hverjir myndu taka það líka.

Á þetta hefur áður verið minnst í þessum dálki. Þetta viðtal var ekki góð blaðamennska, eiginlega ótæk. Ekki aðeins vegna þess að viðtalið var fyrirsát, heldur ekki síður vegna þess að það var allsherjarsviðsetning. Markmið þess var ekki að afla upplýsinga eða fá svör frá Sigmundi Davíð, heldur var það beinlínis tekið í dramatískum tilgangi, til þess að myndskreyta flókna frétt, sem annars var ekki mjög gott sjónvarpsefni. Menn geta bara horft á svo og svo mörg föx á skjánum.

Eins og oft hefur áður verið rakið hér er það hlutverk blaðamanna og fréttamanna að leiða sannleikann í ljós. Við eigum ekki að beita falsi til þess.

Það er samt ekki hægt að fallast á það með Palla að þarna hafi „siðlaus blaðamennska“ verið verðlaunuð. Siðleysi er stórt orð og hvað viðtalið áhrærir lætur fjölmiðlarýnir sér nægja að segja að það hafi ekki verið góð blaðamennska.

Mestu skiptir þó að þegar rökstuðningur dómnefndar blaðamannaverðlaunanna er lesinn á vef Blaðamannafélagsins sést að hún sneiðir vendilega hjá því að minnast á þetta vandræðaviðtal. Það er bara ekki nefnt einu orði, heldur lætur nefndin sér nægja að ræða um rannsóknarvinnuna og undirbúninginn allan. Umræddur Kastljós-þáttur er nefndur í framhjáhlaupi einu sinni en orðið „viðtal“ kemur ekki fyrir.

Það er engin tilviljun. Því þó að viðtalið hafi verið áhrifamikið og margir hafi talið sig margs vísari eftir það, þá var það ekki góð blaðamennska. Verðlaunin voru því veitt fyrir aðra þætti verkefnisins.

* * *

Að öðru viðtali. Viðtal Sindra Sindrasonar við Töru Margréti Vilhjálmsdóttur um fitufordóma í samfélaginu vakti nokkra athygli. Viðtalið var frekar fyrirsjáanlegt framan af, en þar var sérstaklega vikið að samráði ýmissa minnihlutahópa, svo sem feitra og transfólks.

Ein spurning Sindra, fremur meinleysisleg, fór þó þvert í Töru, sem sagði hana aðeins geta komið úr munni forréttindaseggs. Aðeins þeir, sem væru í jaðarhópi og hefðu upplifað fordóma gætu skilið aðstöðu þeirra. Við þetta fauk lítillega í Sindra, sem minnti hana á að sjálfur teldist hann til ýmissa minnihlutahópa og drap á nokkra þeirra. Viðtalið varð síðan ekki miklu betra.

Sumir hafa gagnrýnt Sindra fyrir að draga eigin persónu inn í viðtalið. Það ætti vissulega við um harðkjarnafréttaviðtal, en þetta var magasín-viðtal, talsvert á mannlegu nótunum og til þess fallið að veita áhorfendum innsýn ekki síður en upplýsingar. Þar má spyrillinn vel vera þátttakandi í samtalinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim