*

fimmtudagur, 18. apríl 2019
Týr
3. maí 2015 12:15

Flóð gjalda og reglna

Á degi hverjum birtast að jafnaði fjórar nýjar reglugerðir, lög, reglur, gjaldskrár og önnur stjórnvaldsfyrirmæli.

Haraldur Guðjónsson

Týr varpaði, eins og reyndar margir, öndinni léttar þegar ný stjórn tók við fyrir tæpum tveimur árum. Eftir fjögur ár af vinstristjórn var að taka við stjórn sem, þótt hún væri ekki eins hægrisinnuð og Týr myndi vilja, væri a.m.k. ekki fjandsamleg atvinnulífi og frjálsum viðskiptum. Fögur fyrirheit voru gefin um einföldun regluverks og lækkun skatta.

* * *

Rétt er að halda til haga að að einhverju leyti hefur verið staðið við þessi loforð. Auðlegðarskatturinn er á bak og burt, vörugjöld á fjölda innflutningsvara sömuleiðis og veiðigjöld lækkuð. Þetta er ágætisbyrjun, en langt frá því að vera nóg.

* * *

Mjög fljótlega eftir bankahrun voru tryggingagjöld hækkuð til mikilla muna og var það réttlætt með vísan til stóraukins atvinnuleysis og kostnaðar vegna greiðslu atvinnuleysisbóta. Nú er atvinnuleysi svo gott sem komið í jafnvægisstig og ekkert sem réttlætir lengur þessa miklu aukaskattheimtu á atvinnulífið.

* * *

Samtök atvinnulífsins vöktu athygli á því í gær að gert væri ráð fyrir því að tryggingagjöld yrðu rúmir 80 milljarðar króna í ár. Augljóst tækifæri fyrir ríkisvaldið til að auðvelda kjarasamninga væri að lækka tryggingagjald með því skilyrði að mismunurinn yrði nýttur til að hækka laun. Þetta hefur ekki verið gert.

* * *

Þvert á móti streyma frá ríkinu tillögur um nýja skatta og gjöld. Þar á meðal er tillaga um nýtt netöryggisgjald, nýjan orkuskatt, ný gjöld sem Fiskistofa á að innheimta, gjöld til Þjóðskrár, vatnsskatt og auknar gjaldtökuheimildir Samgöngustofu.

* * *

Eflaust er hugsunin á bak við þetta sú að halda rekstri ríkisins réttu megin við núllið, þ.e. að safna ekki auknum skuldum. Það er jákvætt í sjálfu sér, en það veldur áhyggjum að miklu sjaldnar virðist vera horft til þess að skera niður útgjöld ríkisins í stað þess að auka gjaldheimtu.

* * *

Við þetta má svo bæta að á degi hverjum birtast að jafnaði fjórar nýjar reglugerðir, lög, reglur, gjaldskrár og önnur stjórnvaldsfyrirmæli. Frá aldamótum er fjöldi birtinga af þessu tagi kominn í 20.000. Týr heldur því ekki fram að allt sé þetta ónauðsynlegt, en þetta regluflóð er ekki til þess fallið að einfalda líf almennings eða rekstur fyrirtækja.

* * *

Ef eini munurinn á vinstri og hægri stjórn er sá að sú síðarnefnda hækkar skatta í stað þess að taka lán fyrir útgjöldunum er fokið í flest skjól fyrir raunverulegt hægrifólk í landinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim