*

miðvikudagur, 24. apríl 2019
Leiðari
26. ágúst 2018 15:04

Flugfélögin og stjórnvöld

Það er augljóst að íslensk stjórnvöld hafa nokkrar áhyggjur af stöðu mála hjá flugfélögunum.

Haraldur Guðjónsson

Fjárfestakynning WOW air vegna fyrirhugaðs skuldabréfaútboðs í haust veitir innsýn í fjárhagsstöðu félagsins og framtíðarplön. Þegar allt lék í lyndi hjá WOW birti félagið árshlutauppgjör en því var skyndilega hætt árið 2017. Allt síðan þá hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu eftir ársreikningum félagsins. Árseikningur fyrir síðasta rekstrarár hefur reyndar enn ekki verið birtur en eins og áður sagði eru allar lykiltölur í fjárfestakynningunni.

WOW var stofnað árið 2011. Eins og tíðkast með félög í örum vexti þá tapaði WOW töluverðum fjárhæðum fyrstu árin. Árið 2012 nam tapið um 800 milljónum króna sem var miklu meira en Skúli Mogensen hafði áætlað. Hann lýsti því í viðtali í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, að hann hefði gert ráð fyrir 200 til 300 milljóna króna tapi. Árið 2013 nam tapið ríflega 300 milljónum og árið 2014 nam tapið um einum milljarði. Árið 2015 snérist reksturinn síðan gjörsamlega við og félagið skilaði 1,6 milljarða hagnaði og árið 2016 nam hagnaðurinn 4,3 milljörðum.

Á þessum árum voru ytri aðstæður til flugreksturs hagstæðar. Íslenski ferðamannaiðnaðurinn var að springa út og olíuverð hríðlækkaði. Í byrjun árs 2016 hafði verð á olíutunnu ekki verið lægra í 12 ár eða frá árinu 2004. Frá júní 2014 til febrúar 2016 lækkaði olíuverð um 76%. Þrátt fyrir gríðarlega lækkun olíuverðs lækkuðu flugfargjöld almennt ekki mikið og er þá átt við almennt hjá flugfélögum enda var afkoma flestra félaganna ótrúlega góð á þessum árum. Raunar sagði Michael OLeary, hinn umdeildi forstjóri Ryanair, að simpansi hefði getað rekið flugfélag með hagnaði á þessum árum.

Þótt ársreikningur síðasta árs hafi ekki verið birtur þá sendi WOW frá sér tilkynningu 13. júlí þar sem fram kemur að félagið hafi tapað 2,3 milljörðum á rekstrarárinu 2017. Samkvæmt fjárfestakynningunni hefur enn syrt í álinn því á tólf mánaða tímabili frá júlí í fyrra til júníloka á þessu ári tapaði WOW 45 milljónum dollara eða tæplega 4,9 milljörðum króna.

Þó að almennt hafi rekstur flugfélaga gengið nokkuð vel á alþjóðavísu í fyrra hafa líka verið blikur á lofti. Síðasta vetur barðist Norwegian í bökkum en náði að bjarga sér með því að sækja 17 milljarða króna hlutafé á afslætti og selja flugvélar. Næststærsta flugfélag Þýskalands fór í greiðslustöðvun í ágúst á síðasta ári og í október var breska flugfélagið Monarch lýst gjaldþrota.

Í lok mars á þessu ári greindi Viðskiptablaðið frá því að innan Stjórnarráðsins væri hafin vinna við að meta hvaða fyrirtæki væru kerfislega mikilvæg fyrir íslenskt efnahagslíf og voru íslensku flugfélögin þar á meðal. Starfshópurinn, sem settur var á laggirnar, mun skila skýrslu nú í haust. Það er augljóst að íslensk stjórnvöld hafa nokkrar áhyggjur af stöðu mála ellegar hefðu fjórir ráðherrar ekki haldið sérstakan fund síðasta mánudag.

Það er skiljanlegt að stjórnvöld vilji hafa puttann á púlsinum en það er samt ákveðin hætta fólgin í því að skilgreina opinberlega eitthvert fyrirtæki kerfislega mikilvægt. Hættan er fólgin í því að forsvarsmenn fyrirtækja taki aukna áhættu í rekstrinum vitandi að fyrirtækinu verði bjargað ef allt fer á versta veg. Í hagfræðinni er þetta kallað freistnivandi.

Viðskiptablaðið vill hag íslensks atvinnulífs sem mestan. Icelandair hefur verið kjölfesta í íslenskri ferðaþjónustu um árabil og þegar WOW kom inn á markaðinn vænkaðist hagur neytenda mikið. Við skulum því vona að stjórnendur þessara fyrirtækja komist í gegnum skaflinn. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim