Mikið hefur gengið á í Bandaríkjunum vegna rannsóknar á afskiptum Rússa af bandarískum stjórnmálum og fjölmiðlun. Í því samhengi hefur nokkuð verið rætt um falsfréttir og áhrif þeirra. Ekki síst auðvitað í félagsmiðlum, þar sem kaupa má dreifingu á slíku til býsna afmarkaðra hópa.

Um það hefur nokkuð verið fjallað, m.a. í þessum dálkum, þó sennilega hafi áhrif slíkrar dreifingar oft verið nokkuð orðum aukin og fremur hæpið til dæmis að hún hafi ráðið úrslitum forsetakosninganna vestra, eins og sumir hafa gert því skóna.

Svo er þetta auðvitað ekki allt á eina bók lært. Þannig hefur t.d. komið fram hjá Robert Mueller, hinum sérstaka saksóknara í þessum efnum, að fjölmennar mótmælaaðgerðir gegn Trump Bandaríkjaforseta liðið haust hafi verið ráðgerðar og kostaðar af rússneskum flugumönnum.

Þetta er nefnt hér, því það rifjaðist upp af þessu tilefni hvað Ríkisútvarpið lét mikið með þessi mótmæli, en á vef ruv.is mátti t.d. í haust lesa langar og hrifnæmar lýsingar Róberts Jóhannssonar þar á, með fjölda mynda, tísta af Twitter, myndböndum o.s.frv.

Auðvitað gat Ríkisútvarpið ekki varað sig á því hvernig í pottinn var búið, en þetta er gott dæmi um það hvernig pólitískar vélar af þessu tagi geta haft áhrif langt út fyrir ætlaðan markhóp og hrifið fólk og fréttamenn í fjarlægum löndum með sér.

***

Aftur á móti má einnig horfa til þess að hve miklu leyti fólk sér fréttir á félagsmiðlum. Á Twitter eru fréttir mjög oft tilefni tísta. Hartnær helmingur þeirra vísar að einhverju leyti til fjölmiðlaumfjöllunar. Facebook hefur einnig notfært sér fjölmiðla til ókeypis efnisvinnslu, en miðlarnir hafa til þessa talið sig græða á því að Facebook sýni notendunum sínum fréttatengla, sem svo megi smella á og allir græða.

Það hefur hins vegar verið nokkuð upp og ofan, aðallega ofan, hvernig það allt hefur gengið eftir. Fjölmiðlar hafa verið að komast að raun um það á undanförnum mánuðum að þeir hafi að líkindum samið af sér að þessu leyti og reynt að upphugsa viðbrögð við því. Það veldur þeim þó áhyggjum hve mikil notendaumferð hefur komið til þeirra frá Facebook og margir eru því ragir við að trufla það á nokkurn hátt.

Nýleg rannsókn Niemanstofnunarinnar við Harvard-háskóla, sem leggur stund á blaðamennsku, bendir hins vegar til þess að þótt margir svali fréttaþorsta sínum á Facebook, þá ræði þar aðallega um fólk, sem eru ekki ýkja dyggir fréttalesendur hvort sem er.

Samkvæmt rannsókninni, sem athugaði efnisstreymið á Facebook-síðum 402 Bandaríkjamanna, 18 ára og eldri, var ekki mjög mikið af fréttum í „fréttastraumnum“ (e. news feed). Liðlega helmingurinn sá ekki neina frétt í 10 fyrstu efnisgreinunum. Og það þótt skilgreiningin á „frétt“ væri mjög frjálsleg, tæki til slebbaslúðurs, íþróttaúrslita og sögulegra efnisþátta. 23% sáu aðeins eina frétt í straumnum, en 16% sáu tvær fréttir.

Svo hugsanlega hafa menn ofmetið gildi Facebook sem fréttamiðils mjög hressilega. Nú er rétt að hafa í huga að engir tveir notendur fá sama fréttastreymi frá Facebook. Það er mismunandi eftir því hvaða tæki menn nota við lesturinn, hvar þeir eru staddir, hvað þeir hafa látið sér við líka, hvað vinir þeirra eru að láta sér líka og þar fram eftir götum. Í því samhengi er einnig athyglisvert að af þeim fréttum, sem skráðar voru í rannsókninni, hafði helmingnum verið dreift af einhverjum öðrum en upphaflegum útgefanda.

***

Í þætti Jóns Gnarr í Ríkisútvarpinu mátti á dögunum heyra ákaflega fyndna dagskrá, þar sem yrkisefnið var heimsókn Eyþórs Arnalds í Höfða á dögunum. Jón setti það allt í annað samhengi, beinskeytt og fyndið, en græskulaust. Og af því pólitíkin er skrýtin mun Eyþór sjálfsagt engu tapa á því þó að Jón hafi verið að skensast þetta.

En það má samt sem áður vel velta því fyrir sér hversu vel fer á því í Ríkisútvarpinu – með allar sínar lögbundnu skyldur um hlutleysi, sanngirni og jafnvægi – sé fyrrverandi borgarstjóri, samverkamaður núverandi borgarstjóra, launamaður hjá Samfylkingunni um stutta hríð, með pólitíska revíu á öldum ljósvakans, þar sem skotspónninn er helsti áskorandinn í komandi kosningum.

Það vildi svo til að þetta var ekki meiðandi, en er þetta fyrirkomuleg ekki eitthvað sem þyrfti að leiða hugann að áður en eitthvað ber út af? Hjá Ríkisútvarpinu eru til ýmsar reglur um vinnubrögð í aðdraganda kosninga, þó þeim hafi ekki alltaf verið fylgt. Ætti ekki að skoða þær?

***

Lesa mátti frétt í Mogga í gær, vegna viðvörunar sem skólayfirvöld höfðu sent foreldrum í Fossvogi vegna grunsamlegra mannaferða. Heldur maður. Því fyrirsögnin var „Bifreið elti barn á heimleið“ og í fréttinni var notast við sama orðalag.

Skýrslulegt orðalag af þessu tagi á ekki erindi í fréttir. A.m.k. ekki fyrr en sjálfakandi bílar eru komnir í almenna notkun. Í fréttum er það jafnan fólk sem á í hlut og þá á að segja það. Það eru ekki bílarnir sem aka hver á annan, frekar en kúbeinin brjótast inn og árarnar þvælast fyrir ræðurunum.

***

Í fréttum af máli Sunnu Elviru Þorkelsdóttur voru jafnan birtar myndir af henni, eins og skiljanlegt er. Verður enda ekki annað séð en að hún hafi gjarnan viljað að þær birtust til þess að fólk gæti betur gert sér grein fyrir hlutskipti hennar.

Eftir því sem fréttirnar beindust frekar að innflutningsviðskiptum bónda hennar vakna þó spurningar um hvort fjölmiðlar hefðu e.t.v. átt að vera sparari á myndir af henni. Vissulega eru uppi spurningar um vitneskju hennar eða hlutdeild í þeim, en þetta var samt í það mesta.

***

Á Pressunni mátti lesa frétt um nýjustu vandræði Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins breska, en í ljós hefur komið að hann var meðal heimildarmanna tékknesks leyniþjónustumanns á dögum Kalda stríðsins. Pressan minntist á að fleiri væru til nefndir, þar á meðal „John McDonnell, sem gegnir stöðu kanslara í skuggamálaráðuneytinu“. Já jæja. Bretar hafa ekki kanslara, þó þar nefni þeir fjármálaherra chancellor.