*

fimmtudagur, 21. mars 2019
Jón Ingvarsson
14. júní 2018 15:09

Formanni Framtakssjóðs Íslands svarað

Haraldur Guðjónsson

Í viðtali við VB nýlega segir dr. Ásgeir Jónsson, hagfræðingur og forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hafi ekki átt rekstrarlegt erindi eftir 1990 þegar útflutningsverslun sjávarafurða var gefin frjáls. Þessi fullyrðing er fjarri öllum sanni og hvorki sæmandi prófessor við Háskóla Íslands né formanni Framtakssjóðs Íslands að láta þau frá sér fara. Í stað þess að svara gagnrýni minni efnislega kýs Þorkell Sigurlaugsson, formaður FSÍ, að saka mig um ómaklega árás á dr. Ásgeir.

Það er eðlilegt að hlutdeild sölusamtakanna í útflutningi hafi eitthvað minnkað eftir því sem fleiri útflytjendur komu að borðinu. Þegar framsal á aflakvótanum var heimilað óx stærstu fyrirtækjunum ásmegin og tóku sum þeirra útflutninginn í sínar eigin hendur. Hvort það fyrirkomulag hafi verið þeim til meiri hagsældar skal ósagt látið en draga má mjög í efa að það leiði til hærra verðs þegar margir falbjóða sömu vöruna. Í því sambandi er athyglisvert, að Guðmundur Kristjánsson í Brimi sagði í blaðaviðtali nýlega eina meginforsendu fyrir kaupum sínum í HB Granda vera aukin samlegðaráhrif í útflutningi.

Í viðtalinu staðhæfir dr. Ásgeir enn fremur að SH og önnur sölusamtök hafi notið niðurgreiðslna frá Seðlabanka Íslands fram til 1990.

Þessi fullyrðing er ekki skýrð nánar og er ekki auðvelt að sjá í hvað dr. Ásgeir er að vísa. Hér virðist því beinlínis haldið fram að SH hafi átt tilveru sína undir einhverjum óskilgreindum niðurgreiðslum frá Seðlabanka Íslands og þegar þeim hafi verið hætt árið 1990 hafi rekstrargrundvöllurinn brostið. Ég tel mig þekkja vel til starfsemi SH um áratuga skeið fyrir 1990 og allt fram á mitt ár 1999 þegar ég lét af starfi stjórnarformanns. Það að fjármunir frá Seðlabanka hafi runnið inn í rekstur SH er mér algerlega framandi. Það væri því fengur að því ef dr. Ásgeir upplýsti hvaða heimildir hann hefur fyrir þessu.

Tíundi áratugur síðustu aldar reyndist SH mjög hagstæður og aðlagaði félagið sig að breyttum aðstæðum með aukinni sókn á nýja markaði auk þess sem fjárfestingar jafnt innanlands sem utan skiluðu félaginu góðri arðsemi. Það er því alger firra að halda því fram, að SH hafi ekki haft rekstrarlegar forsendur eftir 1990.

Þorkell býsnast mjög yfir umfjöllun minni, en svarar á engan hátt þeim atriðum sem ég gagnrýni. Í mínum huga er augljóst, að vegna gagnrýni sem Framtakssjóðurinn sætti fyrir störf sín fékk hann dr. Ásgeir Jónsson til að gera úttekt á störfum sjóðsins eftirá. Svo vel tókst til að Auðfræðasetur Háskóla Íslands gaf síðan út heila bók um úttektina og vekur Þorkell sérstaka athygli lesenda á bókinni og að enn séu nokkur eintök til og býðst til að senda áhugasömum aðilum eintak af henni í póstkröfu. En viti menn, Auðfræðasetur Háskóla Íslands er ekki til. Hins vegar er Auðfræðasetur skráð sameignarfélag dr. Ásgeirs Jónssonar og samstarfsmanns hans. Hvað gengur Þorkeli til með því að reyna að afvegaleiða lesendur VB með því að skreyta félag Ásgeirs með stolnum fjöðrum?

Í lokin ítreka ég þær spurningar mínar, sem málið snýst um: Í fyrsta lagi, hvaðan hefur dr. Ásgeir þær fáránlegu upplýsingar að SH hefði ekki haft rekstrarlegt erindi eftir 1990, þegar staðreyndin er sú, að síðasti áratugur síðustu aldar var einn hinn besti í sögu þess ágæta félags? Í öðru lagi, hvaða niðurgreiðslur frá Seðlabanka Íslands hafði SH notið fram til ársins 1990?

Ég treysti því, að forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands upplýsi lesendur Viðskiptablaðsins um þessi mikilvægu atriði í umfjöllun sinni, eða hann feli Þorkeli að gera það, en þá málefnalega. Ég og margir aðrir bíðum spenntir eftir að sjá þá söguskýringu. 

Höfundur er fyrrverandi stjórnarformaður SH.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.