Á menntaskólaárunum og fyrri hluta háskólanáms vann ég í fiski. Fyrsta sumarið í karfavinnslu Granda við Grandagarð, þar sem Sjóminjasafnið í Reykjavík er nú til húsa, en svo í frystihúsi fyrirtækisins við Norðurgarð. Þetta var hörkupuð, enda gjarnan unnið á fjórtán tíma vöktum, en um leið lærdómsríkt og ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þessum grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar af eigin raun. Þakklætið var mér þó kannski ekki efst í huga þegar ég stóð loppin á tám og fingrum við roðflettivélina í ísköldum vélasalnum.

Á þessum árum bjó Grandinn yfir takmörkuðum sjarma. Ef ég man rétt voru þar tvær sjoppur - og Kaffivagninn auðvitað, en þar með var það upptalið. Sú þróun og uppbygging sem orðið hefur í þessum bæjarhluta er með ólíkindum. Þar blómstrar nú fjölbreyttur atvinnurekstur og áhersla er á nýsköpun og að frumkvöðlakraftur fái notið sín. Þær tækniframfarir sem orðið hafa í fiskvinnslu eru líka lygilegar. Um leið og fiskur er dreginn úr sjó skilst mér að nú sé hægt að ráðstafa honum með fyrirfram ákveðnum skurði í neytendapakkningar, allt eftir óskum viðkomandi kaupanda í því augnamiði að hámarka nýtingu aflans og verðmæti. Í fiskvinnslunni við Grandagarð birtist arfleifð gömlu Bæjarútgerðar Reykjavíkur í merkingunni BÚR á fiskikössum og -körum þótt nokkuð væri þá liðið frá því bæjarútgerðin og Ísbjörninn runnu saman og úr varð sjávarútvegsfyrirtækið Grandi.

Árin liðu og þegar Haraldur Böðvarsson rann inn í félagið varð HB Grandi til. Það er áhugavert að rifja þessa sögu upp núna þegar fyrir liggur áhugi nýs forstjóra á að nafni félagsins verði breytt í Brim. Það er óskandi að við ákvörðunartöku um hugsanlega nafnabreytingu gleymist ekki að taka orðspor og virði viðkomandi vörumerkja á helstu mörkuðum með í reikninginn.

Höfundur er sérfræðingur í hugverkarétti og rekstri sprotafyrirtækja.