Í síðustu viku minntist Édouard Philippe, nýr forsætisráðherra Frakklands, á það í jómfrúrræðu sinni í franska þinginu að Frakkland væri fíkill í ríkisútgjöld. Er óhætt að segja að hann hafi nokkuð til síns máls. Opinber útgjöld landsins á síðasta ári námu 56% af vergri landsframleiðslu á meðan skatttekjur þess námu 48% af VLF. Eru bæði þessi hlutföll þau hæstu á meðal ríkja Evrópusambandsins. Þá hefur landið einnig skil‑ að halla á fjárlögum síðastliðin 30 ár.

Um síðastliðna helgi var undirritaður á ferðalagi í París og ferðaðist meðal annars til Versala. Þegar ég stóð fyrir utan höllina í Versölum, sem er ein glæsilegasta bygging sem ég hef á ævi minni séð, varð mér hugsað til orða Philippe. Það gæti orðið þrautin þyngri fyrir Frakka láta af þessari fíkn þar sem stjórnendur landsins virðast hafa verið eyðslufíklar a.m.k. frá árinu 1682 þegar Loðvík 14. lét byggja höllina í Versölum auk þess sem hann og Loðvík 15. háðu dýrar styrjaldir sem gerðu landið næstum gjaldþrota. Loðvík 16. tók svo við þröngu búi og eftirleikinn þekkja flestir þó fleiri þættir hafi einnig spilað veigamikið hlutverk.

Ég skal vera fyrsti maðurinn til að viðurkenna að ég er enginn sérfræðingur í málefnum Frakklands en það þarf hins vegar enga snilligáfu til þess að átti sig á því að það er erfitt að reka ríki til lengdar þar sem ríkisútgjöld eru hærri en skattar. Þrátt fyrir það virðist stór hluti stjórnmálamanna heimsins halda að það sé eðlilegt að reka ríki undir þessum kringumstæðum og safna frekar skuldum sem munu svo enda á herðum skattgreiðenda framtíðarinnar

Það verður því að hrósa þeim Macron og Philippe fyrir að ætla sér að bregðast öðruvísi við þröngri stöðu í efnahagsmálum en Loðvík 16. gerði forðum daga. Í þetta skiptið á ekki að hækka skatta til þess að draga úr vandanum heldur á að lækka þá á fólk og fyrirtæki til þess að gefa efnahagslífinu byr undir báða vængi. Á sama tíma verða útgjöld ríkisins dregin saman um hærri upphæð en sem nemur skattalækkuninni. Það er nefnilega svo að eins og með hverja aðra fíkn að þá verður fíkillinn sjálfur að átta sig á vandanum og gera eitthvað í sínum málum áður en afleiðingarnar verða afdrifaríkar. En eins og Philippe sagði sjálfur þá er það þannig með eyðslufíkn eins og hverja aðra að það þarf viljastyrk og hugrekki til að láta af henni.

Þessi fjölmiðlapistill birtist í Viðskiptablaðinu þann 13. júlí 2017.