Ég benti á það hér hinn 1. júní að afnám kvóta á leigubíla myndi lækka verð, stytta biðtíma, bæta þjónustu og minnka þörf fyrir bílastæði og rútur í Miðborginni. Reglugerð hefði kveðið á um óbreyttan fjölda leigubíla á höfuðborgarsvæðinu síðan 2003 þótt landsmönnum hafi fjölgað um 17% og ferðamönnum um 460%.

Samgönguráðherra birti hinn 12. júlí drög að breytingum á reglugerðinni sem gerir ráð fyrir að leigubílaleyfum verði fjölgað. Viðbrögð Bifreiðastjórafélagsins Frama voru fyrirsjáanleg, enda kjósa rjúpur ekki með jólunum. Þau telja að fjölgunin sé óþarfi og að hún muni ekki leiða til lægra verðs. Það þarf líklega að endurskrifa kennslubækur í rekstrarhagfræði því Framapotararnir eru búnir að finna atvinnugrein sem er undanþegin lögmálinu um framboð og eftirspurn.

Vandinn er að þótt tillaga ráðherra sé skárri en ekkert þá dregur hún víglínu á röngum stað. Ég hef engar forsendur til að meta hvort leigubílaleyfi þurfi að vera 600 eða 700. Nærtækast hlýtur að vera að afnema þessa fjöldatakmörkun, enda standa engin rök til þess að hennar sé þörf í þessari atvinnugrein frekar en öðrum.

Formaður Frama sagði að biðin eftir farþegum væri nógu löng í dag. Reynslan sýnir að þar sem smáforrit eins og Uber og Lyft hafa rutt sér til rúms þá fjölgar þeim sem nota sér þjónustu leigubíla. Ef engar fjöldatakmarkanir væru og einfalt væri að fá leyfi þá má búast við að einhverjir gætu hugsað sér að aka í hlutastarfi á háannatíma þegar verðin eru há.

Viðbrögð Frama lofa ekki góðu. Hvað ætla þau að gera þegar sjálfkeyrandi leigubílar koma? Verður tölvan að bíða eftir að leigubílstjóri setjist í helgan stein áður en hún fær leyfi til að keyra?