Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) tilkynnti í byrjun mars um ítarlega rannsókn á úrskurðum skattyfirvalda í Lúxemborg varðandi skattalega meðferð fyrirtækis, með höfuðstöðvar í Finnlandi, sem pakkar matvælum og drykkjarvörum í neytendaumbúðir. Samkvæmt Framkvæmdastjórninni eru líkur til þess að úrskurðir skattyfirvalda hafi veitt fyrirtækinu óeðlilegt samkeppnisforskot og þar af leiðandi brotið gegn reglum ESB um ríkisaðstoð.

Forsagan

Innan finnsku fjölþjóða samstæðunnar er dótturfélag staðsett í Lúxemborg, sem hefur það hlutverk að fjármagna samstæðufélög. Írskt samstæðufélag veitir dótturfélaginu í Lúxemborg (LuxCo) vaxtalaus lán, sem aftur notaði fjármunina til lánveitinga til annarra félaga innan hinnar fjölþjóðlegu samstæðu. Á grundvelli þriggja úrskurða skattyfirvalda í Lúxemborg dregur LuxCo reiknuð vaxtagjöld frá tekjuskattstofni sínum, líkt og lánveiting frá írska systurfélaginu bæri vexti. Hinn reiknaði vaxtakostnaður samsvarar vöxtum sem LuxCo þyrfti að greiða ef fjármögnunin færi fram með lánveitingum frá ótengdum þriðja aðila. Með frádrætti vaxtagjaldanna, sem LuxCo aldrei greiddi í raun, lækkar félagið skattstofn sinn sem leiðir til lægri skattlagningar félagsins en ella.

Áhyggjur Framkvæmdastjórnarinnar lúta að því að úrskurðir skattyfirvalda í Lúxemborg hafi falið í sér að félaginu hafi verið veitt sértækt samkeppnisforskot. Úrskurðirnir heimiluðu samstæðunni að greiða lægri skatta en öðrum félögum sem eiga viðskipti á markaðsverði. Ef rannsóknin staðfestir þetta þá væri um að ræða ólögmæta ríkisaðstoð.

Framkvæmdastjórn ESB

Framkvæmdastjórn ESB er æðsti valdhafi Evrópusambandsins sem ætlað er að hafa eftirlit með félagslegum, efnahagslegum og pólitískum áherslum innan sambandsins. Meðal helstu markmiða Framkvæmdastjórnarinnar er að auka gegnsæi í skattheimtu og tryggja réttláta skattlagningu í því ríki sem hagnaður myndast. Ofangreind rannsókn Framkvæmdastjórnarinnar er sú nýjasta í röð rannsókna meðal tiltekinna aðildarríkja ESB sem hrint var af stað í júní 2013. Eftirfarandi eru nokkur þekktustu dæmi um rannsóknir Framkvæmdastjórnarinnar:

Stórfyrirtæki í rekstri vefverslunar á smásölustigi með höfuðstöðvar í Bandaríkjunum, hóf samstarf með tengdu eignarhaldsfélagi í Lúxemborg, um skiptingu kostnaðar í tengslum við sameiginlega þróun á hugverkaréttindum. Eignarhaldsfélagið áframseldi afnotaleyfi til rekstrarfélagsins í Lúxemborg sem annaðist rekstur vefverslunarinnar á Evrópumarkaði. Samkvæmt Framkvæmdastjórninni endurspeglaði þóknunin, sem rekstrarfélagið greiddi eignarhaldsfélaginu fyrir afnot hugverkaréttindanna, ekki efnahagslegan veruleika þar sem þóknunin þótti of há. Framkvæmdastjórnin komst að þeirri niðurstöðu að úrskurður skattyfirvalda í Lúxemborg, sem fól í sér samþykki á fjárhæð þóknunarinnar, veitti sértækt samkeppnisforskot fyrir félagið með lækkun á skattbyrði þess samanborið við félög er lutu sömu landslögum. Lúxemborg var gert að innheimta af félaginu 284 milljónir evra af afturvirkum sköttum, vöxtum og sektum.

Nokkuð þekktur tölvu- og farsímaframleiðandi stofnsetti írskt dótturfélag á grundvelli samnings um kostnaðarskiptingu í tengslum við sameiginlega þróun á hugverkaréttindum með bandaríska móðurfélaginu. Með þessu fyrirkomulagi runnu allar sölutekjur frá Evrópu til Írlands. Á grundvelli tveggja úrskurða skattyfirvalda í Írlandi rann hagnaður vegna sölunnar innan Evrópu að mestu leyti til höfuðstöðva sem voru ekki skráðar í neinu ríki, hafði enga starfsmenn og enga starfsstöð. Hagnaðurinn var aðeins að litlu leyti skattlagður í Írlandi á meðan megnið var hvergi skattlagt. Framkvæmdastjórnin komst að þeirri niðurstöðu að úrskurðir skattyfirvalda í Írlandi hefðu leitt til óæskilegs forskots með skattlagningu sem teldist ólögmæt ríkisaðstoð. Írlandi var gert að innheimta af félaginu 14 milljarða bandaríkjadala af afturvirkum sköttum, vöxtum og sektum.

Athugasemdir greinarhöfunda

Þú gætir hafa áttað þig á því að framangreindar rannsóknir einblína ekki á hvort félög hlíti skattalögum tiltekins ríkis né heldur hvort verðlagning í viðskiptum milli tengdra aðila hafi verið í samræmi við armslengdarregluna eins og hún er þekkist í leiðbeiningarreglum OECD um milliverðlagningu. Þvert á móti voru öll ofangreind dæmi um verðlagningu hjá félögunum fullkomlega lögmæt þar sem hún byggði á úrskurðum skattyfirvalda. Áhyggjur hafa vaknað um hvort Framkvæmdastjórn ESB sé að innleiða sín eigin armslengdarviðmið, aðgreinanleg frá fyrrnefndum alþjóðlega viðurkenndum leiðbeiningarreglum OECD um milliverðlagningu. Í einhverjum tilvikum hefur Framkvæmdastjórnin lýst þeim armslengdarviðmiðum sem beitt eru í þessum rannsóknum á þá leið að þau byggi á „grundvallarreglunni um jafnrétti í skattlagningu“, sem er tíunduð í sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins (e. Treaty on the Functioning of the European Union/TFEU). Af þessu leiðir að alþjóðlegar samstæður sem falast eftir úrskurðum frá skattyfirvöldum innan Evrópusambandsins gætu komið til með að þurfa hlíta tveimur armslengdarviðmiðum; staðbundnu viðmiði innan aðildarríkis og öðru skilgreindu út frá viðmiðum Framkvæmdastjórnarinnar.

Áhrif á þitt félag

Taktu til skoðunar stefnu þíns félags um verðlagningu milli tengdra félaga (sem og stefnur um milliverðlagningu í félögum sem ætlunin er að fjárfesta í) og úrskurði skattyfirvalda með það að markmiði að meta áhættuna vegna mögulegrar skattendurskoðunar og rannsókna á ólögmætri ríkisaðstoð. Milliverðlagningar stefna verður að byggja á efnahagslegum og rekstrarlegum veruleika félagsins. Vönduð skjölun á milliverðlagningu, sem inniheldur umfjöllun um framangreint, fer langt með að vernda félög gegn rannsóknum á ólögmætri ríkisaðstoð.

Ása Kristín Óskarsdóttir er lögmaður og Veena Parrikar er hagfræðingur hjá KPMG Lögmönnum.