SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu gáfu nýverið út skýrsluna Framleiðni í íslenskri verslun í samstarfi við Rannsóknasetur verslunarinnar. Framleiðnimælingin er hugsuð sem viðbót við skýrsluna Íslensk netverslun — áhrif stafrænnar tækni og alþjóðlegrar samkeppni sem Rannsóknasetur verslunarinnar gaf út á dögunum og er ætlað að varpa ljósi á samkeppnisstöðu íslenskrar verslunar. Framleiðni, sem er eitt af lykilhugtökum rekstrarhagfræðinnar, er skilgreind sem vöxtur verðmætis framleiðslu að gefnum þeim fjölda framleiðsluþátta sem fara inn í framleiðsluna. Í skýrslunni er m.a. fjallað um framleiðni vinnuafls eða verðmætasköpun á hverja vinnustund. Vinnuafl er hlutfallslega mjög stór þáttur í rekstri verslana og því eðlilegt að nota verðmætasköpun á vinnustund sem mælikvarða við mat á framleiðni. Sé litið á framleiðni vinnuafls á tímabilinu 2008 til 2017 sést að meðalvöxtur framleiðni vinnuafls í heild- og smásöluverslun hækkaði um 3,7% á ári á tímabilinu á meðan framleiðni vinnuafls í öllum atvinnugreinum jókst um 1,5% tímabilinu.

Ólík þróun í smásölu og heildsölu

Sé litið á framleiðni heildverslunar og smásölu á tímabilinu 2008 til 2017 sést að meðalvöxtur framleiðni vinnuafls var meiri í smásöluverslun heldur en í heildverslun. Meðalvöxturinn í smásöluverslun var um 4,5% samanborið við 1,8% í heildverslun. Líklegt er að einfaldara tollaumhverfi, afnám viðskiptahindrana, stærri rekstrareiningar og bætt stjórnun hafi skilað sér í aukinni framleiðni smásöluverslunar. Svigrúm til að ná fram bættri framleiðni hefur því verið meira í smásölu en heildsölu.

Mikill vöxtur miðað við aðrar atvinnugreinar

Athyglisvert er að skoða framleiðni vinnuafls í ólíkum atvinnugreinum frá árinu 2008 til ársins 2017. Þar sést að verslunin var meðal þeirra atvinnugreina þar sem framleiðni vinnuafls hefur vaxið hvað mest síðustu ár. Framleiðni vinnuafls hefur t.a.m. aukist verulega í upplýsingatækni og fjarskiptatækni eða um 5,4% á ári og um 4% á ári í ferðaþjónustu. Íslensk smásala er nátengd þessum geirum. Líklegt er að fjölgun erlendra ferðamanna á síðustu árum hafi lagt sitt að mörkum til að bæta nýtingu framleiðsluþátta, en ferðamönnum hefur fjölgað langt umfram fjölgun þjóðarinnar.

Um leið hafa áhrif ferðamanna á hvers kyns verslunarfyrirtæki aukist mikið. Þá hafa íslenskar verslanir nýtt sér kosti stafrænna tæknilausna til að koma til móts við þarfir neytenda um nýtt og breytt verslunarmynstur.

Stjórnvöld styðji við frekari framleiðnivöxt í verslun

Mikilvægt er að auka skilvirkni og framleiðni í fyrirtækjum og styrkja nýsköpun. Stjórnvöld hafa þar hlutverki að gegna því eins og fram kemur í áðurnefndri skýrslu um íslenska netverslun og áhrif stafrænnar tækni og alþjóðlegrar samkeppni er mikilvægt að stjórnvöld styðji við og styrki innlenda verslunarstarfsemi. Beint samband er á milli fjárfestingar í nýsköpun og þróun annars vegar og framleiðniaukningar hinsvegar. Í þessu samhengi hefur verið bent á að Tækniþróunarsjóður, helsti opinberi sjóðurinn fyrir nýsköpun í atvinnulífinu, veitti enga styrki til nýsköpunar í verslun á árunum 2004-2014. Við þetta má bæta að í nýskipuðum stýrihópi um nýsköpunarstefnu fyrir Ísland er ekki fulltrúi frá verslunareða þjónustufyrirtækjum. Vilja stjórnvöld stuðla að breytingu í þeim efnum?

Höfundur er hagfræðingur hjá SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu.