Nýlega kom út skýrsla á vegum Alþjóðaorkumálastofnunarinnar þar sem spáð var fyrir um þróun framleiðslukostnaðar rafmagns fyrir nýjar virkjanir árið 2020. Borin er saman framleiðslukostnaður virkjanna eftir því hver framleiðsluaðferðin er allt frá vindorku upp í kjarnorku. Stofnunin tekur óvenju sterkt til orða og talar um hrun í framleiðslukostnaði endurnýjanlegrar orku. Niðurstöður höfunda eru fengnar með tölulegri greiningu á gögnum frá 22 löndum um allan heim og taka til ólíkra tegunda raforkuframleiðslu. Niðurstöðurnar eru settar fram sem núvirtur meðalframleiðslukostnaður á megawattstund [USD/MWst] yfir líftíma virkjunar. Kostnaður við flutning og dreifingu er ekki með í þeim kostnaði sem Alþjóðaorkumálstofnunin setur fram, en að jafnaði þarf að leggja út í meiri kostnað við flutning þegar um endurnýjanlega orkugjafa er að ræða.

Framleiðslukostnaður endurnýjanlegrar orku hefur farið ört lækkandi en getur verið afar ólíkur milli landa og svæða þótt tæknin sé sú sama. Það er enda rökrétt, vindurinn blæs ekki eins alls staðar og ekki skín sólin jafnt á alla. Þannig meta skýrsluhöfundar kostnað við vindorku á landi í Bretlandi vera í kringum USD 125/MWst sem er umtalsvert hærri kostnaður en við sambærilegar vindtúrbínur í Hollandi sem eru taldar geta framleitt megawattstund á um USD 85/MWst. Framleiðsla með slíkum vindtúrbínum kostar á bilinu USD 90-95/ MWst í Frakklandi og Þýskalandi. Bretar búa því við umtalsvert hærri kostnað en nágrannaþjóðir sínar við framleiðslu vindorku. Það skilar sér í dýrara orkukerfi fyrir Bretland, enda er vindorka þeirra helsta uppspretta endurnýjanlegrar orku.

Bretar hafa líka stutt við fleiri tegundir endurnýjanlegrar orkuframleiðslu. Nýlega hafa borist fréttir frá Bretlandi að upptaka sólarorku á húsþökum hafi farið svo mikið fram úr áætlun að áætlað fjármagn breska ríkisins til verkefnisins er uppurið, árum á undan áætlun. Þessi hraða upptaka sólarorku í Bretlandi er áhugaverð í ljósi þess að framleiðslukostnaður á megawattstund hefur verið gríðar hár. Þannig metur Alþjóðaorkumálastofnunin að jafnaðarkostnaðurinn við þessa framleiðslu verði USD 276/MWst, langdýrast af þeim framleiðsluaðferðum sem stofnunin skoðar. Til samanburðar er kostnaður við sólarorku á húsþökum í Þýskalandi 20% ódýrari enda hafa Þjóðverjar byggt upp stærsta sólarorkukerfi Evrópu.

Kjarnorka heldur velli við framleiðslu grunnorku

Alþjóðaorkumálastofnunin grípur einnig til afgerandi orðalags um framtíð kjarnorku. Þar segir að þrátt fyrir ítrekaðar fréttir um hið gagnstæða sé kjarnorka enn samkeppnishæf við aðra grunnorkuframleiðslu út frá framleiðslukostnaði. Með grunnorku er átt við þann hluta eftirspurnar sem er tiltölulega stöðugur. Sá hluti orkuframleiðslu fer jafnan fram með kolaorkuverum, gasorkuverum eða kjarnorkuverum enda hafa þessar framleiðsluaðferðir jafnan haft lægsta jafnaðarkostnaðinn á framleidda einingu. Í skýrslunni er nú í fyrsta skipti gert ráð fyrir kolefniskostnaði upp á USD 30/tonn við framleiðslu rafmagns. Þetta kemur kjarnorkunni til góða í samkeppni við kola- og gasorkuverin. Spá Alþjóðaorkumálstofnunarinnar um jafnaðan framleiðslukostnað á megawattstund árið 2020 fyrir grunnorku er rúmlega USD 100/ MWst fyrir gasorkuver en rúmlega USD 80/MWst við bæði kolaorkuog kjarnorkuver.

Áhrif fjármagnskostnaðar

Framleiðslukostnaður kjarnorkuvera er mjög háður fjármagnskostnaði því þau eru bæði tíma- og fjárfrek í uppsetningu en framleiða stöðuga orku á afar lágu einingaverði þar eftir. Þetta er sameiginlegt einkenni kjarnorkuframleiðslu og til dæmis jarðvarma- og vatnsorkuframleiðslu. Lágt vaxtastig ætti því að hvetja til framleiðslu á kjarnorku og endurnýjanlegri orku. Spá Alþjóðaorkumálastofnunarinnar er enda í samræmi við það.

Samkeppnisforskot Íslands

Það er athyglisvert að þrátt fyrir afgerandi lýsingar Alþjóðaorkumálastofnunarinnar um lækkandi framleiðslukostnað á endurnýjanlegri orku þá nálgast þessi kostnaður ekki þann sem við búum við á Íslandi. Til einfalds samanburðar má geta að Landsvirkjun seldi árið 2014 raforku til iðnaðar á USD 25,9/MWst. Hafa skal í huga að hér er borin saman annarsvegar framleiðslukostnaður og hinsvegar söluverð. Samkeppnisforskot íslenskrar raforku gæti því verið meira en hér hefur komið fram.