Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, var tekin tali í Morgunblaðinu á dögunum, þar sem hún sagði farir sínar ekki sléttar í samskiptum við fjölmiðla í kringum Panamaskjölin, Wintris-málið eða hvað menn vilja helst kalla það allt. Afleiðing umfjöllunarinnar var sú að Sigmundur Davíð hrökklaðist frá völdum og raunar enn óljóst um pólitíska framtíð hans. (Hann er þó ekki einn um slíka óvissu þessar vikurnar!)

Nú er lýsing Önnu Sigurlaugar á málsatvikum frá sinni hlið um margt fróðleg og vel skiljanlegt að hún sé ekki fyllilega sátt við allt sem þar bar til. Hún telur að vinnubrögð fjölmiðlanna hafi ekki verið fyllilega heiðarleg, þeir hafi ekki verið greint frá upplýsingum, sem þau hjón hafi gefið um margrætt Wintris og nefnir að sér kæmi „ekki á óvart þó einhverjir úr hópi kröfuhafanna hafi ýtt undir þessa umfjöllun og séð sér verulegan hag í því að velta forsætisráðherra landsins úr sessi .“

Fjölmiðlarýnir ætlar sér ekki að skera úr um hvað er réttast í þessu öllu. Það er rétt að hafa í huga að enginn hefur borið fv. forsætisráðherra sökum í þessu samhengi, en það er einnig rétt að minnast þess að það voru ósannfærandi svör hans og framkoma, sem mestri úlfúð ollu með fyrrgreindum afleiðingum. Þegar kemur að umboði almennings er ekki allt klippt og skorið, allra síst eftir lagabókstafnum einum.

* * *

Hitt er rétt að undirstrika, að hið sögulega sjónvarpsviðtal í Ráðherrabústaðnum leiddi ekkert efnislegt í ljós um málið, sem þar var til umfjöllunar. Strangt til tekið var viðtalið ónauðsynlegt til þess að segja fréttina og greina frá efni máls, þó vitaskuld sé rétt að bera slíkt undir viðkomandi. Ekki síst þegar um valdhafa er að ræða, sem starfa í umboði almennings. Viðtalið sjálft var hins vegar aðeins tekið í dramatískum tilgangi, nákvæmlega sviðsett í þeim tilgangi að koma forsætisráðherra í opna skjöldu fremur en til þess að afla svara við einhverjum tilteknum spurningum.

Nú lúta sjónvarpsfréttir vitaskuld sérstökum lögmálum, þær þurfa að sýna hlutina ekki síður en að segja þá. Jafnvel frekar, ef unnt er. En þær á ekki og má ekki sviðsetja.

Það er rétt að minnast þess, að það er grundvallarskylda hvers blaðamanns, að segja satt. Þar undir fellur, að hann má ekki villa á sér heimildir.

Það er sjaldnast heiðarleg blaðamennska að segja fréttir úr launsátri, þó það kunni stundum að vera óhjákvæmilegt. Svo var ekki í þarna, en það var samt ekki handan hins siðlega að sænski fréttamaðurinn Sven Bergman skyldi spyrja SDG út í fleira en uppgefið tilefni viðtalsins.

Það er þegar Jóhannes Kr. Kristjánsson gekk inn í viðtalið, sem eðli þess breyttist og launsátrið og leikaraskapurinn blöstu við. Það lýtur ekki einasta að þessum dramatísku markmiðum, heldur má einnig segja að þá hafi viðtalið farið að snúast öðrum þræði um Jóa, eins og raunar kom fram í þættinum.

Með þessum athugasemdum er ekki verið að gera lítið úr fréttinni eða veita SDG syndaaflausn; hin efnislegu atriði geta menn rætt á öðrum vettvangi. En vinnubrögðin í viðtalinu voru ekki til fyrirmyndar og báru vott um óþarfa æsifréttamennsku. Panamaskjölin stóðu alveg undir fréttunum sjálf.

* * *

Kveðjum SDG ekki alveg strax. Í Fréttatímanum um liðna helgi var skopmynd yfir leiðaranum, þar sem Sigmundur Davíð var í hlutverki hengda mannsins.

Nú er Fréttatíminn auðvitað ekki eiginlegt fréttablað, heldur vikurit þar sem blandað er saman mannlífsefni og fréttatengdu efni frá sjónarhorni vinstrimanna. Það er ekkert að slíkum málgögnum og lýðræðið hefur gott af aðhaldi, jafnvel þannig að einstakir stjórnmálamenn fái að finna fyrir því. En að draga upp myndir af dauðdaga þeirra, þó það sé aðeins í óeiginlegri merkingu, er vel handan þess, sem siðlegt og sæmandi má teljast.

* * *

Í Stundinni var furðuleg frétt um að barnaníðingur nyti góðs af breytingu laga um rafrænt eftirlit með föngum á reynslulausn, en þar var skeytt saman mynd af barnaníðingnum og Kaupþingsmönnunum svokölluðu, sem á sínum tíma fengu einnig reynslulausn með slíkan ökklahring.

Upplegg fréttar Braga Páls Sigurðarsonar var nánast eins og við þá Kaupþingsmenn væri að sakast vegna þessa, gefið til kynna að lögin hefðu verið sett þeim til þæginda og sagt að Stundin hefði ónefndar heimildir fyrir því að lögin hefðu verið samþykkt í flýti.

Þarna var hvergi farið með hrein og klár ósannandi, en framsetningin var óheiðarleg, meinfýsin og galin.