Aðeins örgustu vinstrimönnum dettur í hug að reyna að finna aukinni samkeppni í smásöluverslun allt til foráttu. Fyrir íslenska vinstrimenn, sem eru enn frosnir í kalda stríðinu eins og mamman í kvikmyndinni Good Bye, Lenin, þá getur verið erfitt að viðurkenna að báðir aðilar hagnast á frjálsum viðskiptum.

Þrátt fyrir að flestir sjái kosti og kjarabót við virka samkeppni þá er lítill þrýstingur á stjórnmálamenn að afnema samkeppnishömlur þar sem ríkið ber ábyrgð á að þær séu til staðar. Framleiðsla á mjólkurvörum, áfengissala og leigubílaakstur kemur fyrst upp í hugann sem dæmi um markaði sem ríkið hefur ákveðið að ekki sé hægt að treysta fólki fyrir. Íslenska íhaldið virðist halda að einhver sérstök rekstrarhagfræðilögmál gildi um þessar atvinnugreinar á Íslandi, á sama tíma og samkeppni virkar vel á öðrum mörkuðum og þessum sömu mörkuðum í löndunum í kringum okkur.

Með reglugerð frá 2003 er ákveðið að 520 leigubílar skuli vera á höfuðborgarsvæðinu. Þessi fjöldi er óbreyttur síðan, þótt landsmönnum hafi fjölgað um 17% og ferðamönnum um 460%. Vandséð er hvaða rök búa að baki þessu kvótakerfi. Fiskurinn í sjónum er jú takmörkuð auðlind, en það eru bílar og bílstjórar ekki.

Afnám kvóta á leigubíla myndi lækka verð, stytta biðtíma og bæta þjónustu. Ég á enn eftir að hitta þá manneskju sem hefur prófað leigubílasmáforrit, eins og Uber og Lyft, sem var ósátt við reynsluna. Ódýrari leigubílar minnka líka þörfina fyrir það sem fer mest í taugarnar á sumum þeirra sem eiga leið um miðborgina um þessar mundir; einkabíla og rútur

Þegar reynsla er komin á þetta mun engum detta til hugar að snúa til baka. Eða er einhver til sem vill banna bjórinn aftur?