*

mánudagur, 22. apríl 2019
Leiðari
9. nóvember 2014 12:15

Fullorðinsfrelsi

Í grunninn snýst áfengisfrumvarpið um frelsi einstaklingsins til að ráða sínum málum sjálfur.

Eva Björk Ægisdóttir

Á þessum síðum hefur ekki verið fjallað mikið um áfengisfrumvarp Vilhjálms Árnasonar og fleiri þingmanna, en það er ekki vegna þess að frumvarpið þyki ómerkilegt eða að efni þess falli ekki að ritstjórnarstefnu Viðskiptablaðsins. Þvert á móti er sú breyting sem mælt er fyrir um í frumvarpinu svo sjálfsögð og réttlát að óskiljanlegt verður að telja ef það fær ekki framgang innan þingsins.

Vissulega eru margir sem mæla frumvarpinu í mót og færa fyrir því ýmiskonar rök, mjög misgóð, að áfengissala eigi eingöngu heima hjá ríkinu. Að mörgu leyti felur málflutningur andstæðinga frjálsari áfengissölu því miður í sér vantraust á getu fullorðins fólks til að stýra eigin áfengisneyslu.

Það er vissulega rétt að samfélagslegur kostnaður fylgir áfengisneyslu, einkum vegna þess að í íslenska velferðarkerfinu lendir obbinn af heilbrigðiskostnaði á skattgreiðendum. Fáir mæla hins vegar með því að sala og neysla á áfengi verði bönnuð. Sú tilraun var gerð á síðustu öld og gekk ekki upp. Sátt er sem sagt um það að hægt sé að nálgast og neyta áfengis. Spurningin snýst eingöngu um það hver eigi að sjá um söluna.

Þar lenda andstæðingar frumvarpsins í ákveðnum kröggum, því skilaboðin hafa verið mjög á víxl. Ein rök gegn frumvarpinu eru þau að aðgengi að áfengi verði allt of mikið þegar áfengi sé hægt að kaupa í matvöruverslunum. Hins vegar hafa forsvarsmenn ÁTVR ítrekað bent á þann árangur sem náðst hefur í að auka aðgengi almennings að áfengi, t.d. með opnun nýrra verslana.

Þá virðast andstæðingar frumvarpsins ekki vera á eitt sáttir um hvort þeir séu á móti því vegna þess að það muni leiða til verðlækkunar á áfengi (og þar með meiri áfengisneyslu) eða verðhækkunar (sem felur í sér kjaraskerðingu fyrir almenning). Annaðhvort mun framboð á áfengi aukast eða dragast saman, en hvor sem niðurstaðan verður er hún ástæða fyrir andstæðingana til að berjast gegn frumvarpinu.

Aðgengi barna að áfengi hefur einnig verið til umræðu og segjast sumir andstæðinga frumvarpsins sjá fyrir sér að börn muni eiga auðveldar með að nálgast áfengi verði hægt að kaupa það í Bónus. Við þessu er tvennt að segja. Allir sem alist hafa upp á Íslandi vita það mæta vel að unglingar undir lögaldri hafa aldrei átt í neinum sérstökum erfiðleikum við að útvega áfengi fyrir skólaböll þrátt fyrir yfirumsjón ríkisins á áfengissölu. Hitt er það að börn mega heldur ekki kaupa tóbak, en einkareknum verslunum er engu að síður treyst til að selja fullorðnu fólki þetta efni. Engin sérstök ástæða er til að ætla að sama fólk og selur tóbak geti ekki einnig selt áfengi.

Enginn verslunarmaður vill fá þann stimpil á sig að hann selji börnum tóbak og það sama mun eiga við um áfengi. Ábyrgar verslanir munu gæta þess mjög vel að eingöngu þeir sem lögum samkvæmt mega neyta áfengis munu kaupa það.

Í grunninn snýst málið samt um frelsi einstaklingsins til að ráða sínum málum sjálfur, að því gefnu að hann skaði ekki aðra. Á það jafnt við um einstaklinginn sem vill kaupa sér áfengi og einstaklinginn sem vill selja honum það.

Stikkorð: Leiðari
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim