*

mánudagur, 23. október 2017
Týr
17. mars 2012 08:57

Fulltrúar „þjóðarinnar“

Nú benda flestar kannanir til þess að Hreyfingin muni þurrkast út af þingi í næstu kosningum. Þýðir það að „þjóðin“ mun enga fulltrúa eiga á þinginu?

Þingmennirnir Þór Saari, Margrét Tryggvadóttir og Birgitta Jónsdóttir taka þátt í mótmælum á Austurvelli þann 7. júlí 2010.
Hörður Kristjánsson

 

Týr hefur alltaf fyrirvara á fólki, sérstaklega stjórnmálamönnum, sem telja sig tala fyrir hönd „þjóðarinnar“ öllum stundum. Týr man vel þegar vondir og ráðríkir stjórnarherrar töldu sig alltaf tala fyrir hönd þjóðarviljans á 20. öldinni með skelfilegum afleiðingum.

***

Týr hefur fylgst vel með þingmönnum Hreyfingarinnar á undanförnum árum. Allt frá því að þeir stóðu fyrir utan Alþingi og létu öllum illum látum í hinni svokölluðu búsáhaldabyltingu í byrjun árs 2009 og voru kjörnir á þing fyrir Borgarahreyfinguna nokkrum mánuðum síðar.

***

Nú er Týr hlynntur því sem kallast endurnýjun í pólitík og í raun telur Týr hana nauðsynlega. Kjör þeirra Þórs Saari, Margrétar Tryggvadóttur, Birgittu Jónsdóttur og Þráins Bertelssonar á þing breytir þeirri skoðun Týs ekki — þó að full ástæða sé til að staldra við hversu mikilvæg endurnýjunin er ef þetta er útkoman. Þráinn tilheyrir þó ekki þessum hópi lengur en það hefur hann ekki upp til vegs og virðingar í augum Týs.

***

Þingmenn Hreyfingarinnar líta svo á að þeir séu einu fulltrúar „þjóðarinnar“ á þingi. Fyrir utan það hvað sú afstaða er röng í ljósi þess að allir kjörnir fulltrúar á þingi sitja þar í umboði kjósenda — er hún í öllu falli hrokafull. Þessir einu fulltrúar þjóðarinnar telja sig vera í baráttu við hinn svokallaða fjórflokk öllum stundum. Reyndar hefur Týr ekki orðið var við baráttu þeirra við núverandi stjórnarflokka, þvert á móti.

***

Það hlýtur að vera þung byrði að bera fyrir þessa fulltrúa „þjóðarinnar“ að sitja á Alþingi. Það útskýrir kannski af hverju þessir fulltrúar „þjóðarinnar“ tóku ekki þátt í umræðu um hert gjaldeyrishöft sl. mánudagskvöld. Hefði „þjóðin“ ekki þurft að hafa sína fulltrúa viðstadda?

***

Á beinni línu á dv.is í gær var Þór Saari spurður að því hvað honum fyndist um þá tilhneigingu stjórnmálamanna að „hanga á prinsippum“ (sem Týr hefur þó ekki orðið var við). Svar Þórs var einfalt: „Það er afleit tilhneiging sem hefur verið þjóðfélaginu dýr.“ Einmitt það sem „þjóðin“ þarf, færri þingmenn með prinsipp.

***

Nú benda flestar kannanir til þess að Hreyfingin muni þurrkast út af þingi í næstu kosningum. Týr mun lítið sjá eftir þeim en spyr þó; þýðir það að „þjóðin“ mun enga fulltrúa eiga á þinginu?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.