Hér áður fyrr tíðkaðist að eyrnamerkja tiltekna stjórnarmenn ákveðnum hluthöfum. Skipti þá engu þótt um stór almenningshlutafélög væri að ræða. Stjórnarmenn sem sjálfir voru kjölfestuhluthafar höfðu eðlilega eigin hugmyndir og stefnumótun í fyrirrúmi og þeim fylgdu jafnvel samstarfsmenn eða aðrir aðilar sem voru kallaðir „fulltrúar hluthafans“. Þræði annarra stjórnarmanna var svo jafnvel hægt að rekja til tiltekinna hluthafa. Í daglegu tali var hver og einn stjórnarmaður gjarnan titlaður„fulltrúi tiltekins hluthafa“ og sjálfsagt hefur ekki hvarflað annað að stjórnarmönnum í einhverjum tilvikum en að líta á sig sem slíka.

Símtöl frá hluthöfum til einstakra stjórnarmanna þóttu ekki endilega tiltökumál, svo lengi sem stjórnarmaðurinn taldi sig „fulltrúahluthafans“ og taldi eðlilegt að fylgja eftir boðum hans og bönnum. Hópur „fulltrúa tiltekinna hluthafa“var ekki endilega trúverðugasti vettvangurinn fyrir aðra hluthafa sem ekki náðu „fulltrúum sínum“ í stjórn. Óháðir stjórnarmenn höfðu hins vegar ekki litið dagsins ljós og engum datt í hug annað en að „fulltrúar stærstu hluthafanna“ væru einir hæfastir til að gæta hagsmuna allra hluthafa og annarra hagaðila félagsins. Það er reyndar ekki alveg rétt því hugtakið „hagaðili félagsins“ var ekki til, ekki frekar en óháður stjórnarmaður. Stærstu hluthafarnir voru taldir nauðsynlegir og nægjanlegir til að stýra félaginu og aðrir hluthafar höfðu ekki aðgang að stjórnarmönnum nema á skipulegum hluthafafundum.

Trúverðugleika slíkra stjórna var í seinni tíð komið á með því að leggja áherslu á strangar reglur um þagnarskyldu og trúnað, og að um skráð félög gildi lögum verðbréfaviðskipti sem fjalla um innherjasvik og miðlun innherjaupplýsinga og gera slíkt athæfirefsivert. Einangrun stjórnar jókst því frekar en annað. Sem betur fer höfum við náð langt síðan þetta var. Nútímahluthafar og stjórnarmenn taka trúnað sinn gagnvart félaginu og öllum hluthöfum þess alvarlega og lýsa jafnvel opinberlega yfir að þeir séu sjálfstæðir í störfum sínum. Þeir hafa metnað fyrir starfi sínu og vita sem er, að vandaðar ákvarðanir fyrir viðkomandi félag og hluthafa þess verða ekki teknar á grundvelli framangreindra leikreglna. Þá auka þær síst trúverðugleika stjórnarmannanna sjálfra. Fyrir það fyrsta eru stjórnarmenn ekki „fulltrúar tiltekinnahluthafa“, nema því aðeins að lög, samþykktir eða samningar kveði á um það.

Lög um hlutafélög og dómaframkvæmd mæla fyrir um að stjórnarmenn verði að gæta að jafnræði hluthafa um upplýsingar, og þeir mega ekki gera neitt það sem hyglir einum hluthafa umfram annan. Þeir sem enn þá falla í þá gryfju að tala um „fulltrúa tiltekinna hluthafa“ gera sig seka um gamaldags stjórnarhætti og virðast gera ráð fyrir að það tíðkist almennt að stjórnarmenn virði þessar lögboðnu skyldur sínar að vettugi. Sem betur fer hafa flestir viljann til að læra og komast inn í nútímann.

Það er reyndar verðugt rannsóknarefni af hverju slík rökleysa náði að festa rætur jafn djúpt í íslensku viðskiptalífi og raun ber vitni, en sú rannsókn verður að bíða betri tíma. Í annan stað leitast nútíma stjórnarmenn við að hlusta eftir sjónarmiðum allra hluthafa sem vilja láta til sín taka. Skiptir þá reyndar engu máli hvort stjórnarmenn eru sjálfir stórir hluthafar, háðir stórum hluthöfum eða óháðir hluthöfum, enda er markmið nútíma stjórnarmanna að taka ákvarðanir sem koma félaginu og hagaðilum þess best en ekki einstökum hluthöfum. Skipuleg fjárfestatengsl hafa færst í aukana, ásamt formlegum fundum með hluthöfum sem þess óska.

Þar er sjónarmiðum hluthafa, hagsmunum og öðrum upplýsingum frá hluthöfum komið á framfæri með rekjanlegum, formlegum og opnum hætti. „Coldcalling“ frá hluthöfum til „fulltrúasinna“ eru vinnubrögð gamla tímans, varhugaverð og á hverfanda hveli. Þeir sem gera ráð fyrir að slíkt tíðkist eða hvað þá heldur stýri störfum einstakra stjórnarmanna, eru einnig fastir í gamla tímanum og rökleysunni um „fulltrúahluthafans“. Þetta eru nútíma stjórnarhættir – þar sem nútíma stjórnar menn eiga opin samskipti við hluthafa og aðra hagaðila, sem aftur gerir þeim kleift að taka bestar ákvarðanir fyrir félagið sjálft og haghafa þess. Á Strategíudeginum, 6. september nk. verður m.a. fjallað um upplýsingagjöf og samskipti stjórnarmanna og stjórnenda við hluthafa, undir yfirskriftinni „Hver má vita hvað?“. Þar munu ráðstefnugestir heyra af reynslu fulltrúa eigenda, stjórna og stjórnenda bæði hér heima og erlendis.

Höfundur er meðgeigandi hjá Strategíu.