*

sunnudagur, 21. apríl 2019
Óðinn
22. júní 2018 15:01

Fullveldið og íslensk króna

Óðinn er sáttur við að horfið hafi verið frá upptöku evru.

epa

Starfshópur um endurmat á peningastefnu Íslands skilaði af sér skýrslu á dögunum. Þar var gengið út frá þeirri forsendu að krónan yrði gjaldmiðill Íslendinga í nánustu framtíð. Í skýrslunni er að finna ágæta sögulega yfirferð.

  ***

Myntbandalag Norðurlandanna 1873-1920

Árið 1873, þegar Ísland var hluti af danska ríkinu, stofnuðu Danmörk, Svíþjóð og Noregur með sér myntsamband með nýrri mynteiningu sem nefnist norræn króna. Hið nýja myntbandalag var á gullfæti. Samstarfið fól í sér að hver sænsk, dönsk eða norsk króna hafði jafnmikið virði í gulli, eða 0,4 grömm. Þannig var hægt að nota mynt landanna í hinum samstarfslöndunum. Fyrstu íslensku krónurnar voru gefnar út af Landssjóði árið 1885 en þær voru þó ekki gulltryggðar heldur stóðu skatttekjur Íslands að baki þeim.

  ***

Sjálfstæði Íslands

Í skýrslunni kemur fram að í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga hafi myntmál nær aldrei borið á góma og það hafi verið gengið út frá því að Ísland héldi áfram þátttöku í myntbandalagi Norðurlanda sem sjálfstæður aðili. Um það var þverpólitísk sátt. Þetta höfðu Norðmenn gert eftir aðskilnað frá Svíþjóð árið 1905. Þessu til staðfestingar þá var aðildin að norræna myntsamstarfinu rituð inn í sambandssáttmálann þegar Ísland fékk fullveldi árið 1918.

  ***

Myntbandalagið hrynur

Norræna myntbandalagið hrundi árið 1920 í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar. Þetta gerðist þrátt fyrir að ekkert Norðurlandanna tæki með beinum hætti þátt í stríðinu. Ástæðan var aðallega sú að stríðið leiddi til mikillar hækkunar á öllum hrávörum sem gagnaðist bæði Noregi og Danmörku sem matvælaútflytjendum. Svíar högnuðust hins vegar mun meira þar sem þeir fóðruðu hergagnaiðnað Þjóðverja á járni og timbri. Á stríðsárunum voru Danir og Norðmenn með viðskiptahalla en Svíar með gríðarlegan viðskiptaafgang. Það leiddi til þess að í frjálsum viðskiptum hækkaði sænska krónan í verði miðað við þá norsku og dönsku en sænski seðlabankinn varð samt sem áður að kaupa myntir norrænu samstarfslandanna á fullu verði samkvæmt reglum myntsamstarfsins. Það leiddi til spákaupmennsku þar sem fjárfestar keyptu danskar og norskar krónur á markaðsgengi og skiptu síðan aftur í sænskar krónur á hinu opinbera gengi. Þetta olli ósamstöðu milli seðlabankanna þriggja sem síðan varð til þess að myntbandalaginu var slitið.

  ***

Af þessari sögu má sjá að þá litu menn ekki á sjálfstæða mynt sem forsendu fyrir fullveldi Íslands. Enda væri slíkt fráleitt svo lengi sem landið gefi ekki frá sér þann rétt að taka upp eigin mynt ef vilji stæði til þess síðar.

Hugmyndir að evru frá 1929

Draumamynt fámenns hóps í íslenskum stjórnmálum nefnist evra. Hugmyndin að evrunni var fyrst sett fram, eins og Óðinn hefur áður bent á, af hinum þýska Gustav Stresemann, kanslara og utanríkisráðherra Þýskalands á árunum 1923-1929. Á fundi Þjóðarráðsins 9. september 1929 spurði hann: „Hvar er evrópska myntin og frímerkið sem við þurfum?“ Mánuði síðar var skollin á heimskreppa og Stresemann látinn úr hjartaáfalli, aðeins 51 árs gamall.

  ***

Walther Funk, bankastjóri Ríkisbankans (Reichsbank) og efnahagsmálaráðherra Þýskalands, kom árið 1942 með mjög mótaðar hugmyndir um sameiginlega evrópska mynt og efnahagssamstarf undir heitinu „Europäische Wirtschaftsgemeinschaft“ eða Evrópska efnahagssvæðið. Þótt þær hugmyndir eigi margt sameiginlegt með þeim hugmyndum sem síðar urðu að veruleika, þá var markmið þeirra allt annað. Áform Hitlers voru að taka yfir Evrópu og stjórna henni. Með hugmyndum um sameiginlegan gjaldmiðil ætluðu nasistar að taka yfir peningaprentunarvald allrar Evrópu.

  ***

Upptaka evrunnar forsenda sameiningar

Á endanum var það pólitísk ákvörðun að taka upp evru. Francois Mitterrand, forseti Frakklands 1981-1995, vildi taka upp sameiginlega mynt sem franskir seðlabankamenn gætu haft áhrif á. Helmut Kohl, kanslari Þýskalands 1982- 1998, var hins vegar ekki jafn sannfærður. Í grein sem birtist í Der Spiegel segir að allt bendi til þess að Mitterrand hafi gert sameiginlega mynt að skilyrði fyrir sameiningu Vestur- og Austur-Þýskalands. Vitnað er í orð Karls Otto Pöhl, bankastjóra Seðlabanka Þýskalands 1980-1991, þar sem hann segir að „evrópska myntsamstarfið hefði mögulega ekki orðið að veruleika ef Þýskaland hefði ekki sameinast“.

  ***

Hvað mynt hentar Íslandi?

Í sjálfstæðisbaráttunni voru myntmálin lítið til umræðu. Óðinn er þeirrar skoðunar að Ísland eigi að gefa ákaflega lítinn afslátt af fullveldisréttinum í alþjóðlegu samstarfi, og alls ekki ef sá afsláttur verði ekki aftur tekinn. Innganga í Evrópusambandið er forsenda upptöku evru. Í inngöngunni felst verulegt fullveldisafsal sem í ljósi útgöngu Bretlands úr sambandinu er ekki auðfengið til baka.

  ***

Á myntsamstarfi Norðurlandanna frá 1873-1920 sést best hversu ólíkir efnahagslegir hagsmunir geta verið. Myntbandalag þriggja ríkja, sem var með áþekkan efnahag en varð ólíkur tímabundið í fimm ár vegna stríðs, entist aðeins í 37 ár.

  ***

Margir höfðu litla trú á því fyrirfram að evran gæti lifað í svo ólíkum löndum sem evrulöndin 19 eru. Ekki síst þegar lönd eins og Ítalía og Grikkland bættust í hópinn. Óðinn ætlar ekki að rifja upp efnahagshörmungarnar í Grikklandi eftir árið 2008. Í dag eru augu kommisaranna á Ítalíu. Efnahagur Ítalíu er sá fjórði stærsti af Evrópuríkjunum og 10-falt stærri en sá gríski. Vandamál Ítalíu eru ekki endilega evrunni að kenna en gætu stofnað samstarfinu í hættu.

  ***

Óðinn er sáttur við að horfið hafi verið frá upptöku evru. En það er illskiljanlegt hvers vegna stjórnvöld skoða ekki kosti og galla fleiri gjaldmiðla.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim