*

laugardagur, 22. september 2018
Huginn og muninn
15. apríl 2018 12:34

Funheitt vor

Óvanalegt er að sjá svo skipulega undirróðursherferð í kosningabaráttu hérlendis, hvað þá svo löngu fyrir kosningar. Þetta verður greinilega funheitt vor!

Haraldur Guðjónsson

Kosningabaráttan í Reykjavík virðist loks hafa farið af stað nú eftir páska, eins og sjá má á því að fylgið er komið á hreyfingu. Meirihluti Samfylkingarinnar er fallinn ef marka má könnun Fréttablaðsins og eins kemur á óvart hve víðtæk óánægjan með Dag B. Eggertsson borgarstjóra er, 43% eru óánægð með störf hans en aðeins 29% ánægð. Samfylkingin er greinilega að fara á taugum vegna þessa, því á samfélagsmiðlum er hafin undirróðursherferð gegn Eyþóri Arnalds, mjög í ætt við falskar fréttir.

Þannig birti Guðjón Friðriksson sagnfræðingur, ein helsta málpípa Samfylkingarinnar á Facebook, langt syndaregistur af viðskiptaferli Eyþórs, uppfullt af beinum og óbeinum rangfærslum. Þetta létu sér svo vel líka tugir eftirlifandi flokksbrodda Samfylkingarinnar, sem margir hverjir dreifðu óhróðrinum áfram. Óvanalegt er að sjá svo skipulega undirróðursherferð í kosningabaráttu hérlendis, hvað þá svo löngu fyrir kosningar. Þetta verður greinilega funheitt vor!

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.