Lesa mátti frétt á vef DV um gaur sem nokkuð misjafnt orð fer af, en í fyrirsögninni var vitnað í SMS sem hann hafði sent óheppnum viðtakanda. Þar sagði:

mikid hlakkar mer ad hitta a thig aumingi […]

Blaðamaður DV afbar greinilega ekki að nota þágufallssýkta tilvitnunina í fyrirsögn, svo hann smitaði hana af þolfallssýki og hafði „Mikið hlakkar mig […]“, þar til einhverjum íslenskumanninum ofbauð og herjaði á ritstjórnina uns í fyrirsögn mátti loks lesa „Mikið hlakka ég […]“.

Vafalaust létti mörgum áhugamanni um gott mál við þetta, þó vissulega væri hringlið með fyrirsögnina frekar broslegt. Hitt er annað mál, að fyrst verið var að taka þetta í fyrirsögn á annað borð hefði verið bragðmeira að láta málvilluna halda sér.

* * *

Í framhaldi af þessu spyrja vafalaust margir til hvers gæsalappirnar séu þá eiginlega, hvort það megi ekki treysta því að þar innan sé allt alveg og nákvæmlega eins og í upprunalegu heimildinni, allt orðrétt með villum og öllu. Svarið við því er nei, það er ekki alveg svo klippt og skorið.

Í tilvitnuninni í meginmáli fréttarinnar er textinn úr SMS-skeytinu raunar stafréttur, jafnvel þannig að brodd vantar á broddstafi. Flestir myndu fallast á að það væri óþarfa nákvæmi í tilvitnun, nema að það skipti sérstöku máli í fréttinni.

Staðreyndin er sú að allir blaðamenn snyrta það til, sem þeir hafa eftir fólki. Fyrsta verkið er að velja til birtingar þær setningar, sem helst eiga erindi við almenning og eru í samhengi við fréttina. Hitt láta þeir eiga sig.

Þeir fjarlægja yfirleitt allt uml, humm og ha, taka saman setningar ef viðmælandinn fer á flakk, eins og getur hent í töluðu máli, laga augljós mismæli og samræma jafnan stafsetningu þó hreimur eða framburður kynni að gefa tilefni til annars.

Það er ekkert að því, svo framarlega sem merkingin kemst til skila, ummælin eru ekki afbökuð, tekin úr samhengi eða ámóta.

Væri haldið í málvillur og ambögur væri þvert á móti hætta á að þær yrðu lesandanum slíkur þyrnir í augum að þær trufluðu hið eiginlega innihald. Nú eða hitt, að menn teldu þær birtar óleiðréttar viðmælandanum til háðungar eða lítillækkunar.

Þess vegna eiga blaðamenn að að laga slíkt í máli viðmælenda, nema að fjólan skipti sérstöku máli, hún varði efni fréttarinnar, varpi sérstöku ljósi á það eða gefi lesandanum fyllri mynd.

Stundum eru málblómin eða ruglið þannig að blaðamaður þarf að setja (svo!) aftan við, þannig að lesandinn átti sig á því að þar er ekki um slys miðilsins að ræða. Með það þurfa menn þó að fara mjög sparlega nema þeir vilji drepa lesandann úr yfirlæti. Og ef blaðamenn skrifa það upp á lat- ínu (sic!) ætti að hía á þá á götu.

* * *

Blaðamenn hafa þann starfa að upplýsa lesendur sína, sem oft kallar á að þeir einfaldi flókin mál, greini aðalatriði frá aukaatriðum. Það getur líka átt við um beinar tilvitnanir. Blaðamenn mega stytta þær og snyrta, svo framarlega sem merkingin kemst til skila.

Þar skiptir auðvitað máli hvers kyns ummælin eru og hvernig þau eru til komin. Sé vitnað í beina ræðu úr ræðustól á Alþingi þarf hvert orð að vera rétt eftir haft, en styttingar auðkenndar með […]. Viðtal við sama þingmann í hliðarherberginu nokkrum mínútum síðar kallar ekki á sömu nákvæmni.

Fyrirsagnir lúta síðan eigin lögmálum að þessu leyti sem öðru.

Þegar blaðamenn eru að taka mál viðmælenda saman með þessum hætti er hins vegar varlegast fyrir þá að snúa orðum þeirra í óbeina ræðu. Inni í þeim má þá hafa lykilsetningar eða meitluðustu frasana innan gæsalappa.

Í óbeinni ræða hafa blaðamenn mun meira athafnafrelsi til þess að þátta það sem menn höfðu að segja og leggja fyrir lesandann með skipulegri hætti en viðmælandinn náði að stynja upp. Þar getur blaðamaðurinn sem áður valið úr það bitastæðasta, umorðað langlokur eða flatneskjur, skeytt saman setningum og látið ummælin þjóna frásögninni en ekki öfugt.

Því fer þó fjarri að hann geti farið sínu fram með óbeinni ræðu. Eftir sem áður verður hún að vera í góðu samhengi við það sem viðmælandinn sagði, blaðamaðurinn má ekki undanskilja það sem máli skiptir, taka ummælin úr samhengi, leggja honum gildishlaðin orð í munn eða gefa villandi hugmynd um afstöðu hans.

Best fer yfirleitt á því að blaðamaður skrifi knappa útlistun á orðum viðmælenda í óbeinni ræðu, en taki það sem mestu skiptir og síst má fara milli mála í beina tilvitnun innan gæsalappa.