Mikil vakning hefur orðið meðal íslenskra fyrirtækja um mikilvægi samfélagsábyrgðar. Stjórnendur og starfsfólk fyrirtækja hafa áttað sig á því að þau geta haft verulega jákvæð áhrif á samfélagið á sama tíma og viðskiptalegum árangri er náð.

Í ítarlegri samantekt Fréttablaðsins í síðustu viku mátti sjá útlistun íslenskra fyrirtækja á samfélagsábyrgðarstefnu þeirra og ávinningi. Var þar komið inn á fjölmarga þætti samfélagsábyrgðar svo sem endurvinnslu, minnkun kolefnisfótspora, aukins jafnréttis og fleira.

Þegar slíkur slagkraftur er kominn í starfið er vert að huga að sérstöðu íslensks samfélags og hvort ábyrgðarmarkmiðin sem oftast eru af alþjóðlegum toga megi einnig vera af nærtækari meiði.

Slíkri hugmynd var hvíslað að mér í síðustu viku af fjölmiðlakonunni Evu Maríu Jónsdóttur sem kom með ferskan vinkil inn í umræðu um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja. Hvernig væri að íslensk fyrirtæki settu sér það göfuga markmið að standa vörð um íslenska tungu?

Með hröðum tæknibreytingum og alþjóðavæðingu fylgja ný orð og hugtök. Þörfin á myndun íslenskra nýyrða eykst því stöðugt og hvetja þarf til notkunar þeirra í daglegu tali. Auðvitað verður ekki hjá því komist að fyrirtæki notist við ensku og önnur tungumál í alþjóðlegum rekstri. Þess vegna er góð enskukunnátta algjör forsenda áframhaldandi velmegunar á Íslandi.

En hver er tilgangur allrar þessarar velmegunar, þegar öllu er á botninn hvolft? Er það ekki meðal annars að standa vörð um stöðu og sérkenni Íslands; og þá einna helst tungumálsins – okkar dýrasta arfs?

Nú í ár höldum við upp á 100 ára fullveldisafmæli Íslands og því ærið tilefni til þess að veita gaum góðri og frumlegri notkun tungumálsins okkar í atvinnulífinu. Rétt eins og verðlaunað er fyrir gott markaðsstarf, góða stjórnarhætti og gott starfsumhverfi þá er tilvalið að hvetja þau fyrirtæki til dáða sem hlúa vel að íslenskunni.

Höfundur er framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.