*

fimmtudagur, 25. apríl 2019
Leiðari
2. mars 2017 10:18

Gamalt vín á nýjum belgjum

Allar mótbárur gegn áfengisfrumvarpinu sem nú liggur fyrir þinginu hafa heyrst áður, þó í eilítið breyttri mynd sé.

Axel Jón Fjeldsted

Í gær voru liðin 28 ár frá því að sala á áfengum bjór var loksins leyfð hér á landi. Afnám bjórbannsins var ekki afgreitt á einni nóttu, heldur var það afrakstur margra ára baráttu frelsisunnenda innan þings og utan. Fjölmargir reyndu að setja stein í götu þessa réttlætismáls og er áhugavert að skoða málflutning þeirra og bera saman við málflutning þeirra sem nú vilja koma í veg fyrir að áfengi verði selt í öðrum verslunum en þeim sem eru í ríkiseigu.

Algengt viðkvæði er að áfengisfrumvarpið sé í raun afar ómerkilegt og að illskiljanlegt sé hvers vegna verið sé að eyða tíma þings og þjóðar í þetta mál þegar önnur og brýnni eru enn óleyst.

Svavar Gestsson sagði í ræðu þann 9. maí 1988: „Hvernig í ósköpunum stendur á því að það er svona mikill áhugi á þessu máli? Er hérna verið að leysa kannski efnahagsvandann? Er verið að leysa vanda byggðarlaganna, rekstrarvanda útflutningsatvinnuveganna eða rekstrarvanda alþýðuheimilanna?Ætli það sé verið að bæta hérna sérstaklega kjör þeirra heimila sem eru með mörg börn eða unglinga á sínu framfæri? Ætli það sé hérna mál um að koma sérstaklega til móts við þær fjölskyldur sem eiga við félagslega erfiðleika að stríða? Er hér kannski á ferðinni lausnarorðið fyrir þessar fjölskyldur?“ Svavar hafði nokkrum dögum áður sagt um meinta forræðishyggju skoðanasystkina hans: „Við þekkjum það þegar við umgöngumst börnin okkar að við viljum gjarnan halda þannig á málum við þau að þau verði ekki fyrir því að lenda í klóm vímugjafanna sem herja á yngstu kynslóðina í okkar landi eins og mörg önnur lönd á okkar menningarsvæði. Þá beitum við forræðishyggju sem foreldrar. Það þýðir ekki, a.m.k. við mig, að setja mál þannig upp að við berum ekki ábyrgð gagnvart einstaklingunum í þjóðfélaginu. Það gerum við sem hér erum.“

Svavar var þarna beinlínis að líkja almenningi í landinu við börn og þingmönnum við foreldra. Skýrari verður forræðishyggjan ekki.

Þá hefur því verið haldið fram að ekki sé í frumvarpinu gert nægilegt ráð fyrir mótvægisaðgerðum, til að spyrna við aukinni neyslu áfengis. Steingrímur J. Sigfússon sagði þann 23. mars 1988: „Þar sem það er sannfæring mín að vel athuguðu máli að tilkoma áfengs öls án nokkurs viðbúnaðar eða hliðarráðstafana eins og hér eru tillögur um muni leiða til aukinnar áfengisneyslu og aukinna vandamála því samfara, stóraukins kostnaðar í heilbrigðiskerfinu, heilsutjóns og félagslegs tjóns treysti ég mér ekki til að standa að slíkri breytingu með þeim hætti sem hér er lagt til.“

Allar mótbárur gegn áfengisfrumvarpinu sem nú liggur fyrir þinginu hafa heyrst áður, þó í eilítið breyttri mynd sé. Afnám bjórbannsins hafði ekki þær skelfilegu afleiðingar sem Svavar, Steingrímur og félagar þeirra spáðu. Það að leyfa sölu áfengis í öðrum verslunum en þeim sem ÁTVR rekur mun ekki gera það heldur.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim