*

föstudagur, 19. apríl 2019
Andrés Magnússon
17. nóvember 2016 15:35

Geitin logar

Fjölmiðlarýnir gerir að tillögu sinni að þjóðsöngnum verði breytt til þess að endurspegla þetta nýjasta siðrof landsmanna.

Haraldur Guðjónsson

Aðeins um eitthvað annað en flokkspólitík og stjórnarmyndun. Að undanförnu hafa ýmsir íslenskir fréttamiðlar fjallað um að á Facebook séu áfengisauglýsingar leyfðar, jafnvel þannig að merkja megi nokkra andúð þar á.

Þessar fréttir ristu fæstar djúpt og báru ekki vott um að íslenskri rannsóknablaðamennsku hefði fleygt mikið fram. Þannig var alveg látið vera að minnast á að Facebook leyfir alls ekki áfengisauglýsingar án takmarkana. Þvert á móti eru þær frekar skilyrtar, meðal annars gagnvart mismunandi fjölmiðlaneytendahópum, sem er meira en nokkur hefðbundinn miðill ræður við.

***

Svo má auðvitað nálgast þetta úr hinni áttinni: Af hverju eru áfengisauglýsingar bannaðar í íslenskum miðlum, sem ætlaðar eru Íslendingum? Á sama tíma er erlendum miðlum með áfengisauglýsingum hleypt óritskoðuðum inn í landið, innlendum miðlum leyfist að birta brennivínsauglýsingar svo framarlega sem lesmálið er á útlensku eða miðilinn þykir ætlaður útlendingum öðrum fremur.

Eða – svo við tökum þetta bara alla leið – að spyrja hvers vegna áfengisauglýsingar eru yfirhöfuð bannaðar?

***

Þegar menn hafa yfir setninguna „Með lögum skal land byggja“ gleyma þeir oft einatt seinni hlutanum: „...en ólögum eyða“. Lítum nánar á það í 10 liðum:

***

Í 1. lagi eigum við engar hömlur að setja á tjáningarfrelsið og auglýsendur eiga ekki að vera annars flokks borgarar í þeim efnum.

Í 2. lagi eru lög þessi sérstaklega til þess fallin að menn reyni að fara í kringum þau og auka þannig á almennt virðingarleysi laga, þ.e.a.s. vond lög gengisfella öll lög, góð sem slæm.

Í 3. lagi má spyrja hver beri ábyrgð á birtingu ólöglegra auglýsinga á netinu. Það veltur nefnilega á vafranum þínum og uppsetningu þinni á honum hvort auglýsingin birtist eður ei.

Í 4. lagi má líta svo á að lögin séu úr gildi fallin vegna þess að stjórnvöld hafa ekki framfylgt þeim með skipulegum hætti. Ríkið má ekki framfylgja lögum af handahófi eða gerræði. Þannig hefur ríkið gefið út auglýsingarit um áfengi áratugum saman (verðskrá Fríhafnarinnar í KEF), áfengisauglýsingar í málgagni Barþjónafélagsins hafa verið látnar óátaldar, sem og í mörgum íslenskum tímaritum, sem vill svo til að gefin eru út á erlendum tungumálum.

Í 5. lagi er öldungis ófrágengið með hvaða hætti lögsaga ríkisvaldsins er á netinu, eins og löggæslan ber fyrir sig um Facebook (en ekki um klámservera í útlöndum).

Í 6. lagi er verið að skerða tekjumöguleika innlendra fjölmiðla á meðan erlend blöð og tímarit eru niðurgreidd af áfengisauglýsingum. Þannig vega þessi lög óbeint að prentfrelsinu, jafnvel þó svo við gæfum okkur að það næði ekki til auglýsenda.

Í 7. lagi standa lögin í skjóli hins óskammfeilna stjórnarskrárákvæðis, sem heimilar skorður á tjáningarfrelsi í nafni heilbrigðissjónarmiða. Á sama tíma eru leyfðar auglýsingar á smjeri, rjóma, eggjum og KEAhangiketi.

Í 8. lagi hefur aldrei verið sýnt fram á að lögin skili öðrum árangri en betri svefni bindindisfrömuða. Þvert á móti jókst áfengisneysla á Íslandi eftir að lögin um auglýsingabann voru sett árið 1969 jafnt og þétt uns nokkrum árum eftir að léttvínsstefnan svonefnda var upp tekin. Hún hefur síðan minnkað undanfarin ár þrátt fyrir aukið frelsi í áfengismálum. Áfengisauglýsingar miða nefnilega ekki að aukinni drykkju almennt, heldur aukinni drykkju tiltekinna tegunda.

Í 9. lagi felast í auglýsingum nauðsynlegar neytendaupplýsingar. Það á ekki síður við um áfengisauglýsingar en aðrar.

Í 10. lagi lifum við í vondu þjóðfélagi þegar menn lesa eitthvað í blöðum eða á Vefnum og hringja rakleiðis í þar til gert opinbert batterí, sem bregst við með ritskoðun.

***

Fyrirsögn vikunnar var á vef Vísis og fjallaði um jólasiði í Garðabæ: Sjáðu IKEA-geitina loga.

Fjölmiðlarýnir gerir að tillögu sinni að þjóðsöngnum verði breytt til þess að endurspegla þetta nýjasta siðrof landsmanna.

Sól slær silfri á voga,
sjáðu geitina loga.
Allt er bjart fyrir okkur tveim,
því ég er kominn heim.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim