*

föstudagur, 20. október 2017
Óðinn
17. júlí 2012 14:28

Gengið á höfuðstólinn

Ofan á óvissu í atvinnurekstri með örum breytingum á skattkerfinu gerir óvissa um verð gjaldmiðilsins alla áætlun ómögulega.

Haraldur Guðjónsson

Ný þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem birt var í síðustu viku var mikil vonbrigði, en spá Hagstofunnar fyrir hagvöxt í ár var lækkuð þriðja árið í röð. Í spá Hagstofunnar sem birt var sumarið 2010 var því spáð á hagvöxtur ársins 2012 yrði 3,4%. Ári síðar, sumarið 2011, spáði Hagstofan að hagvöxtur ársins 2012 yrði 3,1% og nú er því spáð að hagvöxtur ársins verði 2,8%.

Það er þó ekki lág spá Hagstofunnar sem veldur Óðni helst áhyggjum heldur að hagvöxturinn, sem mælst hefur og spáð er, er ósjálfbær og afleiðing af takmörkunum þjóðhagsreikninga frekar en raunverulegs efnahagsbata. Fjárfestingin er ekki einungis lág, heldur er hún sennilega í raun neikvæð og í stað þess að verið sé að byggja upp höfuðstól til að skapa verðmæti til framtíðar er verið að ganga á núverandi höfuðstól með því að sinna ekki eðlilegri endurfjárfestingu.

Það er marklaust hjal að tala um að kreppunni sé lokið á meðan það er verið að kynda heimilið með stofustássinu.

* * *

Það er erfitt að meta endurfjárfestingu, enda liggur efnahagsreikningur og sjóðstreymi þjóðhagsreikninga ekki fyrir, auk þess sem þjóðhagsreikningar byggja á sögulegu verði hlutanna en ekki endurstofnsverði. Það er þó hægt að skoða ýmsar vísbendingar og þær benda til þess að verið sé að ganga á höfuðstólinn. Sú fyrsta snýr að opinberum rekstri og hana finna borgarbúar þegar ekið er um götur borgarinnar, en þeim hefur lítið verið viðhaldið undanfarin ár og eru sumar hverjar orðnar álíka holóttar og sveitavegir. Slíkt er vafasamur sparnaður, enda kemur að því að það þarf að gera við göturnar og í mörgum tilfellum verður það enn dýrari en ella ef göturnar eru látnar drabbast niður í stað eðlilegs viðhalds.

* * *

Hvað heimilin varðar, þá hefur viðhald á heimilum stórminnkað, að hluta til má rekja þetta til þess hversu lengi gengislánamálin hafa tafist fyrir dómstólum. Hins vegar er það lítið hlutfall af heimilum með neikvætt eigið fé að það skýrir ekki eitt og sér ef heimilin eru almennt að ganga á höfuðstólinn. Önnur leið til að skoða hvort verið sé að ganga á höfuðstólinn er að skoða meðalaldur fólksbílaflotans.

Það er ekki gert vegna þess að bílar séu svo merkilegur mælikvarði á lífskjör fólks, heldur gefum við okkur að ekki hafi verið nein viðhorfsbreyting hjá fólki almennt gagnvart bílum og ætti það þess kost þá hefði það viðhaldið bílaflotanum með sama hætti og áður. Þá kemur í ljós að bílaflotinn hefur aldrei verið eldri og að skapast hefur veruleg endurfjárfestingarþörf í bílum. Miðað við ofangreindar forsendur má gera ráð fyrir að það sama gildi um aðrar varanlegar og hálfvaranlegar fjárfestingar heimilanna.

* * *

Gróf nálgun til að skoða hvort fjárfesting í hagkerfinu sé næg til að viðhalda núverandi fjármagnsstofni er að bera fjárfestingu í þjóðhagsreikningum saman við fyrningar í þjóðhagsreikningum. Þá kemur í ljós að fjárfesting er orðin minni en fyrningar. Það þýðir að ef við gefum okkur að mat Hagstofunnar á fyrningum sé raunhæft mat á endurstofnverði þeirra fjármuni sem eru notaðir á hverju ári, sem er ólíklegt, er hagkerfið að ganga á höfuðstólinn. Það hefur ekki gerst áður og gögnin ná aftur til 1990.

Það er áhyggjuefni hversu lítil atvinnuvegafjárfesting er, sér í lagi í ljósi þess að hagkerfið ætti að vera að laga sig að nýju jafnvægi í kjölfar gengisfalls krónunnar og breyttra viðskiptakjara. Þá er einnig ástæða til að óttast að fyrningar séu stórlega vanmetnar, bæði í þjóðhagsreikningum og reiknisskilum fyrirtækja þar sem verðbólga er aftur orðin bæði há og viðvarandi.

* * *

Ímyndum okkur fyrirtæki sem fjárfesti í vél á 1.000 krónur fyrir 10 árum síðan. Áætlaður líftími vélarinnar var tíu ár og hún því afskrifuð línulega á tíu árum. Ef engin verðbólga hefði verið á tímabilinu hefðu fyrningar dugað fyrir kaupum á sambærilegri vél að tíu árum liðnum og fyrningar gefið raunhæfa mynd af notkun fastafjármuna á tímabilinu. Ef verðverðbólga hefði verið 2,5% eins og verðbólgumarkmið Seðlabankans gerir ráð fyrir væru 100 fyrningar að nafnvirði á 10. ári um verið 80 krónur að raunvirði, 20 krónur kæmu fram sem hagnaður, þar með væri fyrirtækið að auka hagnað með því að ganga á höfuðstól. Uppsöfnuð fyrning á 10 ára tímabili miðað við verbólgumarkmið Seðlabankans er 897 krónur og hefur því verið gengið á höfuðstólinn um 103 krónur. Ef við miðum svo við raunverulega verðbólgu undanfarin 10 ár, þá væri 100 króna fyrning að nafnvirði á 10. ári 59 krónur að raunvirði og 1.000 króna uppsöfnuð fyrning á þessu 10 ára tímabili 808 krónur að raunvirði.

* * *

Þegar fólk einblínir á nafnstærðir en ekki raunstærðir er það það sem kallast peningaglýja. Algengasta birtingarmynd hennar hér á landi er að við erum alltaf að mæla okkur í íslenskum krónum en ekki myntum sem eru gjaldgengar á alþjóðamörkuðum.

Fyrir þremur vikum var bent á það í þessum pistli hvernig útflutningstekjur Íslands hafa stóraukist frá hruni, þótt útflutningsverðmæti mælt í alþjóðlegum myntum hafi lítið sem ekkert aukist. Óðinn sér að Paul Krugman nóbelsverðlaunahafi í hagfræði flaskar á þessu í umfjöllun um Ísland. Peningaglýja á myntir hefur líka áhrif á fjárfestingu þar sem flestar atvinnugreinar eru háðar innfluttum tækjum. Sú atvinnugrein sem bestar upplýsingar liggja fyrir um fjárfestingar í er fjarskipti en Póstog fjarskiptastofnun tekur saman greinargott yfirlit um markaðinn.

Ef miðað er við nafnstærðir hafa tekjur símafyrirtækjanna aukist um 37% frá 2006 til 2011, ef hins vegar er notast við raunstærðir hefur markaðurinn dregist saman um 5,5%. Stór hluti fjárfestinga greinarinnar er hins vegar í erlendum myntum og ef miðað er við evrur hafa tekjur greinarinnar dregist saman um rúm 25% á tímabilinu. Fjárfestingar greinarinnar námu 62,6 milljónum evra árið 2006 en 29,5 milljónum evra árið 2011. Það er því alveg ljóst að sú grein hefur verið að ganga verulega á höfuðstól sinn.

* * *

Svar ríkisstjórnarinnar við minni fjárfestingu er að boða stóraukin pólitísk ítök í atvinnulífinu undir yfirskini „fjárfestingaáætlunar“, sem er annað heiti á verðmiða Guðmundar Steingrímssonar. Þarna er verið að snúa hlutunum á haus. Aukin fjárfesting er einkenni heilbrigðs atvinnulífs en ekki orsök þess, annars hefðu fimm ára áætlanir Sovétríkjanna og Indlands verið vel heppnaðar. Simon Kuznets komst að þeirri niðurstöðu að líkast til væri beint framlag aukinna vinnustunda og fjármunamyndunar til hagvaxtar á mann vel innan við einn tíundi. Afgangurinn skýrðist af bættum „gæðum“ vinnuafls og aðfanga, betra skipulags framleiðslu og tækniframförum.

* * *

Hvað gæði vinnuafls varðar hefur Ísland búið vel, þjóðin er ung, vel menntuð og vinnumarkaður sveigjanlegur. Ríkið getur haft bein áhrif á betra skipulag framleiðslu. Því miður hefur núverandi ríkisstjórn tekist ákaflega illa upp í því efni. Hér hefur verið við lýði hagkvæmt fiskveiðistjórnunarkerfi en ákveðið hefur verið að fórna því á altari öfundarinnar. Síðan eru forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hissa þegar sjávarútvegsfyrirtæki greiða út arð! Sú afleiðing veiðigjaldsins, að þau sjávarútvegsfyrirtæki sem það geta muni greiða út arð, var auðvitað algjörlega fyrirsjáanleg. Ef vænt arðsemi atvinnugreinar er minnkuð, þá eru fyrirtæki í greininni auðvitað ekki jafn fús til að endurfjárfesta hagnað sinn í henni.

* * *

Núverandi ríkisstjórn hefur aukið óvissu í atvinnurekstri með örum breytingum á skattkerfinu og gjaldeyrishöftum en óvissa um raunverulegt verð gjaldmiðilsins gerir alla langtíma áætlunargerð ómögulega. Óðinn ætlar sér ekki að leggja mat á hvort núverandi gengi krónunnar sé hátt eða lágt, hann bendir hins vegar á pistilinn fyrir þremur vikum þar sem fram kemur að laun á Íslandi mæld í evrum á föstu verðlagi eru nú um 35% lægri en þau voru árið 2000 og fasteignaverð um 17% lægra en það var árið 2003. Það gefur sterka vísbendingu um að raungengi krónunnar sé töluvert undir langtímajafnvægi, þótt „snjóhengjan“ svokallaða sem hleðst upp innan haftanna gæti valdið lækkun. Nú á sér stað mikil uppbygging í ferðaþjónustu. Hversu arðbær á hún eftir að reynast ef gengið styrkist á ný?

Og hvers vegna er hún ekki miklu meiri ef gengið er að fara að veikjast enn frekar? Þetta er óvissa sem engin skynsamleg svör eru við í dag, óvissa sem á einungis rætur sínar að rekja til íslensku krónunnar og sem við gætum losað okkur við með upptöku annarrar myntar.

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu 12. júlí síðastliðinn. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild sinni undir liðnum Tölublöð hér að ofan.

Stikkorð: Óðinn
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.