Margt bendir til þess að kaupmáttur hér á landi í krafti gengisstyrkingar krónunnar fáist ekki staðist til lengdar. Með öðrum orðum: krónan er of sterk gagnvart helstu gjaldmiðlum og mun þar af leiðandi gefa á endanum eftir þar til að jafnvægi næst á ný. Sumir sérfræðingar telja sterlingspundið breska vera sérstaklega veikt gagnvart íslensku krónunni (líkt og ýmsum gjaldmiðlum öðrum) og eigi inni umtalsverða styrkingu.

Samanburður á verðlagi á sambærilegri vöru á milli landa er ágæt leið til þess að átta sig á stöðu gjaldmiðils. Í því samhengi kannast margir við Big Mac-vísitöluna sem The Economist tekur árlega saman. Þar kemur markaðsbrestur hamborgarahyggjunnar berlega í ljós: McDonalds fæst ekki lengur á Íslandi og því ekki hægt að bera saman verð á Big Mac til þess átta sig á stöðu krónunnar gagnvart pundinu.

Þar af leiðandi verður að taka það sem hendi er næst og bera saman verð á styttum af fílum í fullri stærð. Slíkur fíll kostar tæplega hálfa milljón króna í Costco. Sami fíll kostar hins vegar tæplega 600 þúsund krónur hjá framleiðanda í Lancashire á Englandi (fyrir áhugasama heitir framleiðandinn Pangea Sculptures og hefur það að markmiði að færa hjarta Afríku inn á heimili þitt). Við þetta bætist svo álagning verslunar auk flutningskostnaðar.

Miðað við þetta er auðvelt að álykta að krónan eigi eftir að styrkjast enn frekar gagnvart pundi. Aftur á móti er hægt að komast að þveröfugri niðurstöðu ef gert er ráð fyrir flutningskostnaði og álagningu í útsöluverð hér á landi. Það er eflaust engin tilviljun að samkvæmt fréttum var það sérfræðingur á fjármálamarkaði sem festi kaup á gíraffanum, sem einnig fékkst í sömu búð. Af þessu má sjá að flestir ættu að drífa sig inn í Kauptún til að hamstra fíla og selja síðar á hærra verði.