Það er í tísku nú á dögum að hefja fjártæknifyrirtæki (e. fintech) til skýjanna og dásama hugmyndaauðgi og snerpu þeirra. Þau eru borin saman við þunglamaleg fjármálafyrirtæki. Rétt eins og Mark Twain sagði um sjálfan sig, þá eru fréttir af dauða fjármálafyrirtækja stórlega ýktar. Þau eiga hins vegar augljóslega undir högg að sækja. Þar beinast spjótin helst að greiðslumiðlun, eignastýringu og lánastarfsemi, sérstaklega hvers kyns neyslulánum. Þau svartsýnustu eða bjartsýnustu, allt eftir sjónarhorni, telja að greiðslumiðlunar bíði brátt sömu örlög og þjónustugreina eins og bókunar flugferða, gistingar og afþreyingar, bóksölu, miðlunar kvikmynda og tónlistar, fjölmiðlunar og leigubíla: Grundvallarbreyting á því hvernig og hvaða þjónusta er veitt og miskunnarlaus verðsamkeppni. Við bætist hnignun þeirra fyrirtækja sem fyrir eru á kostnað hugmyndaríkra og sprækra nýgræðinga. Stjórnvöld stuðla að samkeppni Fyrir utan krafta eins og tæknibreytingar, snjalltækjavæðingu og breytt viðhorf frumkvöðla, fjárfesta og almennings, þá hafa stjórnvöld víða um lönd tekið meðvitaða ákvörðun um að skapa aðstæður sem eru til þess fallnar að veikja stöðu banka á sviði greiðslumiðlunar og innleiða aukna samkeppni. Ég nefni tvennt:

  • Fyrstu tilskipun Evrópusambandsins um greiðsluþjónustu (PSD1) sem tók gildi 2009 og aðra tilskipun um sama efni (PSD2) sem tók gildi um miðjan janúar 2018. Með þessum tilskipunum hafa orðið til nýjar tegundir fjármálafyrirtækja, einkum greiðslustofnanir (e. payment institution) og rafeyrisfyrirtæki (e. electronic money institution), sem lúta vægari kröfum en bankar þannig að stofnun og starfsemi þeirra er einfaldari og ódýrari. Með PSD2 er afnumið kverkatakið sem bankar hafa á færslum af og á bankareikninga og aðgengi að upplýsingum um stöðu og hreyfingar þeirra (e. open banking). Ákvæði PSD1 voru innleidd hér á landi 2011 en PSD2 bíður innleiðingar.
  • Þróun miðlægra greiðslumiðlunar- og uppgjörsinnviða, gjarnan í eigu seðlabanka, sem gerir skyndigreiðslur mögulegar (e. faster payments, instant payments). Almenningur hefur lengi sent sms og tölvupóst um allan heim á örskotsstundu og keypt vöru í netverslun hvar sem er og hvenær sem er. Krafa nútímans er „samstundis 24/7/365“ (og helst ókeypis!) og greiðslumiðlun verð­ ur að laga sig að því. Við Íslendingar höfum reyndar búið við skyndigreiðslur í áratugi en víða annars staðar hefur lengst af tekið einn til tvo daga eða jafnvel lengur að millifæra milli bankareikninga.

Þegar síðan bætist við það sem við Íslendingar gætum kallað costcoheilkennið, þ.e. almenningur flykkir sér um nýjan aðila á markaði í því skyni að refsa „gömlu herrunum“, þá mega núverandi fjármálafyrirtæki vara sig.

Færsluhirðing á fleygiferð

Færsluhirðing, þ.e. greiðslukortaþjónusta við söluaðila, er eitt af svið­ um greiðslumiðlunar sem er á fleygiferð. Ég nefni eingöngu sex atriði en af nógu öðru er að taka:

  • Samþjöppun. Það er alkunna að starfandi fyrirtæki bregðast við utanaðkomandi ógn með samþjöppun til að tryggja samkeppnisstöðu sína með auknum slagkrafti samhliða auknu rekstrarhagræði. Í fyrra ákvað stærsti bandaríski færsluhirðirinn Vantiv að kaupa stærsta breska færsluhirðinn Worldpay fyrir um 10 milljarða Bandaríkjadala. Sameinað verð­ ur fyrirtækið hið langstærsta á þessu sviði. Markmiðið er að vera leiðandi í nýjungum og geta boðið færsluhirðingu um allan heim á góðu verði. Mörg önnur dæmi má nefna sem sýna þessa þróun.
  • Verðsamkeppni og styttri uppgjörstími. Vaxandi samkeppni í færsluhirðingu kemur m.a. fram í því að þjónustugjöld sem söluað­ ilar greiða lækka og uppgjörstími styttist. Þar sem áður tíðkaðist að gera upp við söluaðila t.d. einni viku eftir viðskipti (T+7), þá verð­ ur T+3 eða T+2 æ algengara. Á sumum mörkuðum er m.a.s. T+1 meginreglan. Styttri uppgjörstími, sérstaklega T+1 í færsluhirð­ ingu milli landa, kallar á öfluga áhættustýringu og fjárstýringu og krefst mikils aga og áreiðanleika í tölvukerfum og verkferlum. Það má bókstaflega ekkert hiksta. Þessi þróun veldur því einnig að smáir og meðalstórir færsluhirð­ ar reyna að finna markaðssyllur þar sem þjónustugjöld eru hærri. En eins og oftast vill verða, þá haldast í hendur verð og áhætta sem krefst þess að viðkomandi bæði skilji áhættuna og geti stýrt henni.
  • Aukin þjónusta. Vaxandi samkeppni krefst þess að aðilar á markaði reyni að skapa sér sérstöðu, t.d. með virðisaukandi þjónustu við söluaðila, auknum viðbragðshraða þegar eitthvað bregður út af, mikilli sérfræðiþekkingu og ráðgjöf og samstarfi við aðra birgja á öðrum sviðum þannig að söluaðilar geti fengið þægilegar pakkalausnir. Hér má t.d. nefna aðgengi söluaðila að ýmiss konar greiningu á viðskiptum og viðskipavinum og það að fá afgreiðslubúnað, bókhaldskerfi, vefsíðugerð og -umsjón, greiðslumiðlun og jafnvel fleira á einum stað. Færsluhirðar sem ekki fylgja straumnum og annaðhvort innleiða ekki nýjungar eða gera það hægar en keppinautarnir munu verða undir í samkeppninni.
  • Greiðslumiðlun hættir að verða sjálfstæður þjónustuþáttur. Á Íslandi tíðkast að söluaðilar semji beint og eigi samskipti við færsluhirðana Borgun, Kortaþjónustuna og Valitor. Víða erlendis eru samskiptin hins vegar við sérhæfða milliliði. Þessi þróun mun halda áfram. Á sama tíma mun greiðslumiðlunin falla æ meira í skuggann af viðskiptunum sjálfum. Gott dæmi um þetta er leigubílaþjónustan Uber þar sem greiðsluferlið er orðið að lítt áberandi aukaatriði, nánast horfið.
  • Aukin sviksemi. Með ýmiss konar tækninýjungum hefur tekist að draga úr svikum þegar greiðslukort eru notuð í posum. Þær gagnast ekki með sama hætti, eða jafnvel alls ekki, í netvið­ skiptum sem vaxa mun hraðar en hefðbundin posaviðskipti. Vöxtur kortamisnotkunar (e. friendly fraud) er sérstakt áhyggjuefni því vaxandi fjöldi korthafa er greinilega reiðubúinn að leika þann leik að misnota vel slípað endurkröfukerfi alþjóðlegu greiðslukortafélaganna eins og Mastercard og Visa (e. chargeback).
  • Aukin varfærni banka í greiðslumiðlun. Þetta gildir sérstaklega um færslur í Bandaríkjadal vegna himinhárra sekta bandarískra stjórnvalda á liðnum árum þegar bankar hafa ekki fylgt æ strangari reglum um aðgerðir gegn peningaþvætti eða brotið gegn viðskiptaþvingunum. Bankar tregðast við að hafa milligöngu um greiðslur þegar minnsti grunur vaknar um að þær séu ekki tandurhreinar eða geti skað­ að orðspor viðkomandi banka. Af sama meiði eru hertar reglur og aukið eftirlit alþjóðlegu greiðslukortafélaganna.

Íslenskir færsluhirðar í hringiðunni

Íslensku færsluhirðarnir Borgun, Kortaþjónustan og Valitor veita þjónustu bæði hér á landi og erlendis. Þessi fyrirtæki þurfa því að glíma við þær breyttu aðstæður sem hér hafa verið reifaðar. Næsta víst er að hart verður sótt að þeim á öllum mörkuðum. Ekki er að efa að þau hafa metnaðinn til að spjara sig. Það kostar skýra sýn, útsjónarsemi og þrautseigju. +

Höfundur er hagfræðingur og áhugasamur um greiðslumiðlun.