*

mánudagur, 27. maí 2019
Andrés Magnússon
10. nóvember 2018 13:43

Glæpur & lækning

Það vakti athygli á dögunum hvað starfsmenn Landsréttar gengu langt við að verja Thomas Møller Olsen fyrir blaðaljósmyndurum.

Haraldur Guðjónsson

Það vakti athygli á dögunum hvað starfsmenn Landsréttar gengu langt við að verja Thomas Møller Olsen sakborning í morðmáli Birnu Brjánsdóttur fyrir blaðaljósmyndurum, en í svörum skrifstofustjóra Landsréttar kom það helst fram að menn væru saklausir uns sekt væri sönnuð.

Þetta þóttu mörgum sérkennileg svör, enda almennt ekki litið svo á að fjölmiðlaumfjöllun sé refsing af neinu tagi, þó menn kunni að hafa óþægindi af athyglinni. Haukur Logi Karlsson, nýbakaður doktor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, skrifaði af þessu tilefni grein í Fréttablaðið og átaldi Landsrétt harðlega fyrir tilþrifin, að þar hefðu starfsmenn hans reynt „að koma í veg fyrir eðlilegan fréttaflutning af einu umtalaðasta dómsmáli síðustu ára, m.a. með því að sveipa sakborninginn svörtum gardínum“.

Jafnframt er rétt að hafa að sakborningurinn hefur sætt opinberri ákæru fyrir eitt alvarlegasta hegningarlagabrot sem hugsast getur og það eftir einhverja viðamestu sakamálarannsókn síðari tíma. Varla þarf að minna lesendur á hversu ákaflega var fjallað um málið í fjölmiðlum á sínum, eins og full ástæða var til. Þar fyrir utan hefur sakborningurinn nú þegar verið fundinn sekur fyrir héraðsdómi. Þessar hugmyndir starfsmanna Landsréttar um að sakborningurinn og ásjóna hans, ákæran og málsmeðferðin, verði af einhverjum ástæðum að liggja í þagnargildi eru tóm þvæla. Og það sem verra er, þær lýsa mjög annarlegum hugmyndum um hlutverk fjölmiðla, hið opna þjóðfélag og sjálft réttarríkið. Því það er ákaflega mikilvægt að réttvísin starfi fyrir opnum tjöldum nema mjög sérstakar ástæður séu til annars. Svo er ekki hér.

                                                              ***

Dr. Haukur bendir þó á fleiri og praktískari röksemdir í málinu, svo sem þær að líklegra sé að dómstóll komist að réttri niðurstöðu ef störf hans eru opin almenningi. Ástæðan sé einföld, því þá þurfi þjónar réttarins –  lögmenn, saksóknarar og dómarar –  að ógleymdum sakborningum, að vanda sig betur: Það eru því meiri líkur á mistökum og slælegum vinnubrögðum í réttarhaldi sem fer fram á bak við svarta gardínu, rétt eins og það eru meiri líkur á að fólk fari gegn rauðu ljósi þegar enginn er að horfa. Auðvitað finnst flestum þægilegast að vinna störf sín eftirlitslaust, að geta bara sinnt sínu í kyrrþey og ef eitthvað út af bregður, tja þá er ekkert víst að það vitnist. Og um flest störf skiptir það kannski litlu máli, ef varan í búðinni er gölluð, þá varðar mann ekkert um hvernig það bar til, maður skilar henni bara. En það á ekki við um dómsvaldið, því þar er ekki svo létt að skila gallaðri vöru, nema menn þekki aðferðina, atburðarásina og ástæðurnar Réttarhald er að öllu jöfnu opinber athöfn og það er góð ástæða til, ekki síst í sakamálum. Almenningur þarf að sjá og heyra hvað dómstólarnir og þjónar réttarins eru að bauka, enda hefur dómsvaldið varla nokkurt annað aðhald en réttlætistilfinningu almennings. Og þá er ekki nóg að menn geti kannski löngu síðar fengið að glugga í dómana (með eða án nafngreiningar!). Nei, það er einmitt eitt af hinum sérstöku hlutverkum fjölmiðla, að segja frá atburðarásinni í dómsölum jafnharðan. Þar eru þeir í sérstökum erindagjörðum almennings, sem dómsvaldið líkt og aðrar greinar ríkisvaldsins á völd sín undir. Þegar það reynir að draga tjöldin fyrir er ekki á góðu von. Vissulega geta verið sérstakar og málefnalegar ástæður fyrir því að takmarka fréttaflutning úr dómsölum, en þær miða þá yfirleitt að öðru hvoru, að vernda hina saklausu eða verja réttarhaldið truflunum. Hvorugt átti við þarna.

                                                              ***

Umfjöllun um heilbrigðismál er ekki mikil í íslenskum fjölmiðlum, miðað við það sem þekkist í helstu miðlum nágrannaþjóða. Hvorki hvað varðar almennt heilbrigði né framfarir í læknavísindum eða ámóta. Sem má telja eilítið skrýtið, því dyggustu neytendur fjölmiðla eru einmitt á því aldursskeiði, þegar áhugi á slíku gerir helst vart við sig og hefur mest á fróðleik af því taginu að græða. Hins vegar er talsvert fjallað í íslenskum fjölmiðlum um starfsaðstæður þessa víðfeðma geira, nokkuð á eina leið. Magnús Haraldsson, geðlæknir við Landspítalann og dósent við læknadeild Háskóla Íslands, vék að einum þætti þessa í ritstjórnarpistli í Læknablaðinu á dögunum og hvatti til þess að fjölmiðlar væru gætnari í umfjöllun um heilbrigðismál og sýndu ábyrgð í þeim efnum, en hann tekur umfjöllun fjölmiðla á því sviði oft vera of neikvæða og einhæfa. Hvatti raunar til sérstaks samstarfs, þar sem fjölmiðlar leituðu leiðsagnar heilbrigðisstétta um „hvernig best væri að fjalla með ábyrgum og yfirveguðum hætti um heilbrigðismál“. Magnús telur eðlilegt að málefni heilbrigðiskerf­isins séu mikið til umfjöllunar, málaflokkurinn varði nær alla landsmenn einhvern tímann á lífsleiðinni.

Hitt sé verra að fjölmiðlarnir fjalli nánast einvörðungu á neikvæðan hátt um heilbrigðismál. Endalausar fréttir af sumarlokunum, kjaradeilum, biðlistum og miklu álagi á heilbrigðisstarfsfólk virðist vera einu fréttirnar um heilbrigðisgeirann, sem fái rúmi í þeim. Magnús er skynsamur maður og áhyggjur hans eru skiljanlegar. En hann virðist líta hjá því að flestar þessara frétta eru runnar undan rifjum heilbrigðisstarfsmanna, hvort sem það er einhver spítalaforstjórinn að gráta fagurlega í aðdraganda fjárlagaumræðu eða verkalýðsforkólfar að barma sér í kjaraviðræðum. Aðallega lýsa tillögurnar þó ákveðnum (alls ekki óalgengum) misskilningi um eðli og hlutverk fjölmiðla.

Jú, það er mikilvægt að blaðamenn leiti til sérfræðinga og áreiðanlegra heimildarmanna um það sem sannast er og réttast í hverju máli, en þeir mega ekki njóta „leiðsagnar“ umfjöllunarefnanna um efnistökin. Fjölmiðlar eiga að segja fréttir, þær þurfa að vera réttar og eiga erindi við almenning. En þær eiga ekki að vera gerðar í samstarfi við umfjöllunarefnin og miðlarnir eiga ekki að sinna almannatengslum fyrir þau. Það er algengt að fólk vilji stýra umfjöllun um sjálft sig og það sem því stendur næst, en öllum finnst fráleitt að aðrir megi vera í slíkri stöðu. Af því það er fráleitt.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim