*

mánudagur, 28. maí 2018
Andrés Magnússon
5. janúar 2017 15:18

Gleðilegt, liðið ár

Vandinn var sá að viðtalið leiddi ekkert í ljós um efnisatriði málsins. Það gegndi aðeins dramatískum tilgangi, þeim að láta forsætisráðherra reka í vörðurnar.

Haraldur Guðjónsson

Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka. Skulum við rétt vona! Fjölmiðlarýnir ætlar samt að leyfa sér að skyggnast aðeins um öxl og tæpa á ýmsu því, sem fjallað var um á þessum stað á liðnu ári.

                                                         * * *

Ein fyrsta nóta liðins árs var um sérstakt áramótaskaup Stundarinnar okkar í Ríkissjónvarpinu (RÚV), þar sem pólitísk innræting og áróður skaut óvænt upp kollinum í barnatímanum. Það var ekki fyrr en allnokkru síðar, sem RÚV brást við gagnrýni á þessum fráleitu vinnubrögðum og lögbrotum ríkisfjölmiðilsins, en þá aðeins með einhverju mjálmi um að starfsmenn RÚV væru alveg sammála því að svona mætti nú ekki. Önnur voru viðbrögðin ekki!

                                                         * * *

Sérkennilegt mál kom upp á Hringbraut, óopinberu málgagni Viðreisnar, þar sem skoðanaskrif gervimanns á vegum ritstjórnar voru gerð að tilefni og heimild „fréttar“ án þess að þess væri í neinu getið. Það var auðvitað ekkert annað en fals.

Síðar á árinu – er leið að kosningum – kom raunar upp annað mál á Hringbraut, en þá komst á kreik tölvupóstur frá Sigmundi Erni Rúnarssyni, ritstjóra Hringbrautar, þar sem hann óskaði leiðbeiningar um viðmælendur frá Benedikt Jóhannessyni, formanni Viðreisnar, sem sagður er einn af bakhjörlum miðilsins.

                                                         * * *

Hið svonefnda „Hlíðamál“ frá 2015 var fellt niður af hálfu hins langa arms laganna, án þess að Fréttablaðið gerði því sérstök skil. Ljóst er að blaðið fór yfir margvísleg mörk í fréttum sínum um það, sem reyndust í höfuðatriðum ýkjukenndar, rangar og með hæpnar heimildir að baki.

                                                         * * *

Stærsta fréttamál ársins var án nokkurs vafa birting Panamaskjalanna. Þær fréttir reyndust einstaklega afdrifaríkar, gerðu út um forsætisráðherratign Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og leiddu til alþingskosninga í fyrra fallinu.

Enginn vafi leikur á því að þær fréttir áttu erindi við almenning, en á hinn bóginn vöknuðu alvarlegar spurningar um umgjörð þeirra. Einkum þá auðvitað „sænska viðtalið“ svokallaða við Sigmund Davíð, en þar var forsætisráðherranum veitt nokkurs konar fyrirsát í sjónvarpsvíðtali.

Vandinn var sá að viðtalið leiddi ekkert í ljós um efnisatriði málsins og var að því leyti óþarfi, hugsanlega til ógagns. Það gegndi aðeins dramatískum tilgangi, þeim að láta forsætisráðherra reka í vörðurnar. Slík sviðsetning kann að vera freistandi, en hún á ekkert skylt við fréttir. Og eftir á að hyggja, þá skyggði sá leikaraskapur á hina raunverulegu frétt málsins.

Að ógleymdu uppnáminu, sem á eftir fylgdi. Þar er ógleymanleg lýsing fréttamannsins Þórhildar Þorkelsdóttur, sem gekk með mótmælendum á milli flokksmiðstöðva stjórnarflokkanna og útskýrði fyrir áhorfendum fréttatíma Stöðvar 2 að það væri „rosaleg reiði í fólki“ sprengjuhljóð heyrðust og „bara augljóst að byltingin er hafin!“

                                                         * * *

Aðeins meira um Panama. Síðastliðið vor var boðað að nöfn um 600 Íslendinga kæmu fyrir í skjölunum þaðan og að gerð yrði nákvæm grein fyrir því öllu. Fjölmiðlarýnir hefur ekki haldið nákvæmt registur þar yfir, en hefur fleiri en 20-30 manns verið getið í því samhengi síðan? Frekar svona óeftirminnilega og án nokkurra ásakana um lögbrot?

Það vekur spurningar um hvort minni efni hafi verið í málinu en boðað var eða hvort það hafi skipulega verið þaggað niður síðan. Í ljósi þess að þar komu m.a. við sögu menn tengdir fjölmiðlum eins og Kjarnanum og Stundinni er enn mikilvægara að það verði upplýst áður en langt um líður.

                                                         * * *

Afleiðingar frétta af Panamaskjölunum urðu helstar þær að gengið var til kosninga. Aðdragandi þeirra var um margt fremur hefðbundinn, en þó verður ekki hjá því komist að minna á tvö innlegg Kastljóss Ríkisútvarpsins í kosningabaráttuna.

Annars vegar „frétt“ af símtali Davíðs Oddssonar við Geir Haarde í miðju hruninu, sem var mjög einkennilega tímasett og til þess fallið að hafa áhrif á kosningabaráttuna.

Og hins vegar hápólitískt viðtal við frú Evu Joly, sem Píratar buðu sérstaklega til landsins kortér í kosningar. Ríkisútvarpið hefur aldrei skýrt þá sérkennilegu dagskrá sína eða hvernig hún samrýmist vinnureglum þess eða lagaskyldum um hlutleysi ríkisfjölmiðils. Við bíðum spennt.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.