*

miðvikudagur, 20. mars 2019
Leiðari
9. nóvember 2018 12:02

Góð lending

Hugsanleg hækkun farmiðaverðs er lítill fórnarkostnaður miðað við allt hitt sem var undir ef WOW hefði orðið gjaldþrota.

Haraldur Guðjónsson

Stjórn Icelandair Group hefur gert kaupsamning á öllu hlutafé í flugfélaginu WOW air. Þetta var tilkynnt upp úr hádegi á mánudaginn. Taka ber fram að viðskiptin eru með fyrirvara um samþykki hluthafafundar Icelandair Group, samþykki Samkeppniseftirlitsins og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar.

Aðdragandinn að viðskiptunum var stuttur. Skúli Mogensen, eigandi WOW, óskaði eftir fundi með forsvarsmönnum Icelandair Group síðasta föstudagskvöld. Þá hafði félagið nýlokið við að greiða laun og reikninga og eftir það var ljóst að lausafjárstaðan var þannig að reksturinn var orðinn ósjálfbær. Það er eftirtektarvert að samningar um risaviðskipti af þessu tagi hafi verið kláraðir á einni helgi.

Bág fjárhagsstaða WOW air hefur hvílt eins og mara á íslensku efnahagslífi. Er það skiljanlegt enda risafyrirtæki með um 1.500 manns í vinnu. Þar að auki er þetta fyrirtæki sem skiptir íslenska ferðaþjónustu, stærstu atvinnugrein þjóðarinnar, miklu máli. Stjórnvöld hafa haft áhyggjur af stöðunni síðustu mánuði. Strax í mars fór af stað vinna innan Stjórnarráðsins við að meta hvaða fyrirtæki væru kerfislega mikilvæg fyrir íslenskt efnahagslíf og voru íslensku flugfélögin þar á meðal. Um miðjan ágúst birti WOW air fjárfestakynningu vegna skuldabréfaútboðs en þessi kynning veitti innsýn í fjárhagsstöðu félagsins. Í henni kom meðal annars fram að á tólf mánaða tímabili hafði félagið tapað tæplega 4,9 milljörðum króna. Í kjölfar tíðinda úr flugheiminum funduðu fjórir ráðherrar um þá stöðu sem upp var komin. Staðan var grafalvarleg.

Þær fréttir sem bárust á mánudaginn, að Icelandair Group hefði ákveðið að kaupa WOW, verða því að teljast mjög jákvæð því ef ekki hefði orðið af viðskiptunum virðist sem gjaldþrot hafi blasað við WOW. Ef það hefði raungerst hefði það orðið dýrt. Fjöldi fólks hefði misst vinnuna og þá er ekki ólíklegt að gjaldþrot af þessari stærðargráðu hefði haft dómínóáhrif – að önnur minni fyrirtæki, sérstaklega í ferðaþjónustu, hefðu fylgt á eftir.

Eftir að WOW kom inn á markaðinn vænkaðist hagur neytenda verulega enda bauð félagið upp á mjög lág fargjöld. Þeir svartsýnustu hafa nú sumir hverjir mestar áhyggjur af því að í kjölfar kaupa Icelandair á WOW muni farmiðaverð hækka. Það verður að teljast mjög líklegt að það gerist enda hefur komið í ljós að farmiðasalan stóð ekki undir rekstrinum. Fargjöldin voru of lág. Hækkun farmiðaverðs er lítill fórnarkostnaður miðað við allt hitt sem var undir ef félagið hefði orðið gjaldþrota.

Rekstur WOW hefur verið rússíbanareið. Félagið var stofnað árið 2011. Eins og tíðkast með félög í örum vexti þá tapaði WOW töluverðum fjárhæðum fyrstu árin. Árið 2012 nam tapið um 800 milljónum króna. Árið 2013 nam tapið ríflega 300 milljónum og árið 2014 nam tapið um einum milljarði. Árið 2015 snérist reksturinn síðan gjörsamlega við og félagið skilaði 1,6 milljarða hagnaði og árið 2016 nam hagnaðurinn 4,3 milljörðum.

Frá júní 2014 til febrúar 2016 lækkaði olíuverð um 76%. Í byrjun árs 2016 var verð á olíutunnu komið niður í 28 dollara og hafði það ekki verið lægra í 12 ár. Rekstur flugfélaga gekk gríðarlega vel á þessum árum og lét Michael OLeary, hinn umdeildi forstjóri Ryanair, hafa eftir sér að simpansi hefði getað rekið flugfélag með hagnaði á þessum árum.

Eftir þetta fór að síga á ógæfuhliðina og er stærsta breytan líklega óhagstæð þróun olíuverðs. Í haust fór verðið vel yfir 80 dollara, sem þýðir að á ríflega tveimur og hálfu ári hækkaði það um tæplega 200%. Þetta, ofan í mikla lausafjárkrísu, reyndist WOW ofviða.

Viðskiptablaðið, sem og ýmsir aðrir íslenskir fjölmiðlar, hafa allt síðan í sumarlok ítrekað bent á rekstrarvanda WOW og á stundum hlotið bágt fyrir. Í ljósi þess hversu mikið var undir var það skylda fjölmiðla að greina eins og vel og mögulegt var frá stöðu mála.

Stikkorð: Icelandair flugfélög wow
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.