*

fimmtudagur, 19. apríl 2018
Huginn og muninn
17. júlí 2017 10:03

Góður Dagur til að fara í frí

Borgarstjórinn virðist einungis í fríi gagnvart sumum málum, öðrum ekki, miðað við viðtöl síðustu daga.

Borgarstjórinn er duglegur að láta taka af sér myndir og fara í viðtöl þegar fjallað er um uppbyggingu, en síður þegar kemur að skítamálum.
Aðsend mynd

Skítaskandallinn í borginni hefur verið fyrirferðarmikill í borginni undanfarna daga, eins og vera ber yfir hásumar og allir í sólstrandarskapi. Margir undruðust að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skyldi ekki láta ná í sig, þó að blaðamenn þekki það svo sem vel að Dagur kynnir sjálfur góðu málin en lætur embættismennina um að svara fyrir þessi vondu.

Þegar loksins náðist í Dag, bar borgarstjórinn því við að hann hafi verið í fríi í vikunni og þess vegna ómögulega getað tjáð sig um þessi daunillu mál, sem þó brunnu mjög á borgarbúum og nærsveitungum.

En í Morgunblaðinu á föstudag birtist frétt með viðtali við Dag um íþróttamál í Úlfarsárdal, þar sem hann tjáði sig – að venju í nokkru máli – um samþykkt sem gerð var í borgarráði á fimmtudag. Þannig að hann var bara í fríi gagnvart sumum málum, öðrum ekki.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.