Í gúrkutíð sumarsins hafa samkeppnismál og verðlag borið hátt í fjölmiðlum. Alþjóðlegar verslanakeðjur eru að opna hér sjoppur, verðlag fer lækkandi á innfluttum vöruflokkum og landinn er að missa sig í kortastrokum. Hann hefur sjaldan eða aldrei getað keypt eins mikið magn af vörum með einni gjaldeyriseiningu og nú. Öll umræða um lækkandi verðlag og sögulega mikinn kaupmátt er í raun framandi og sérstakt fyrirbæri fyrir Íslendinga, sem hafa áratugum saman þurft að sæta áreiti verðbólgudraugsins. En hverjum eigum við að þakka fyrir þessa kjarabót?

Það þurfti ekki evrópska samneyslu og stjórnlyndi í Brussel til að lækka verð og bæta kjör neytenda. Þvert á móti hafa krónan, aukin samkeppni og afnám tolla átt drjúgan hlut að máli.

Krónan hefur styrkst talsvert undanfarna mánuði, einkum vegna fjármagnsinnflæðis í tengslum við ýmiss konar fjárfestingar. Sterk króna hefur flutt inn verðhjöðnun að utan með lækkun á verði á innfluttum varningi. Það gæti þó reynst skammgóður vermir og svikalogn. Fjármagnsstraumar á gjaldeyrismarkaði eru hvikulir. Innflæði getur hæglega snúist í útflæði, með tilheyrandi skakkaföllum fyrir gengi krónunnar.

Á hinn bóginn er aukin samkeppni á smásölumarkaði að þrýsta niður verði á innfluttum vörum, ásamt því að auka vöruúrval og gæði. Al­þjóðlegar verslanakeðjur á borð við Costco, Lindex og H&M hafa í auknum mæli séð hag sínum borgið með rekstri hér á landi. Í sjálfu sér er það stuðningsyfirlýsing við íslenska hagkerfið. Þar að auki versla Íslendingar sífellt meira við alþjóðlegar netverslanir. Í raun má tala um vatnaskil í íslenskri verslunarsögu, sem löngum hefur einkennst af fákeppni og frændhygli. Ólíkt flökti krónunnar geta áhrifin af aukinni samkeppni og erlendri fjárfestingu varað um langa framtíð. Þau eiga vissulega eftir að koma í ljós að fullu, en viðbrögð neytenda og fyrirtækja hingað til eru einkennandi fyrir aukna samkeppni og skilvirkni, sem skilar sér í lægra verði og aukinni velferð.

Geðstirfnin í herbúðum vinstrimanna vegna þessarar þróunar er eftirtektarverð. Það þykir ekki góð latína að „bandarískur kapítalismi“ sé að nema hér land og gefa lögmálum markaðarins byr undir báða vængi. Þeir segja að neytandinn muni menga meira, setja kaupmanninn á horninu á hausinn og hafa neikvæð áhrif á skipulag, samgönguhætti og mannlíf í byggð. Virðingin fyrir neytandanum er hér augljóslega ekki í fyrirrúmi.

Viðbrögð neytenda og áhrifin hingað til ættu að senda skýr skilaboð til ráðamanna í landinu. Skattar og gjöld á Íslandi eru há. Reglur og eftirlit er íþyngjandi. Samkeppnishömlur eru víða, svo sem í landbúnaði, á leigubílamarkaði og í áfengissölu. Skattgreiðendur eru þvingaðir til að niðurgreiða óhagkvæman fyrirtækjarekstur og eru um leið lagðir að veði fyrir honum. Í stað þess að leggja stein í götu einkaframtaksins, grafa undan einkarekstri og hindra samkeppni í atvinnulífinu ætti Alþingi að sýna hverjum það virkilega þjónar. Það er hægt að gera svo miklu betur.

Þessi fjölmiðlapistill birtist í Viðskiptablaðinu þann 3. ágúst 2017.