Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, á þakkir skildar fyrir að vekja máls á vissri grundvallarskekkju í uppbyggingu og nýtingu tækniinnviða á Íslandi. Í viðtali í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins bendir Stefán réttilega á að Síminn, stærsta fjarskiptafélag landsins, er ekki á neti Gagnaveita Reykjavíkur (GR). Sá bagalegi misskilningur kemur hins vegar fram í máli Stefáns að hann telur ástæðuna vera að Síminn vilji „ekki skipta við Gagnaveitu Reykjavíkur". Það er alrangt. Síminn hefur þvert á móti lengi verið áhugasamur um að kaupa þjónustu af GR, en því miður ekki enn haft erindi sem erfiði.

Dauðir strengir

Síminn hefur í mörg ár óskað eftir að kaupa sama óvirka aðganginn að ljósheimtaugum GR og býðst á öðrum ljósleiðarakerfum í landinu. Það er í hinum virka hluta, ofan á hinum dauða streng, sem framfarir í nýsköpun og þjónustuframboði verða. Samkeppni skilar neytendum nær engu ef hún fer fram þar sem enginn flöskuháls er né nokkur þróun fer fram, svo sem í skurðum, rörum og strengjum. Gróskan er fyrst og fremst í tæknilausnunum, hugbúnaðinum og þjónustunni þar ofan á.

Umfangsmeiri samnýting innviða er enda grunnstef greinenda á fjarskiptamarkaði á heimsvísu, í ljósi þeirrar kostnaðarsömu uppbyggingar sem innleiðing framtíðartækni mun hafa í för með sér. Má þar nefna fimmtu kynslóð farsímakerfa (5G) og internet hlutanna (IoT) sem dæmi. Samnýting og samvinna eru líka orð sem komu fyrir í fjarskiptaáætlun sem Alþingi samþykkti 2012 og þessi orð eru leiðarminnin í nýrri fjarskiptaáætlun sem unnið er að í samgönguráðuneytinu í samstarfi við hagsmunaaðila þessi misserin.

Nokkrar vikur eru liðnar frá því ráðuneytið birti drög að þessari nýju áætlun, í svokallaðri grænbókarútgáfu. Yfirlýst markmið stjórnvalda er að ljósleiðaravæðingu allra lögheimila og vinnustaða á Ísland verði lokið árið 2025. Því markmiði verður ekki náð nema með mun umfangsmeiri samnýtingu grunninnviða og framkvæmda.

Í samráðsferlinu hefur Síminn tekið undir þau sjónarmið að fjarskiptainnviðir í opinberri eigu verði nýttir til að efla öryggi og samkeppni. Hins vegar stefnir í að innleiðing 5G verði í besta falli aðeins náð fyrir afmörkuð svæði landsins ef stjórnvöld hlutast ekki til um aukna samnýtingu, til að hámarka jákvæð áhrif fjarskipta á hagvöxt og lífsgæði fyrir landsmenn alla.

Grátleg tvífjárfesting

GR hefur fjárfest fyrir rúmlega 30 milljarða á núvirði í fjarskiptainnviðum í jörðu á suðvesturhorni landsins. GR hefur aldrei frá stofnun félagsins skilað jákvæðu fjárflæði og í skjóli eignarhalds síns hjá Orkuveitu Reykjavíkur (OR) - með sjálfa Reykjavíkurborg sem bakhjarl - hefur GR nær ótakmarkað aðgengi að lánsfé. GR fjárfestir nú fyrir um þrjá milljarða á hverju ári, langt umfram veltu og getu félagsins sjálfs, í krafti endurtekinna hlutafjáraukninga og lánveitinga eigenda. Eign almennings á félaginu í gegnum OR hefur þannig gert því sjálfu kleift að koma sér upp ósjálfbærri skuldsetningu, sem heldur áfram að aukast um hundruð milljóna í hverjum mánuði. Furðulegt má telja að slíkt félag hafi ekki áhuga á að selja öllum sem vilja opinn aðgang að innviðum sínum.

Eins og staðan er núna standa GR og Míla, sem er opinn og reglustýrður heildsali í eigu Símans, í nokkurs konar vopnakapphlaupi á suðvesturhorninu. Þannig er enn verið að grafa niður tvöfalt ljósleiðaranet að fjölmörgum heimilum þrátt fyrir ekkert sé því tæknilega til fyrirstöðu að ein ljósleiðaralögn beri alla háhraða gagnaflutninga að hverju heimili um fyrirsjáanlega framtíð.

Offjárfestingin er leidd af GR og fer því miður öll fram þar sem minnst þarf á henni að halda, á suðvesturhorninu, sem dregur í staðinn úr fé til fjárfestinga á landsbyggðinni. Hin stafræna gjá, sem er nú þegar byrjuð að myndast milli suðvesturhornsins og landsbyggðarinnar, verður að óbreyttu ennþá dýpri í framtíðinni. 5G og ýmsar snjallar framtíðarlausnir reiða sig meira á ljósleiðarainnviði en fjarskiptaþjónusta dagsins í dag.

Grafan aftur á leið í garðinn

Langdýrasti þátturinn við ljósleiðaravæðingu er framkvæmdahlutinn í upphafi, þ.e. að grafa niður rörin og strengina. Blessunarlega hafa Míla og GR náð samkomulagi um að samnýta nýjar framkvæmdir í tilteknum hverfum, en eftir standa tugþúsundir íbúða, sem þegar eru tengdar. Að óbreyttu mun myndarlegur hluti íbúa suðvesturhornsins, sjálfir eigendur GR, fá gröfuna aftur til sín í garðinn og grafinn verður annar tilgangslaus skurður, við hlið hins fyrri.

Það er í raun stórundarleg staða að þurfa að takast á við almannaþjónustufyrirtæki á borð við GR í þessu einfalda máli. Það er hagur almennings að kerfi í hans eigu séu sem opnust þannig að svigrúm þjónustuaðila sé sem mest til að keppa um hylli notenda, með eigin tæknilausnum og mismunandi þjónustuframboði. Sú er því miður ekki raunin nú hjá borgarfyrirtækinu GR.

Höfundur er forstjóri Símans.