*

þriðjudagur, 18. desember 2018
Leiðari
15. desember 2017 14:11

Grunurinn staðfestur?

Svo virðist sem grunurinn um svikalogn á húsnæðismarkaði sé kannski eilítið meira en bara grunur.

Haraldur Guðjónsson

Fyrir einum og hálfum mánuði bar leiðari Viðskiptablaðsins fyrirsögnina „Svikalogn á húsnæðismarkaði?" Í leiðaranum var lagt út af nýbirtum tölum Samtaka iðnaðarins (SI) um fjölda íbúað í byggingu á höfuðborgarsvæðinu sem og tölum frá Hagstofunni um mannfjöldaspá.

Til upprifjunar þá leiddi talning SI í ljós að verið væri að byggja 3.700 íbúðir eða 14,7% meira en í febrúar. „Þetta er vissulega jákvætt en segir samt ekki alla söguna því nokkurra mánaða gömul spá samtakanna um hversu mörgum íbúðum verði lokið við að byggja á árunum 2017 til 2020 er fallin," sagði í leiðaranum sem birtist 2. nóvember. "Nú reiknar SI með því að tæplega 800 færri íbúðir verði fullbyggðar á þessu tímabili en þau gerðu ráð fyrir í spá sinni í febrúar. Þetta er grafalvarlegt mál.

Árlega þarf að byggja 1.500 til 2.000 íbúðir hér á landi en það er aðeins til að halda í við eðlilega þörf. Í gögnum Íbúðalánasjóðs, sem birtust fyrir tveimur vikum, má sjá að uppsöfnuð þörf er um 5.000 íbúðir. Við eigum því ansi langt í land með að ná jafnvægi.
Þá vaknar sú spurning hvort nú ríki hálfgert svikalogn á húsnæðismarkaði. Hægt hefur verðhækkunum íbúðarhúsnæðis og vafalaust má að hluta til rekja það til þess að ákveðnar væntingar eru um að hér verði byggt nóg af næstu árum. Væntingar um að framboð og eftirspurn muni leita í jafnvægi. Viðskiptablaðið óttast að þær væntingar séu byggðar á sandi," sagði í leiðaranum.

Viðskiptablaðið hefur oft bent á að Reykjavík er það sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu sem helst hefur dregið lappirnar í byggingaframkvæmdum. Á það var líka bent í umræddri úttekt SI.  „Sé litið á stöðu í einstökum sveitarfélögum innan höfuðborgarsvæðisins kemur í ljós að 1.509 íbúðir eru nú í byggingu í Reykjavík og er það 2,9% af heildarfjölda íbúða í Reykjavík 2016. Það hlutfall er nokkuð lágt m.v. önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ..." sagði í úttekt SI.

Eins og áður sagði var jafnframt greint frá mannfjöldaspá Hagstofunnar í leiðaranum. „Samkvæmt henni má gera ráð fyrir því að íbúum landsins fjölgi um tæplega 114 þúsund á næstu fimmtíu árum og þá muni hér búa 452 þúsund manns."

Þessar tölur voru síðan settar í samhengi við húsnæðismarkaðinn. „Í dag eru tæplega 138 þúsund íbúðir í landinu eða að meðaltali 0,406 íbúðir á hvern íbúa. Ef fjöldi íbúða er framreiknaður með þessu sama hlutfalli þá þarf að byggja ríflega 46 þúsund íbúðir á Íslandi á næstu fimmtíu árum. Miðað við byggingarkostnað upp á 30 milljónir króna, sem er mjög varlega áætlað, þá þarf að byggja íbúðir fyrir tæplega 1.400 milljarða króna á þessu tímabili. Auðvitað er þetta framtíðarmúsík en þessar tölur sýna samt fjallið sem við stöndum andspænis. Sveitarfélögin þurfa að bretta upp ermar. Aldrei aftur má koma sami slaki í framkvæmdir og skipulagsvinnu og varð á árunum eftir hrun."

Efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins hefur nú birt greiningu á húsnæðismarkaði höfuðborgarsvæðisins og í gær birtu samtökin einnig grein um máli. Þar segir: „Allt bendir til þess að framboðsskortur íbúða á höfuðborgarsvæðinu muni fara vaxandi á næstu þremur árum. Samtök atvinnulífsins telja að í árslok 2016 hafi skort að minnsta kosti tvö þúsund íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Húsnæðisvandann má fyrst og fremst rekja til lítillar uppbyggingar á síðustu árum og framborðsskort af þeim völdum. Nauðsynlegt er að grípa til aðgerða strax til að auka framboð íbúða svo hægt sé að mæta þessari þörf. Annars mun skorturinn ýta enn frekar undir hækkun húsnæðisverðs."

Svo virðist sem grunurinn um svikalogn á húsnæðismarkaði sé kannski eilítið meira en bara grunur.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.