*

sunnudagur, 21. apríl 2019
Óttar Guðjónsson
15. september 2018 13:43

Hækkun lífeyrisaldurs úr 67 í 77

Helmingur þeirra sem fæðast nú geta reiknað með að ná 105 ára aldri og því mun 15,5% lífeyrissparnaður ekki duga.

Það hefur verið til umræðu í meira en 10 ár að það þurfi að hækka lífeyrisaldur. Talað hefur verið um að hækka um 1 mánuð á ári. Því miður hefur þetta ekki komist í framkvæmd og umræðan um þetta hefur minnkað og munar þar sennilega mest um að Pétur Blöndal er ekki lengur á meðal okkar.

Það er staðreynd að lífslíkur hafa hækkað mikið á síðustu árum, bæði hér á landi og í löndunum í kringum okkur. Miðað við töflur yfir lífslíkur frá tryggingastærðfræðingum gat karlmaður sem var 40 ára fyrir 30 árum reiknað með að verða að meðaltali 77 ára. Hafi sá karlmaður lifað af síðustu 30 árin og er nú orðinn 70 ára getur hann reiknað með að verða að meðaltali 85 ára gamall.

Þetta er hækkun um 8 ár á síðustu 30 árum. Þannig hefur sá tími sem meðalmaðurinn getur reiknað með að lifa á lífeyrisgreiðslum lengst úr 10 árum í 18 ár, sé miðað við að taka lífeyris hefjist við 67 ár. Þetta er gríðarleg hækkun á ekki sérlega löngum tíma.

Fyrir 30 árum var skylda að borga 10% af launum í lífeyrissjóð og hefur svo verið mikinn hluta þess tíma sem þeir sem nú eru að nálgast lífeyrisaldur hafa greitt í lífeyrissjóð. Iðgjöld til lífeyrissjóða eru nú 15,5% eftir síðustu hækkun. Því miður dugir það ekki til að vinna upp þá hækkun sem nú þegar er orðin á lífaldri, hvað þá hækkun á lífaldri sem vænta má næstu 30 árin.

Því er spáð að þeir sem fæðast um þessar mundir megi reikna með að helmingur þeirra nái 105 ára aldri. Það er augljóst að rætist þær spár mun ekki duga að leggja fyrir 15,5% af launum frá því að skólagöngu lýkur og til 67 ára aldurs. Ef fólk getur vænst þess að lifa í 38 ár eða meira, eftir að 40 til 50 ára starfsævi lýkur þá munu 15,5% af launum vera árslaun í 13 til 20 ár miðað við 3,5% raunávöxtun.

Niðurstaðan mín er að hækka þarf lífeyrisaldur í 77 ár eins fljótt og ná má samfélagslegri sátt um það. Það væri auðvitað mjög ósanngjarnt að gera það í einu skrefi, en með því að hækka lífeyrisaldur um 4 mánuði á ári næstu 30 árin næðum við markmiðinu um 77 ára lífeyrisaldur árið 2048. Ég óttast að jafnvel það muni reynast of langur tími til þess að núverandi kerfi standist væntingar um að skapa ellilífeyrisþegum sæmileg lífskjör.

Höfundur er hagfræðingur

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim