*

miðvikudagur, 22. ágúst 2018
Leiðari
12. október 2017 13:17

Hærri laun en í Kauphöllinni

Stjórnarmenn í Lindarhvoli, sem er í eigu ríkisins, eru með hærri laun en stjórnarmenn í VÍS, sem er skráð hlutafélag í Kauphöllinni.

Haraldur Guðjónsson

Félagið Lindarhvoll skilaði ársreikningi fyrir stuttu síðan og í honum er ýmislegt forvitnilegt að finna. Til upprifjunar þá er hlutverk Lindarhvols að halda utan um framlög slitabúa föllnu bankanna til ríkisins og annast umsýslu, fullnustu og sölu á þessum eignum ríkissjóðs.

Fjallað var um Lindarhvol á þessum vettvangi fyrir mánuði síðan undir fyrirsögninni "Leynd og trassaskapur við Arnarhól." Inntakið í leiðaranum fyrir mánuði var að benda á almennan trassaskap stjórnenda félagsins. Þeir eiga, lögum samkvæmt, að skila framvinduskýrslu ársfjórðungslega — á þriggja mánaða fresti. Eftir því var alls ekki farið og skýrslan leit loks dagsins ljós þann 19. september en þá voru rúmir sex mánuðir síðan síðasta framvinduskýrsla hafði birst.

Fyrir mánuði síðan sendi Viðskiptablaðið fyrirspurn á stjórnendur Lindarhvols. Spurt var hvernig stæði á því að félag í eigu ríkisins virði ekki lög. Enn fremur er spurt almennt út í rekstur félagsins enda eru engar upplýsingar um hann að finna á vefsíðu þess. Hver starfar fyrir Lindarhvol? Er félagið að kaupa sér einhverja þjónustu og þá af hverjum? Svörin voru rýr.

Aftur ársreikningnum fyrir síðasta ár — 2016. Eins og áður sagði þá kemur þar ýmislegt í ljós. Meðal annars kemur í ljós að stjórnin fékk um 12,2 milljónir króna í laun á síðasta ári. Stjórnin er skipuð Þórhalli Arasyni, sem nýverið lét af störfum sem skrifstofustjóri hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Hauki C. Benediktssyni, framkvæmdastjóri Eignasafns Seðlabanka Íslands og Ásu Ólafsdóttir, lektor við lagadeild Háskóla Íslands. Það sitja sumsé þrír í stjórninni og Þórhallur er formaður stjórnar.

Mikilvægt er að hafa í huga að félagið Lindarhvoll var stofnað 15. apríl á síðasta ári. Stjórnarlaunin voru því fyrir vinnu í átta og hálfan mánuð. Það þýðir að hver stjórnarmaður fékk tæplega 480 þúsund krónur í laun á mánuði fyrir stjórnarsetuna. Að öllum líkindum fékk stjórnarformaðurinn aðeins meira en hinir tveir en nákvæma skiptingu er ekki að finna í ársreikningnum.

Í síðustu viku birti Hagstofan upplýsingar um laun fullvinnandi launamanna í landinu og í þeim kom fram að ríkið borgaði best.

Samkvæmt ársreikningi Lindarhvols er ríkið einnig í sérflokki þegar kemur að stjórnarlaunum. Fyrir einu og hálfu ár fór samfélagið á hliðina þegar Vátryggingafélag Íslands (VÍS), skráð hlutafélag í Kauphöll Íslands, hugðist hækka stjórnarlaun í 350 þúsund. Fjaðrafokið olli því að stjórnin afsalaði sér launahækkuninni. Sjálfsagt er að taka fram að fyrr á þessu ári hækkuðu laun stjórnarmanna VÍS. Þau hækkuðu í 382 þúsund krónur. Embættismennirnir og lektorinn eru því með töluvert hærri laun.

Enn og aftur trompar ríkið hinn almenna markað þegar kemur að launum. Það hlýtur að þurfa að ræða þetta eitthvað nánar. Kafa ofan í ástæður þess að svona sé málum fyrirkomið. Hvernig eru laun annarra stjórna félaga í eigu ríkisins. Viðskiptablaðið mun senda fyrirspurn til ráðuneyta og spyrjast fyrir um launaþróun "ríkis-stjórna" eftir hrun.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.