Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra stakk niður penna á síðum Morgunblaðsins í vikunni og fjallaði um þjóðmálaumræðuna á þessum fyrstu vikum kjörtímabilsins.

Honum þótti margt merkilegt, jafnvel athugavert við hana, bæði hvað varðaði framgöngu stjórnarandstöðunnar og sumra fjölmiðla. Það var margt til í því sem forsætisráðherra hafði fram að færa í þessari grein. Hins vegar getur fjölmiðlarýnir ekki stillt sig um að gefa hinum nýbakaða landsföður þrjú góð ráð, áður en lengra er haldið.

  1. Forsætisráðherra skrifar greinar um verk sín; ekki það sem aðrir hafa um hann eða þau að segja.
  2. Stjórnarandstaðan hefur það hlutverk að andæfa stjórnarmeirihlutanum og við því á ekki að amast.
  3. Stjórnmálamenn eiga að eftirláta öðrum að kvarta undan fjölmiðlaumfjöllun.

* * *

Gagnrýni forsætisráðherra sneri meðal annars að Ríkisútvarpinu (RÚV), hans gamla vinnustað. Hann dró fram að fréttastofa RÚV hefði ekki látið neitt tækifæri ónotað til þess að minnast á undirskriftasöfnun gegn breytingum á veiðigjöldum. Það væri nú eitthvað annað en tregða sömu fréttastofu til þess að segja frá undirskriftasöfnuninni gegn Icesave á sínum tíma.

Þetta er réttmæt gagnrýni. Fréttastofu RÚV hættir til þess að gera „réttum skoðunum“ hærra undir höfði en öðrum. Það er sagt frá sumum undirskriftasöfnunum, frá sumum skoðanakönnunum, frá sumum mótmælafundum, en öðru síður.

Frá kosningum hefur orðið „málþóf“ aðeins einu sinni heyrst í Ríkisútvarpinu. Það var í Speglinum þar sem sérstaklega var sagt frá því að ný stjórnarandstaða á Alþingi stefndi að því að halda uppi „málefnalegri umræðu og forðast málþóf“. — Jamm og jæja. Spéspegillinn klikkar ekki.

* * *

Annars er rétt að nota tækifærið og fagna því að enn einu sinni sé kominn forsætisráðherra úr röðum blaðamanna. Á lýðveldistímanum hafa þeir Bjarni Benediktsson, Benedikt Gröndal, Þorsteinn Pálsson, Davíð Oddsson, Geir H. Haarde áður valist til þess að leiða framkvæmdavaldið og nú Sigmundur Davíð.

* * *

Fyrst minnst er á fjölmiðlunga í forsætisráðherrastóli verður ekki komist hjá því að nefna Silvio Berlusconi, sem komst í fréttirnar í vikunni og víst að mörgum þótti tímabært, eftir það sem á undan er gengið, að honum yrði sjálfum stungið inn. Af þessu tilefni lét Morgunblaðið einhvern kandídatinn skrifa svipmynd af karlinum. Efnistökin voru ekki afleit, en þýðingarkeiminn lagði langar leiðir. Fnykurinn varð óbærilegur þegar enska hugtakið media magnate, fjölmiðlakóngur, var þýtt sem „fjölmiðlasegull“. Aðdráttaraflið og segulstálið hans Silvios virkuðuallt öðru vísi.

* * *

Þá yfir til Færeyja, en þangað kom í síðustu viku Helle Thorning- Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur. Í tíufréttum Ríkissjónvarpsins á miðvikudag var greint frá því að frú Thorning-Schmidt segði að Danir myndu fylgja Evrópusambandinu (ESB) að málum í fiskveiðideilu Færeyinga og sambandsins. Þetta væri stórfrétt — ef rétt væri — því þá væri komin upp mjög viðkvæm staða í sambandsmálum Dana og Færeyinga og raunar harla ósvífið hjá hinni dönsku Helle að fara til Þórshafnar til þess að kasta þessum stríðshanska í andlit gestgjafans.

En þetta var ekki stórfrétt, einfaldlega vegna þess að fréttin var ekki rétt. Danski forsætisráðherrann sagði þetta ekki, eins og auðvelt er að kynna sér af upptöku af fundinum á vef færeyska Kringvarpsins og var þó greinilega verið að reyna að hanka hana. Það segir enda sína sögu að þetta var ekki stríðsfréttin í Færeyjum þann daginn og raunar mátti á sama tíma heyra frétt í hljóðvarpi RÚV, þar sem allt önnursaga var sögð.

Þvert á móti kom fram í heimsókninni, eins og sagt var frá í aðalfréttatíma RÚV kvöldið eftir (án þess þó að leiðrétta fyrri fréttina, því RÚV leiðréttir helst ekki fréttir), að Danir hefðu tekið upp virka afstöðu með Færeyingum, þeir myndu ekki sitja hjá í þessu máli lengur, heldur greiða atkvæði gegn refsiaðgerðum og beita öllum ráðum til þess að tefja þær yrðu þær samþykktar. Danir væru í tveimur ríkjasamböndum en þeir tækju sambandið við Færeyinga fram yfir hitt.

Þetta er skrýtið mál, því auðvitað væri allt brjálað í Færeyjum ef hún væri á rökum reist. Það er enda athyglisvert að í frétt RÚV var engin bein tilvitnun í frú Thorning-Schmidt. Talar hún þó óvenju skýra og skilmerkilega dönsku, eins og frægt er.

Pistill Andrésar birtist í Viðskiptablaðinu 27. júní 2013. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.