Hugvit og sá iðnaður sem af því skapast verður drifkraftur vaxtar á 21. öldinni rétt eins og hagkvæm nýting náttúruauðlinda var forsenda vaxtar á 20. öldinni og í byrjun þessarar aldar. Náttúran hefur getið af sér verðmætasköpun í sjávarútvegi, iðnaði með orkuframleiðslu og í ferðaþjónustu. Hafa þau verðmæti skilað landsmönnum lífskjörum sem þykja með þeim bestu í heimi. Á næstu áratugum þarf að finna uppsprettur aukinna verðmæta og mun það gerast með nýsköpun. Á sama tíma og blikur eru á lofti í ferðaþjónustu hefur Ísland fallið um 10 sæti í alþjóðlegri mælingu á nýsköpun í ríkjum heims. Þetta er hættuleg blanda fyrir þjóðarbúið og snúa þarf taflinu við áður en það verður of seint.

Drögumst hratt aftur úr

Eftir hraðan vöxt síðustu ára eru nú blikur á lofti í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Hægt hefur umtalsvert á fjölgun erlendra ferðamanna hér á landi og vexti gjaldeyristekna af þeim. Ljóst er að fram undan eru krefjandi tímar hjá mörgum aðilum í ferðaþjónustu og tengdum greinum. Það eru þess vegna slæm tíðindi að á sama tíma og ferðaþjónustan á undir högg að sækja berast okkur fréttir af því að Ísland er að dragast hratt aftur úr öðrum ríkjum í árangri í nýsköpun. Ísland er nú í 23. sæti í alþjóðlegri mælingu á nýsköpun en var í því 13. og hefur þar með fallið um 10 sæti á milli ára. Birtist þetta meðal annars í því að hlutur skapandi greina í útflutningi er að dragast saman, hlutfallslega miðað við hjá öðrum ríkjum. Þetta er þróun sem ógnar þeirri sýn að Ísland verði nýsköpunarland og að gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins byggi á mörgum stoðum til þess að draga sem mest úr sveiflum.

Í mælingunum kemur ýmislegt vel út og má þar nefna að við verjum miklum fjármunum í menntakerfið í samanburði við önnur ríki, erum þar í 3. sæti, og birtar vísindagreinar á sviði raunvísinda og tækni eru fleiri en gengur og gerist með hliðsjón af landsframleiðslu en þar mælumst við í 4. sæti. En það eru ýmsir þættir sem draga Ísland niður og má þar nefna að við erum í 77. sæti þegar horft er til hlutfalls útskrifaðra nema í raunvísindum og verkfræði, í 105. sæti í útflutningi á vegum skapandi iðnaðar og 60. sæti í rafrænni stjórnsýslu en þrátt fyrir gott aðgengi að netinu og almenna tölvunotkun eru stjórnvöld eftirbátur annarra ríkja á þessu sviði. Ísland er í 19. sæti en var í 10. sæti árið 2017 þegar mælt er hvað við leggjum fram til að örva nýsköpun annars vegar og svo hverju það skilar hins vegar. Samkvæmt mælikvarðanum dregur því úr nýsköpun milli ára. Þannig dregur úr skilvirkni kerfisins og það skilar ekki sama árangri og áður. Ísland er nú í 23. sæti hvað varðar skilvirkni kerfisins en var árið áður í 5. sæti.

Virkjum hugvit til nýsköpunar

Það er ekki síst á tímum sem þessum sem fjölbreytileiki í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins og í atvinnulífinu almennt skiptir máli. Niðursveifla í einni grein er þá frekar vegin upp með uppsveiflu í annarri. Til lengri tíma er það eina leiðin að efnahagslegum stöðugleika og velsæld á sjálfbærum grunni.

Með aukinni og fjölbreyttari útflutningsstarfsemi má bæta lífskjör hér á landi. Því verður ekki náð nema með virkjun hugvits til nýsköpunar. Annars er raunveruleg hætta á því að Ísland dragist hratt aftur úr í samkeppni þjóða um störf og verðmætasköpun. Stefnumótun og skýr sýn um hvert skuli halda er grunnforsenda þess að okkur takist að fjölga eggjunum í körfunni og treysta stoðir útflutnings. Samtök iðnaðarins munu leggja sitt lóð á vogarskálarnar í þeim efnum með útgáfu atvinnustefnu í haust þar sem lagðar verða fram tillögur að úrbótum í þeim málaflokkum sem skipta mestu fyrir samkeppnishæfni Íslands.

Gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins stendur á þremur meginstoðum; iðnaði, sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Þetta eru undirstöður þeirra lífskjara sem við Íslendingar búum við í dag. Til framtíðar litið er nauðsynlegt að fjölga þessum stoðum og verður það einungis gert með því að skapa kjöraðstæður fyrir nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Engan tíma má missa.

Höfundur er formaður Samtaka Iðnaðarins.