*

föstudagur, 22. september 2017
Óðinn
20. júní 2012 13:25

Haftaspilið

Óðinn hefur búið til nýtt borðspil fyrir fjölskylduna. Það á að skýra fyrir lesendum áætlun um losun gjaldeyrishafta.

Í skýrslu Seðlabankans um Fjármálastöðugleika er fjallað um afnám hafta. Helsti gallinn á áætlun Seðlabankans um losun haftanna er að hún hefur verið ekki verið nógu skýr og tímasett til að öðlast trúverðugleika og nú er svo komið að fáir ef þá nokkrir gera ráð fyrir að höftin verði losuð í árslok 2013 eins og opinberlega er stefnt að.

* * *

Það eru nokkur atriði sem vekja athygli í umfjöllun skýrslunnar. Í fyrsta lagi að þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi losað um krónustöður með kaupum lífeyrissjóða á skuldabréfum í eigu Seðlabanka Lúxemborgar og með gjaldeyrisuppboðum, samtals að fjárhæð 182 milljarðar, þá hefur krónustaða útlendinga einungis lækkað um 145 milljarða frá árinu 2009 þar sem vaxtatekjur af aflandskrónum námu 37 milljörðum á sama tíma. Þetta sýnir hvílíka brekku afnámsáætlunin þarf að klífa sökum hás vaxtastigs og sú brekka verður æ brattari í vaxtahækkunarferlinu sem er hafið.

* * *

Í öðru lagi hefur mat á krónustöðu erlendra aðila nær tvöfaldast frá því að afnámsáætlunin var gefin út árið 2011, að því er virðist vegna þess að þá var vænt gjaldeyrisútstreymi vegna þrotabúa gömlu bankanna stórlega vanmetið. Þetta þarfnast nánari útskýringa frá Seðlabankanum.

* * *

Loks sést berlega á þessari umfjöllun hversu ómögulegt verkefni það er að ætla ríkinu að miðstýra gjaldeyrismarkaði hagkerfis. Það eru margir þættir sem togast á hverju sinni og því skynsamlegast að láta verð stilla saman framboð og eftirspurn. Í skýrslunni kemur fram að þrýstingur sé á krónuna vegna 360 milljarða skuldabréfa nýju bankanna í erlendri mynt. Þessir lánasamningar voru gerðir eftir að höftin voru sett á og hafa því væntanlega verið gerðir með samþykki Seðlabankans. Ef þetta voru mistök, eins og útlit er fyrir, hver hefur þá eftirlit með störfum Seðlabankans og hverjar eru afleiðingarnar?

* * *

Loks ber að geta þess að hin raunverulega snjóhengja á Íslandi eru Íslendingar, sú snjóhengja skiptist í þrennt. Í fyrsta lagi veldur vantrú Íslendinga á hagkerfinu því að þeir vilja skipta sparnaði sínum fyrir gjaldeyri. Í öðru lagi er mikil uppsöfnuð þörf hjá innlendum fjárfestum, þar á meðal lífeyrissjóðum, fyrir erlenda fjárfestingu. Og í þriðja lagi þarf að skipta krónum í gjaldeyri til að kaupa erlenda fjárfestingarvöru og sérfræðiþjónustu ef fjárfesting á að komast á skrið. Án þessarar fjárfestingar verður engin gjaldeyrissköpun. Þótt áætlunin um losun haftanna sé óskýr hefur Óðinn sett hana upp í borðspil til að skýra hana út fyrir lesendum sínum. Spilið er tilvalið að taka með sér í sumarbústaðinn eða veiðihúsið og öll fjölskyldan getur tekið þátt.

Haftaspil Óðins birtist í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins 14. júní síðastliðinn. Áskrifendur geta nálgast það hér að ofan undir liðnum Tölublöð.

Stikkorð: Óðinn
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.