*

föstudagur, 19. apríl 2019
Leiðari
15. nóvember 2015 09:18

Hagnast menn á hungri?

Hvatar skipta máli í öllum geirum þjóðfélagsins og er heilbrigðiskerfið ekkert undanskilið því mannlega lögmáli.

Haraldur Guðjónsson

Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu er mál sem er líklegra en flest önnur til að vekja upp sterkar tilfinningar og leiða til harðorðrar umræðu. Margir andstæðinga einkarekstursins beita fyrir sig tilfinningarökum, en hunsa algerlega þau skynsemisrök sem mæla með því að slíkt rekstrarfyrirkomulag sé tekið upp, að minnsta kosti samhliða hinu opinbera.

Í afar áhugaverðu viðtali í Viðskiptablaðinu í dag fer Ásdís Halla Bragadóttir yfir rekstur fyrirtækisins EVA, sem á 15% hlut í Klíníkinni, læknamiðstöð sem rekin er í Ármúla. Þar eru fullkomnar skurðstofur og sjúkraherbergi og geta læknar þar framkvæmt aðgerðir sem aðrar einkareknar skurðstofur geta ekki boðið upp á.

Ásdís Halla segist efast um að Íslendingar hafi efni á að fljóta áfram í óbreyttu heilbrigðiskerfi, enda verði miklar breytingar á kerfinu samhliða hækkandi meðalaldri og mikilli fjölgun fólks á ellilífeyrisaldri. Hún segir að í stað þess að skera einfaldlega niður og skammta þjónustu verði Íslendingar að meta upp á nýtt hvernig hægt sé að nýta það fjármagn sem til er með sem skynsamlegustum hætti.

Þetta er stóra málið. Það er ekki hægt að láta eins og mjög svo fyrirsjáanlegur vandi heilbrigðiskerfisins hverfi ef við einfaldlega neitum að horfast í augu við hann. Eftir því sem þjóðin eldist því dýrara verður heilbrigðiskerfið. Að óbreyttu kallar það á hærri skatta, sem leggjast munu á hlutfallslega minnkandi hóp skattgreiðenda, og/eða mun meiri skömmtun heilbrigðisþjónustu. Vilji fólk ekki fara þessar leiðir ber því siðferðileg skylda til að skoða allar leiðir til að gera heilbrigðiskerfið hagkvæmara án þess að það komi niður á þeirri þjónustu sem veitt er.

Hvatar skipta máli í öllum geirum þjóðfélagsins og er heilbrigðiskerfið ekkert undanskilið því mannlega lögmáli. „Í mínum huga er allur hagnaður í heilbrigðu samkeppnisumhverfi mikilvægur hvati fyrir betri þjónustu, meiri metnað, aukna skilvirkni og meiri árangur,“ segir Ásdís Halla og hittir þar naglann á höfuðið. Hagnaður sem fenginn er með heiðarlegum hætti er ekki siðferðislega rangur. Gagnrýnendur einkareksturs láta hins vegar eins og að hagnaður geti verið siðferðislega rangur ef hann er fenginn með rekstri fyrirtækis í röngum geira. Heilbrigðisgeirinn er einn slíkur.

Eðlilega spyr Ásdís Halla, ef fullyrt er að það sé rangt að „hagnast á veikindum“, hvort að sama skapi sé ekki rangt að hagnast á hungri með því að selja fólki matvöru eða hagnast á heimilisleysi með því að byggja hús og selja það. Umræða um fyrirtækjarekstur og hagnað á þessum forsendum er út í hött og engum til framdráttar.

Ágætt er að enda á því að vitna aftur í Ásdísi Höllu og það sem hún hefur að segja um mikilvægi hagnaðar: „Ekki má gleyma því að hagnaður er notaður annaðhvort til að eigendur njóti ávöxtunar af hlutafénu eða til þess að byggja upp betri þjónustu og fjárfesta í tækjum og búnaði og getur þannig orðið til góðs. Þú getur ekki byggt upp fyrirtæki af metnaði eða fjárfest í besta tækjabúnaðinum eða öðru nema menn séu tilbúnir til að leggja fjármagn í það og njóta einhverrar ávöxtunar af því fjármagni sem verið er að taka áhættu með.“

Óskandi væri að fleiri hefðu sömu sýn á málaflokkinn.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim