*

laugardagur, 19. janúar 2019
Andrés Magnússon
7. apríl 2018 13:43

Hagsmunagæslan

Hagsmunatengsl og áhrif hagsmuna á umfjöllunarefni fjölmiðla geta tekið á sig ýmsar birtingarmyndir.

Heiðar Guðjónsson, stjórnarformaður Sýnar, eiganda Bylgjunnar er orðinn reglulegur viðmælandi á stöðinni.
Eva Björk Ægisdóttir

Það er þekkt að hagsmunir hafa áhrif á það hvernig fólki segist frá og hvernig það skilur hlutina. Sínum augum lítur hver silfrið og allt það. Sem á auðvitað ekki aðeins við um fólk, heldur líka fyrirtæki með sína almannatengla og já, jafnvel fjölmiðla! Allir þekkja dæmi um hvernig fréttamat þeirra getur hneigst að eigin hagsmunum: Sjónvarpsstöðvarnar segja fyrir einhverja tilviljun nær einvörð­ungu íþróttafréttir úr þeim deildum, sem þær hafa sýningarrétt á, systurmiðlar á vefnum vísa hver á annan svo smellunum fjölgi, Mogginn slær upp drætti í áskrifendahappdrættinu upp sem stórfrétt. Auðvitað er ekkert að þessu síðastnefnda, þar eru hagsmunirnir öllum ljósir og efnið á sérstakt erindi við áskrifendur blaðsins. Hitt er vafasamara.

                            ***

Sumt af þessu skrumi getur raunar verið afar hvimleitt. Þannig fær maður stundum á tilfinninguna að helsta dagskrárefni ljósvakamiðla séu dagskrárkynningar.

Eins virðast fréttamenn æ frjálslyndari gagnvart því að flytja fréttapunkta úr dagskrárliðum. Sumt af því getur vissulega verið mjög fréttnæmt, en þá er nú heldur betur lakara þegar fréttamaðurinn segir varla hálfa frétt og klykkir svo út með að afganginn geti forvitnir kynnt sér í þætti síðar um kvöldið. Þá er það ekki frétt lengur, heldur dagskrárkynning.

Fréttir á að segja allar og eins nákvæmlega og vitað er á hverjum tíma. Svo getur þetta auðvitað verið á hinn veginn, eins og heyra mátti á Rás 1 Ríkisútvarpsins síðdegis á páskadag. Þá flutti Bogi Ágústsson athyglisverðan þátt um utanlandsverslun Íslendinga frá upphafi Íslandsbyggðar, en þegar að honum loknum hófst fréttalestur, þar sem helsta fréttin var endursögn af sama þætti og valdir kaflar fluttir úr honum, ljóslega unnin með góðum fyrirvara. Alveg brakandi nýjar fréttir af Gamla sáttmála!

                            ***

Hvað má þá segja þegar hagsmunir fjölmiðlaeigenda eru annars vegar, líkt og mjög bar á á liðnum áratug? Það er auðvitað ekki fyrir bí, en brýst helst út á skoðanasíðum. Það kemur engum á óvart að Morgunblaðið sé í meginatriðum sammála helstu eigendum um borgaralegt þjóð­skipulag, stjórn fiskveiða eða stjórnarhætti í Reykjavíkurborg, en það smitast ekki yfir á fréttasíður.

Einnig mætti nefna dæmi eins og Stundina, sem er fremur málsflutningsmiðill (e. advocacy media) en fréttamiðill, og velur sér jafnan umfjöllunarefni í takt við ritstjórnarstefnuna. Það helgast vafalaust af skoðunum ritstjóra og eigenda, sem menn geta haft sína skoðun á, en það er ekki þar með sagt að hagsmunir eigenda eða annara aðstandenda blandist þar inn í, svona umfram þessa augljósu sem þeir hafa af því að selja blöð.

                            ***

Svo eru önnur dæmi, sem rétt er að doka við. Þannig tíðkaðist það lengi vel í morgunútvarpi Bylgjunnar að þangað kæmi blaðamaður Markaðarins, viðskiptakálfs Fréttablaðsins, og ræddi helstu viðskiptafréttir og efnahagsmál. Oft mátti raunar ekki vel heyra hvorum leiddust þær heimsóknir meira, Bylgumönnum eða Markaðsgaurum, en þar af var nú samt sem áður gagnkvæmur ávinningur, blaðið fékk kynningu og morgunútvarpið innihald.

Eða þannig horfði það við mönnum meðan báðir miðlar voru sitt hvor útlimurinn á öflugasta fjölmiðlalíkama landsins. Þannig er það ekki lengur, því Fréttablaðið og ljósvakamiðlarnir eru skilin að skiptum og þeir nú komnir undir merki Sýnar í eigu Vodafone. Svo í staðinn hefur Heiðar Guðjónsson hagfræðingur verið fenginn til þess að ræða viðskipti og efnahagsmál með reglulegum hætti.

Nú er Heiðar fyrirtaksviðmælandi og tjáir sig með fjörlegum hætti um efni, sem mörgum reynast tyrfin. Það er samt eitthvað skrýtið við það að stjórnarformaður Vodafone sé reglulega að dósera í einum miðla sinna með þeim hætti. Hefði mönnum þótt í góðu lagi ef Jón Ásgeir hefði verið með reglulega viðskiptaþátt á Stöð 2 í den eða ef Sigurbjörn Magnússon stjórnarformaður Árvakurs skrifaði þar fréttaskýringar um viðskipti einu sinni í viku? Nei, það þætti einum of skrýtið. Hitt er annað mál að það er ekkert að því að RÚV eða K100 tali reglulega við Heiðar, svona að því marki sem það samrýmist vinnureglum um upplýsingagjöf stjórnenda hjá skráðum almenningshlutafélögum. 

                            ***

Önnur hagsmunatengsl í fjölmiðlum geta verið enn einkennilegri, eins og heyra mátti í liðinni viku þegar lögfræðingurinn Katrín Oddsdóttir sá um þáttaröðina Fólkið bak við flóttann á Rás 1 Ríkisútvarpsins, en þar var fjallað um fólk, sem leitað hefur hælis hér á landi. Líkt og Katrín vakti máls á, hefur hún mjög fengist við réttargæslu flóttamanna, sem auðvitað setur þáttaröðina í eilítið annað samhengi. Enn frekar þó fyrir það að Katrín hefur verið lögmaður sumra við­ mælendanna sinna, beinlínis annast hagsmunagæslu fyrir þá.

Ekki skal efað að fólkið og Katrín hafa merka sögu að segja, en hún hefði ekki átt að hafa umsjón með þáttunum. Betur hefði farið á að innanbúðarmaður á Ríkisútvarpinu sæi um þáttagerðina og að hann tæki viðtöl við Katrínu og hælisleitendurna, gaumgæfði frásögnina, lagaumhverfið o.s.frv. Sömuleiðis hefði verið meira jafnvægi í þáttunum, sem hverfðust talsvert um skoð­anir og sjálfumgleði umsjónarmannsins, en hlustendur hefðu vel þolað fleiri og fjölbreytilegri skoðanir á þessum mikilvægu, viðkvæmu og umdeildu málum.

Þar er ekki við Katrínu að sakast, henni liggur mikið á hjarta um þessi mál og hún er nátengd þeim. Þar átti Ríkisútvarpið hins vegar að vita betur og því hefði veist létt að fjalla um þetta efni án þess að setja Katrínu eða hlustendur í þessa stöðu.

Eða má senn vænta þáttarað­ar RÚV um Baugsmálið í umsjá Jóns Steinars Gunnlaugssonar? Fræðsluþátta Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um leið­réttinguna? Viðtalaraðar Svavars Gestssonar um Icesave?

                            ***

Annars er þetta ekkert erfitt, bara ef fjölmiðlar gæta einna hagsmuna annarra fremur; hagsmuna hlustenda sinna, áhorfenda og lesenda: almennings. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.