*

fimmtudagur, 18. apríl 2019
Týr
26. júní 2018 14:56

Hákarlar skattstjóra

Birting álagningarskráa og hákarlalista Ríkisskattstjóra eru einungis til þess fallnar að kitla skráargatshneigðina.

Góðkunningi Týs, Björgvin Guðmundsson í KOM, er fyrrverandi ritstjóri Viðskiptablaðsins.
Haraldur Guðjónsson

Þær gleðilegu fregnir bárust í vikunni, að góðkunningi Týs, Björgvin Guðmundsson í KOM og fyrrverandi ritstjóri Viðskiptablaðsins, hefði fengið umboð frá einum af góðkunningjum ríkisskattstjóra, nánar til tekið einum af þeim, sem var á „hákarlalista“ ríkisskattstjóra í ár, til þess að reka mál sín gagnvart stjórnvöldum vegna birtingar listans, sem vitaskuld er kolólögleg. Bjöggi boðaði að hann myndi innan skamms senda Persónuvernd, ríkisskattstjóra og fjármálaráðuneytinu kröfu um að hætt verði að senda þennan lista út til fjölmiðla ár hvert.

                                                                ***

Gott hjá honum. Ríkisskattstjóri hefur árlega sent út lista yfir þá 40 einstaklinga, sem greiða hæstu skattana það árið. Það er gert í einhverju óljósu samhengi við birtingu álagningarskrár og úttektar fjölmiðla á breiðustu bökunum samkvæmt henni, en þrátt fyrir lagafyrirmæli um birtingu hennar, er ekki minnsta heimild fyrir því að ríkisskattstjóri eða nokkur skattstjóri sé að verja tíma sinna dýru starfsmanna til þess að taka saman slíka lista. Fyrir nú utan hitt, að það getur varla verið í góðu samræmi við persónuvernd, GDPR og það mambó allt.

                                                                ***

Enginn skyldi þó útiloka að möppudýrin þráist við, en Björgvin segist þá munu láta reyna á dómstólaleiðina til þess að fá úr því skorið hvort tollheimtumennirnir geti verið að sinna svona áhugamálum óátalið og á kostnað skattgreiðenda. Reynist dómararnir jafnhallir undir ríkisvaldið og vanalega gefur Björgvin í skyn að leitað verði ásjár hjá mannréttindadómstólum í útlandinu.

                                                                ***

Gott betur raunar, því hann segir að þetta sé aðeins fyrsta skrefið; markmiðið sé að alfarið verði hætt að birta álagningarskrárnar. Viðurkennt sé af öllum að þær skili engu hvað skatteftirlit varðar og séu einungis til þess fallnar að kitla skráargatshneigðina. Fjárhagur einstaklinga sé einkamál hvers og eins og skattálagning þeirra eigi ekki erindi við neinn annan.

                                                                ***

En setjum nú sem svo að á þetta verði ekki fallist. Að vísir menn telji að í þjóðfélagi gegnsæis eigi slík einkafjármál erindi við alla. Þá blasir við að hið opinbera á líka að birta skrár yfir útgreiddar bætur og allt það sem einstaklingar þiggja úr sjóðum hins opinbera. Og best af öllu verður þegar út verða gefin tekjublöð opinberra starfsmanna með sérstakri áherslu á starfsmenn skattstjóra.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim