Þegar yðar einlægur hóf störf á Viðskiptablaðinu í upphafi árs 2007 hafði hann helst fengist við að skrifa almennar fréttir, auk margvíslegra skoðanaskrifa, einatt pólitískra. Þar á meðal voru ýmsir stríðnisdálkar og slúður, sem má heita nauðsynlegur þáttur í skemmtilegu stjórnmálalífi. Slík skrif fela í sér margvíslegar vangaveltur, misábyrgar, persónulegt skens og palladóma, sumt hápólitískt, annað hreint gaman, misgræskulaust eins og gengur.

Þrátt fyrir það minnist höfundur þess aðeins einu sinni á ferlinum, að stjórnmálamaður hafi kveinkað sér undan skrifum að þessu tagi. Aðrir létu sig bara hafa það og sennilegast þótti þeim það flestum skárra að vera til umfjöllunar í blöðunum en ekki. Stjórnmálin eru enda þrotlaus orrahríð, svo skrápurinn verður fljótt þykkur.

Þess vegna varð ég líka svo hissa þegar ég kom á Viðskiptablaðið og fór að fjalla meira um atvinnulíf, fjármál og viðskipti, hvað umfjöllunarefnin voru ótrúlega hörundsár. Það mátti varla skáletra nöfnin á þeim án þess að orðlagðir hákarlar og hörkutól viðskiptalífsins breyttust í hrínandi dekurbörn, kjökrandi og gólandi til skiptis í símann, hótandi lögfræðingum, auglýsingabanni og því öllu. Oftast út af fullkomnum smámunum og hégóma.

Reglan var sú að maður hlustaði á rausið af kurteisi og lét vera að rífast við grenjuskjóðurnar, en yfirleitt var þeim nægilega runnin reiðin í lok símtals til þess að eftirmál urðu lítil. Yfirleitt. Þetta virðist lítið hafa breyst á árunum, sem liðin eru frá bankahruni, hvað sem líður öllum heitstrengingum um aukna auðmýkt, hófsemi og umburðarlyndi. (Hafa menn ekkert lært af rannsóknarskýrslunni o.s.frv.?)

***

Stundin birti á dögunum grein um gjöf Íslenskrar erfðagreiningar til íslenska ríkisins á jáeindaskannanum góða og skilmála hennar. Kári Stefánsson forstjóri fyrirtækisins skrifaði af því tilefni pistil, þar sem hann afgreiddi umfjöllunina sem skítkast (um að gjöfin væri gefin í annarlegum tilgangi), sakaði blaðamanninn Inga Frey Vilhjálmsson um að ganga erinda Framsóknarflokksins. og óskaði lesendum Stundarinnar loks útdauða!

Þar er óvenjusterklega til orða tekið, jafnvel hjá hvatvísum manni eins og Kára. Og þó svo að Ingi Freyr hafi átt það til að láta skoðanir stýra penna sínum og verið of háður heimildarmönnum sínum, þá reynir um of á trúgirnina að halda því fram að Stundin sé farin að ganga erinda Framsóknarflokksins. Af því má draga þá ályktun að Kári hafi aldrei lesið Stundina áður, en það gerir ósk hans um að engir aðrir lesi Stundina engu skárri.

Það fer illa á að forystumenn í atvinnulífi óski litlum blöðum dauða ef þau dirfast að fjalla um þá öðru vísi en þeim líkar. Enn síður í sama mund og þeir gefa sig að þjóðmálaumræðu með þeim krafti sem Kári hefur gert liðnar vikur.

***

Í síðustu viku var í þessum dálki drepið á augljósar spurningar, sem ekki væri spurt í fjölmiðlum af einhverjum ástæðum. Eitt af dæmunum, sem þar var tekið, sneri að eignarhaldi og verðmæti félagsins Alvogens, sem fjallað var um í viðskiptakálfi Morgunblaðsins á dögunum, en fjölmiðlarýni þótti Moggi furðulítið forvitinn um það allt, og látið eins og milljarðar króna væru aðeins vikmörk. Óforvitni annarra miðla þar um væri þó eiginlega enn einkennilegri.

Af þessu tilefni sendi Árni Harðarson hjá Alvogen fjölmiðlarýni línu og nefndi m.a. að aðrir fjölmiðlar hefðu raunar haft samband við fyrirtækið, en „eftir að hafa heyrt hina hliðina á málinu, sem vissulega er ekki einfalt, varð niðurstaðan sú að bíða með efnislega umfjöllun um málið þar til niðurstaða lægi fyrir sem ég tel reyndar ekki slæm vinnubrögð.“

Nú er vel skiljanlegt að Árna þyki það ekki slæm vinnubrögð, en fjölmiðlar eiga að þjóna almenningi, ekki umfjöllunarefnum sínum. Það eru léleg vinnubrögð að spyrjast fyrir um dómsmál hjá öðrum málsaðila og fallast bara á það með honum að best sé að fjalla ekkert um það fyrr en dómur er fallinn.

En jafnvel þó svo fjölmiðill vildi ekki fjalla um þrætuna meðan hún er fyrir dómi, þá vakna ýmsar aðrar augljósar spurningar, svo sem eins og af hverju Róberti Wessman lá svo á að framselja eignarhluta sinn án þess að nokkur annarra hluthafa vissi. Nú eða hvort það framsal tengdist því að á þeim tíma voru sagðar fregnir af skuldseiglu hans við bankakerfið. Og svo framvegis, því að nógu er að hyggja í því samhengi.

En kannski fjölmiðlar vilji síður spyrja spurninga um það allt í ljósi þess hvað Róbert hefur reynst fús til þess að standa í tilhæfulausum málaferlum gegn blaðamönnum, eins og áður hefur verið rakið á þessum síðum.

Pistill Andrésar birtist í Viðskiptablaðinu 25. febrúar 2016.