Helvítis makríllinn er að éta okkur út á gaddinn“!

Það er vinur minn sem hér blæs og „við“ erum hann og laxinn. Ég hef alltaf dálítið gaman af svona upphrópunum og þær grassera svo sannarlega í samfélagi stangveiðimanna.

Það er alveg sama hvað seiðabúskapurinn er góður samkvæmt talningum fiskifræðinga, náttúran kemur okkur aftur og aftur á óvart með því að fara ekkert eftir því sem við spáum um eða þykjumst vita með nokkurri vissu. Þegar illa árar í laxveiði er þægilegt að kenna einhverju í hafinu um niðurtúrinn.

Lengi vel var hægt að senda Grænlendingum og Færeyingum tóninn. Nú gengur það ekki lengur og þá er „helvítis makríllinn“ kærkominn sökudólgur. Algjör ryksuga sem étur öll litlu sætu laxaseiðin. Trúlega sleppir hann þá bleikju- og sjóbirtingsseiðunum, því að bleikjuveiðin hefur verið í góðu meðallagi. Líklega er hann svona matvandur þessi skratti.

„Er þetta ekki bara náttúruleg sveifla eða er allt ræktunarbullið kannski að bíta í rassinn á okkur?“ spyr ég æstan vin minn sem er algerlega grjótharður á að makríllinn sé upphaf og endir alls ills í heimi hans og laxins.

Í fyrra hlustaði ég á líffræðing spá vondu sumri í Hofsá í Vopnafirði, Þetta mat byggði hann á rannsókn, hverrar niðurstaða var, að Hofsá væri að líkindum ofsetin af seiðum og þyrfti jafnvel á því að halda að drepinn væri slatti af laxi úr ánni.

Hofsárspáin gekk ekki eftir að þessu sinni því að í þessu hundlélega laxasumri er Hofsá á þokkalegu róli. Reyndar bara fín miðað við margar aðrar ár. Ætli helvítis makrílnum sé eitthvað í nöp við Vopnfirðinga?