*

mánudagur, 23. apríl 2018
Týr
20. febrúar 2017 11:14

Hinn frjálsi Gunnar Smári

Týr óskar Gunnari Smára alls hins besta, bæði við útgáfu Fréttatímans og starfsemi Sósíalistaflokks Íslands.

Haraldur Guðjónsson

Blaðamaðurinn og fjárfestirinn Gunnar Smári Egilsson fer mikinn þessa dagana og stendur fyrir fjársöfnun til að halda Fréttatímanum, sem hann ritstýrir, á floti. Fjársöfnun Gunnars Smára hefur hlotið litlar undirtektir, þrátt fyrir að hann hafi oft og ítrekað bent á hið augljósa í íslenskum fjölmiðlaheimi: að hann sé betri blaðamaður heldur en allir hinir. Að því virðist sá allra besti.

***

Týr meðtekur skilaboð Gunnars Smára síðustu vikur þannig að þar sem Gunnar Smári er, þar er sannleikurinn. Þar er einnig réttlætið og þar er fagmennskan. Týr efast ekki um að fagmennskan muni einkenna útgáfu Fréttatímans, fari svo að Gunnari Smára takist að sannfæra nógu marga um að fjármagna útgáfufélag sitt, sem heitir því léttúðlega nafni Frjáls fjölmiðlun. Hvorki meira né minna.

***

Týr er þess alveg fullviss að það trufli ekki starfsemi Frjálsrar fjölmiðlunar, né geri hana síður frjálsa, þó svo að Gunnar Smári hafi stofnað sérstaka Facebook síðu undir nafninu Sósíalistaflokkur Íslands. Þó svo að aðrir fjölmiðlamenn kunni að láta pólitískar skoðanir sínar hafa áhrif á fréttaskrif sín, þá eru þeir ekki Gunnar Smári. Fréttatíminn mun að öllum líkindum halda áfram að fjalla um stjórnmál og önnur samfélagsmál af fagmennsku, heiðarleika, sanngirni og hlutleysi – á kostnað almennings.

***

Týr óskar Gunnari Smára alls hins besta, bæði við útgáfu Fréttatímans og starfsemi Sósíalistaflokks Íslands. Að sama skapi furðar Týr sig á því að einstaklingar skuli í dag styrkja útgáfu minni vefmiðla og/eða kaupa áskrift að dagblöðum sem ekki hafa Gunnar Smára innanborðs. Hann er jú eini blaðamaðurinn á landinu sem gætir ekki sérhagsmuna fjárvaldsins, auðmanna og útgerðarfyrirtækja heldur hefur hag almennings að leiðarljósi, svokallaðan almannahag. Gæsluaðilar almannahags finnast ekki á hverju horni.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.