Sonur minn var aðeins nokkra vikna þegar ég þurfti að rjúka með hann upp á bráðamóttöku vegna veikinda. Síðan þá hefur hann veikst oft og mikið. Hann fær ekki kvef sem varir í þrjá daga. Hans kvef endar í lungnabólgu með tilheyrandi læknisheimsóknum og lyfjameðferðum.

Í dag er drengurinn minn orðinn eins og hálfs árs og síðasta heimsókn á Barnaspítala Hringsins var í gær þar sem hann fékk lyf í æð vegna alvarlegrar lungnabólgu. Eins og svo margir aðrir hér á landi þá veit ég hvað það er að þurfa að treysta á gott heilbrigðiskerfi. Ég veit hvað það er að eiga veikt barn.

Ég hef stundum hugsað, þegar ég sit með son minn í fanginu á nóttunni í alvarlegum hóstaköstum þannig að hann nær varla andanum og kastar upp, að ef hann hefði fæðst hér á Íslandi fyrir 100 árum hefði hann líklega ekki lifað til að verða eins árs. Um leið hugsa ég að ef hann hefði fæðst í Malaví eða Sómalíu hefði hann heldur ekki náð eins árs aldri.

Í dag er ríkisstjórnin að stilla málum þannig upp að við sem erum í hópi ríkustu þjóða heims þurfum að velja á milli þess að eiga sjálf gott heilbrigðiskerfi eða gefa pening til þróunarlanda svo sómi sé að. Hér er verið að ljúga að fólki og lygin er ljót. Hér er verið að höfða til tilfinninga fólks og beita blekkingum.

Ég er fullkominn markhópur þessara blekkinga, posterchild átaksins. Inni á ríkisstjórnarfundi er sennilega mynd af mér: Ljúgum að þessari: Áhyggjufull íslensk móðir með fárveikt barn.

En þegar þessi tiltekna móðir hugsar málið í svo sem eins og eina mínútu sér hún að auðvitað þurfum við ekki raunverulega að velja á milli þróunaraðstoðar og íslensks heilbrigðiskerfis. Stjórnvöld vilja bara stilla því þannig upp, ranglega, að fólk þurfi að velja á milli íslenskra barna, sinna eigin barna, og barna í fátækum löndum. Það er hins vegar ekkert mál að forgangsraða öðruvísi, viljinn er ekki bara því miður fyrir hendi hjá núverandi stjórnvöldum.

Þá peninga sem við „eigum ekki” fyrir almennilegri þróunaraðstoð þyrfti ekki að finna á íslenskum spítölum. Þá má til dæmis finna með því að hækka gjöld á útgerð, ferðmenn og tekjuháa Íslendinga. Þannig getum við bætt í þróunaraðstoð og meira að segja bætt íslenska spítala í þokkabót.

Það eru lygar að halda því fram að við verðum að hætta að hjálpa þeim sem minna mega sín úti í heimi ef við eigum að geta farið á spítala hér heima þegar við erum veik.

Hvernig væri nú að þeir sem einhverju ráða ímynduðu sér að þeir væru staddir í Malaví þar sem enginn er fæðingardeildin með nýfætt veikt barn í fanginu?

Gleðileg jól krakkar mínir og bara eitt hérna: Hjálpum þeim, svona í alvöru talað. Pungarnir ykkar.