Þann 4. maí birti Seðlabankinn upplýsingar um eignir lífeyrissjóða. Þar var uppljóstrað hvort sjóðirnir hafi í kjölfar afléttingar hafta síðastliðinn 14. mars talið tilefni til að auka vægi erlendra eigna í eignasafni sínu. Í lok febrúar nam hlutfall erlendra eigna um 21% af heildareignum og hefur nánast haldist óbreytt frá því fjallað var um það hér í mars 2016. Til lækkunar á hlutfallinu vegur að á sama tíma styrktist gengisvísitala krónunnar um nærri 15%.

Nýlegar vísbendingar benda til að sjóðirnir séu fremur fráhuga því að auka innlent fjárfestingastig sitt, samanber slit viðræðna þeirra um kaup á um 30% hlut í Arion banka fyrir rúma 50 ma.kr., að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins mun ekki taka þátt í um 4 ma.kr. fjármögnun Thorsil kísilversins, nýleg lækkun veðhlutfalls Lífeyrissjóðs verzlunarmanna úr 75% í 70% og að heildareign sjóðanna í útgefnum hlutum skráðra hlutabréfa hefur lækkað um nálægt tvö prósentustig frá áramótum. Á sama tíma hefur heildareign erlendra fjárfesta hækkað um jafnmörg prósentustig en í Fjármálastöðugleika Seðlabankans, sem gefinn var út í síðasta mánuði, kemur fram að erlent fjármagn hefur leitað í auknum mæli í skráð hlutabréf. Samkvæmt hluthafafalli KODIAK Excel jókst eign erlendra fjárfesta í skráðum hlutabréfum um tæpa 17 ma.kr. á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Um talsverða aukningu er að ræða þar sem innflæðið nam 15 mö.kr. í heildina síðastliðið ár.

Líkt og myndin sýnir hefur staða lífeyrissjóðanna í skráðum hlutum hreyfst nokkuð ólíkt innflæði erlends fjármagns á markaðinn. Þannig létti Gildi lífeyrissjóður á stöðu sinni í Marel hf. um rúman milljarð í febrú­ ar á sama tíma og stöðutaka félagsins MSD European Opportunity Master hækkaði um 7,5 ma.kr. Lesandi greinir á myndinni að sjóðirnir hafa verið fremur hófstilltir síðastliðna fjóra mánuði í þeim félögum sem erlendir fjárfestar hafa verið að auka langar stöður. Vel skiljanlegt er að fjárfestar horfi á nýliðna þróun og telji freistandi að áframhald verði á innflæðinu sem aftur heldur við eða hækkar verð á skráðum hlutabréfum – margt styður þá sviðsmynd. En ekki er ólíklegt að umræðan fari um margt að minna á árin fyrir fjármálaáfallið 2008 – þar sem tækifærin erlendis voru seint talin líkleg til jafn mikillar ávöxtunar og innanlands.

Fjallað var um hér í mars 2016 að virðulegri fræðimenn færa rök fyrir hærra hlutfalli erlendra eigna af heildareignum sjóðanna. Undanfarið virðast lífeyrissjóðirnir hafa beitt raunhyggju og tekið mið af eða nýtt erlent innflæði til að hægja á vægi sínu á innlendum hlutabréfamarkaði.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.