Það hefur ekki farið framhjá nokkrum manni að kosningabaráttan er hafin. Á þriðjudagskvöld og í gærkvöldi komu formenn eða talsmenn níu framboða fram í umræðum í sjónvarpssal ríkisins og þó svo að stjórnendur þáttarins, þau Sigmar Guðmundsson og Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, hafi staðið sig vel við stjórnun þáttarins þá gefur það augaleið að með níu eða 14 frambjóðendur fer slíkur þáttur aldrei á neitt sérstakt flug.

Það gefur líka augaleið að slíkir þættir verða leiðinlegri, jafnvel þó þeir innihaldi kómíska karaktera eins og Þorvald Gylfason sem alltaf er eitthvað að grínast.

Nýlega kom fram hugmynd um að framboð fengju aðgang að tækjakosti og tæknimönnum ríkisfjölmiðilsins til að framleiða kynningarefni. Ef við leggjum til hliðar þá eðlilegu skoðun að ríkið á ekki að reka fjölmiðil, þá er þessi hugmynd ekki sú vitlausasta sem fram hefur komið síðustu misseri (og þær eru margar vitlausar).

Ríkisfjölmiðillinn er ekki öfundsverður af hlutverki sínu enda er honum skylt að gera öllum framboðum jafnt undir höfði. Með fyrrnefndri hugmynd væri honum eingöngu gert skylt að aðstoða við framleiðslu á kynningarefni og síðan birta það.

Fréttastofa ríkisins lagði sig fram nýlega við að kynna öll framboðin og gaf þeim þannig svigrúm í fréttatíma sínum. Fréttastofan hætti s.s. að segja fréttir, sem á að vera hennar eina hlutverk, og fór þess í stað að fúnkera eins og kynningaraðili fyrir framboðin, reyndar bara „minni“ og nýju framboðin.

Sem fyrr segir er þetta ekki öfundsvert hlutverk en þetta fylgir því að vera með ríkisfjölmiðil. Ritstjórn Kastljóss hefur sem betur fer frjálsari hendur með þetta og um leið meira sjálfstæði og getur, ef svo ber undir, sleppt því að fá Þorvald til að segja brandara í setti sínu.

En ríkið lætur til sín taka á fleiri stöðum. Fjölmiðlanefnd ríkisins, sem af öllum óþarfa ríkisstofnunum er líklega ein sú óþarfasta og vitlausasta, sendi fjölmiðlum í síðustu viku erindi þar sem þeir voru minntir á hlutverk sitt og skyldur í aðdraganda kosninga. Þeir voru jafnframt minntir á það að gætta þess að mismunandi sjónarmið fengju að koma fram.

Einhverjum finnst kannski eðlilegt að á Nýja Íslandi að til sé ríkisstofnun sem hafi eftirlit með fjölmiðlum, nokkurs konar fjölmiðlalögga. Fjölmiðlar hafa þó það eina hlutverk að segja fréttir og ef þeir vilja geta þeir notað krafta sína til að kynna eða segja frá einhvers konar afþreyingu. Það er ekki endilega hlutverk fjölmiðla að gæta þess að hver sá sem lætur sig dreyma um að verða atvinnustjórnmálamaður fái að nýta það pláss sem í boði er, hvort sem er á ljósvaka- eða prentmiðlum.