Andrúmsloftið í kjaraviðræðunum er vægast sagt ískyggilegt. Blaðamaður ritar leiðara þar sem bent er á hin augljósu sannindi að launahækkanir umfram framleiðniaukningu hverju sinni leiða á endanum til verðbólgu og rýrnunar lífskjara. Einn af leiðtogum hinnar nýja verkalýðsforystu bregst við skrifunum með langri grein sem markast af rógi gegn blaðamanninum í bland við úrval marxískra frasa.

Með öðrum orðum: gagnrýni á kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar sem er byggð á efnahagslegum rökum er engu svarað. Það sama var upp á teningnum þegar Fréttablaðið ræddi við aðra forystumenn verkalýðshreyfingarinnar: Þeir sem óttast að kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar í kjaraviðræðunum sem getur falið í sér tvöföldun launakostnaðar fyrirtækja verði efnahagslífinu ofviða eru „úrtölumenn“, „óvinir vinnandi stétta“ og „ lobbíistar efnahagslegu forréttindahópanna“.

Engum efnahagslegum rökum er svarað að hálfu verkalýðshreyfingarinnar þegar kemur að gagnrýni á kröfugerð hennar. Aðeins er boðið upp á ásakanir og uppnefni. Verkalýðshreyfingin virðist í þetta sinn neita að horfast í augu við hvaða kröfur þeirra munu kosta atvinnulífið enda hefur hún ekki haft fyrir að leggja mat á þann kostnað. „Menn lifa ekki á kostnaðarmötum, menn lifa á því hvað þeir fá í kjarasamningum,“ var haft eftir einum verkalýðsforingjanum.

Þetta endurspeglar óábyrga afstöðu svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

Í þau fáu skipti sem hin nýja verkalýðsforysta fæst til að ræða um hvernig eigi að standa straum af kröfum hennar í kjaraviðræðunum er vísað til „róttækra kerfisbreytinga“ sem ríkið á að ráðast í. Þær breytingar byggjast á kosningastefnuskrá stjórnmálaaflsins Dögunar. Sem kunnugt er fengu þær ekki framgöngu á vettvangi stjórnmálanna á sínum tíma.