Gunnar V. Andrésson ljósmyndari hefur fengist við fréttaljósmyndun á dagblöðum í hálfa öld. Hann byrjaði á Tímanum, var um árabil ljósmyndari á DV og hefur síðastliðin ár unnið á Fréttablaðinu.

Í og með í tilefni af þessu starfsafmæli birtist á dögunum ágætt og fróðlegt viðtal við Gunnar í Fréttablaðinu, sem Garðar Örn Úlfarsson skrifaði. Það er óhætt að mæla með því við áhugamenn um fjölmiðlun, en með fylgdi fjöldi mynda frá löngum ferli Gunnars. Það má nálgast á vefnum hér .

En viðtalið var ekki aðeins athyglisvert sem sögulegur fróðleikur, heldur jafnvel enn frekar vegna þeirra skoðana sem Gunnar setti þar fram um blaðamennsku og starfsskilyrði blaðaljósmyndara.

Gunnar sagði að í upphafi ferils síns hefðu menn lagt allt í sölurnar til þess að ná góðum fréttaljósmyndum af fréttnæmum atburðum, þar á meðal af slysförum, óhöppum og stóratburðum alls konar. Eins og væri sjálfsagt og hefði þótt sjálfsagt. Á því hefði hins vegar orðið veruleg breyting:

Það hefur vaxið upp eitthvert stofnanaeftirlit, einhverjir sjálfskipaðir menn til að stýra og ritstýra blöðum nú orðið. Lögreglufréttir eru jafnvel ekki lengur lögreglufréttir heldur skýrslur úr dagbókum lögreglu þar sem eins lítið er sagt og hægt er.

Á þetta hefur stundum verið drepið í þessum dálkum áður. Að sumu leyti má kenna leti og auraleysi fjölmiðla um þegar þeir láta sér slíka viðtöku og endurbirtingu lynda. En það má líka nefna ákveðna og almennari hugarfarsbreytingu, sem lýtur að því að fjölmiðlum komi ekki hvað sem er við, að þeir séu að þvælast fyrir þegar mikið liggur við og að forvitni þeirra sé nánast annarleg.

Þetta blandast ekki síst hugmyndum um ýtrustu tillitssemi við alla hlutaðeigandi þegar ótíðindi eiga sér stað og að þá þurfi nánast allt annað að víkja. Ekki síst þegar um stórslys er að ræða, glæpavettvang eða ámóta.

Gunnar nefndi dæmi um þetta frá snjóflóðunum hræðilegu á Flateyri 1995. Þar hafi yfirvöld sett fréttamönnum og ljósmyndurum stólinn fyrir dyrnar, en sú ástæða gefin að ekki mætti trufla fólk, sem væri að vinna á vettvangi, jafnvel nokkru eftir að síðustu fórnarlömbin voru grafin úr fönn.

Auðvitað eru slíkar aðstæður ömurlegar; fólk í öngum sínum og það þykir sjálfsagt einhverjum ónotalegt að vita af blaðamönnum og ljósmyndurum við vitnisburð og skrásetningu, staðfestingu og frásögn frá voðanum öllum.

Sumir hafa jafnvel tekið sér einstaklega ósmekkleg orð eins og „hrægammar“ í munn við ámóta tilefni, líkt og blaðamenn hafi ánægju eða sérstakan ágóða af fréttaflutningi af stórslysavettvangi. Svo er ekki og raunar er vel þekkt að slíkur starfi getur gengið mjög nærri mönnum.

Afleiðingar þess að blaðamönnum sé bægt frá geta hins vegar verið aðrar og meiri en ætlað var. Í fyrstu aðallega þær að fréttirnar verða ónákvæmari en ella, sem getur valdið óþarfa ótta og áhyggjum.

Þegar fram í sækir minnka afleiðingarnar hins vegar ekki, því þokunni léttir ekki með tímanum. Alls ekki, eins og Gunnar rakti vel, en nú, 21 ári, síðar eru samtímaheimildir frá snjóflóðunum á Flateyri orðnar fremur fátæklegar.

Og það þarf ekki mannskaða til, nú er til dæmis meiriháttar hark fyrir fjölmiðla að komast í grennd við gosstöðvar. Þar hamli stjórnvöld allri umferð með skipulegum hætti, einnig fjölmiðla, og verulegum mannafla varið í aðgangseftirlit.

Sumpart er það vafalaust gert af einskærri góðvild og umhyggju, en inn í þetta koma líka meinlokur um ýtrasta öryggi, stjórnsemi og firringu ábyrgðar. Gunnar minnti á að þetta hefði verið með allt öðrum brag í gosinu í Eyjum, án þess að nokkur vandræði hefðu hlotist af.

Við þetta má bæta að öll þessi aðgangsstýring getur fengið mjög annarlegan brag, eins og um árið þegar fjölmennt lögreglulið hélt fjölmiðlum í skefjum frá nýskotnu bjarndýri, ekki af neinni málefnalegri ástæðu, heldur aðeins fyrir pólitíska sjálfsbjargarviðleitni þáverandi umhverfisráðherra, sem allt í einu virtist kominn með boðvald yfir lögreglu.

* * *

Sagt er að það sé hlutverk fjölmiðla að skrifa fyrsta uppkast mannkynssögunnar, en fyrst og fremst eiga þeir auðvitað að rækja skyldur sínar við almenning og segja fréttir. Þegar yfirvaldið tálmar för þeirra við fréttaleit er um leið verið að leggja hömlur á tjáningarfrelsið.

Eftirlátum Gunnari V. Andréssyni lokaorðin:

Við erum fulltrúar fólksins og fólkið á heimtingu á að fá að fylgjast með glöggt með. Ég held að það sé það sem blaðamennska gengur út á. Það er óþolandi fyrir stéttina að þurfa að lúta einhverju yfirvaldi sem virðist ekki skilja þá upplýsingaskyldu sem fjölmiðlar þurfa að standa vörð um. Fagmennskan hlýtur að felast í því að við tökum verk okkar alvarlega.