Í nýútgefinni skýrslu okkar um íslenska ferðaþjónustu reiknum við með að fjöldi ferðamanna verði um 2,3 milljónir á árinu og hefur þeim þá fjölgað um ríflega milljón síðan 2015 og 1,7 milljónir síðan 2011. Fjölgun ferðamanna hér á landi hefur krafist mikilla innviðafjárfestinga, ekki síst í gistiþjónustu.

Meðalnýting hótela í Reykjavík hefur hækkað um 20 prósentustig frá árinu 2011 og er nú hærri en í stærstu höfuðborgum Norðurlandanna. Á sama tíma er verð hótela í Reykjavík það hæsta á meðal höfuðborga landanna. Þessi þróun kemur í raun ekki á óvart þar sem fjöldi erlenda ferðamanna hefur þrefaldast á meðan hótelherberjum í Reykjavík hefur einungis fjölgað um helming.

Hótel á höfuðborgarsvæðinu ná ekki að anna hraðri fjölgun ferðamanna sem hefur skapað skilyrði fyrir mikinn vöxt deilihagkerfisins, t.a.m. Airbnb. Airbnb hefur þannig stutt vöxt ferðaþjónustunnar þar sem óvíst er hvort hægt hefði verið að anna gistiþörf þeirra ferðamanna sem ferðast hafa hingað að undanförnu öðruvísi.

Tæplega 7 milljarða velta í gegnum Airbnb í Reykjavík

Á síðastliðnu ári var meðalfjöldi gistirýma á Airbnb í Reykjavík sem leigð voru út a.m.k einu sinni 2.000 og tvöfölduðust þau milli ára. Gistirými á Airbnb voru bæði leigð út oftar og lengur í senn að meðaltali árið 2016 en 2015. Heildartekjur vegna útleigu gistirýma á Airbnb jukust um 169% frá fyrra ári og námu um 6,8 mö.kr. á árinu 2016. Til samanburðar námu tekjur hótela á höfuðborgarsvæðinu um 19,6 mö.kr. Tekjur gistirýma á Airbnb í Reykjavík námu því rúmlega þriðjung af samanlögð­ um tekjum hótela á höfuðborgarsvæðinu í fyrra.

Ódýrari valkostur í gistiþjónustu

Líkt og áður segir hefur verð hótelherbergja hækkað mikið og er nú hátt í alþjóðlegum samanburði. Gistiþjónustukostnaður á hvern einstakling á Airbnb er alla jafnan talsvert lægri en á hótelum og þannig gefst ferðamönnum sem hingað koma færi á ódýrari gistingu en ella. Þetta hefur gert gisti­ þjónustu á Airbnb að fýsilegri valkosti og stutt við þann öra vöxt sem orðið hefur í þessari þjónustu undanfarið.

Airbnb eykur eftirspurn eftir íbúðum en erlent vinnuafl vegur þyngra

Engum hefur dulist sú mikla verð­ hækkun íbúða sem hefur átt sér stað að undanförnu en 12 mánaða hækkunartakturinn hefur ekki verið hærri síðan í upphafi árs 2008. Nokkrar skýringar geta legið að baki þessari hækkun t.a.m. kaupmáttaraukning launa heimilanna, fjölgun starfa og aukið innflutt vinnuafl, vöxtur deilihagkerfisins og lítið framboð nýbygginga.

Að teknu tilliti til nýtingar og tegundar gistirýmis má áætla fjölda íbúða sem sem nýttar eru til útleigu í gegnum deilihagkerfið. Að meðaltali voru um 300 íbúðir í útleigu öllum stundum á Airbnb á árinu 2015 og um 809 á árinu 2016. Er þetta aukning um 509 íbúðir en til samanburðar voru byggðar 399 íbúðir í Reykjavík á árinu 2016. Fjölgun íbúða í heils­ ársútleigu á Airbnb hefur því verið talsvert umfram fjölgun nýrra íbúða í Reykjavík sem ýtir undir hækkun íbúðaverðs á svæðinu.

Ekki ber að skilja þetta sem svo að Airbnb sé meginástæða hækkunar íbúðaverðs undanfarið. Við reiknum með að byggja hefði þurft rúmlega 3.000 íbúðir á landsvísu á síðastliðnu ári einungis til að mæta þörf sem myndaðist vegna íbúafjölgunar og aukins umfangs deilihagkerfisins. Er þá ótalin sú þörf sem safnast hefur upp vegna lítils framboðs nýbygginga á undanförnum árum. Einungis hafa verið byggðar tæplega 1.000 íbúðir að meðaltali á hverju ári á landsvísu frá árinu 2010 eða um þriðjungur af þeirri þörf sem við áætlum fyrir síðastliðið ár. Þá sést að íbúafjölgun sem á sér stað vegna aukningar á erlendu vinnuafli skapar mesta þörf á fjölgun íbúða eða um helming. Að viðbættri náttúrulegri íbúafjölgun höfum við skýrt 2/3 af íbúðaþörfinni. Afganginn, eða 1/3, má svo rekja til deilihagkerfisins eða Airbnb. Airbnb hefur þannig átt þátt í hækkun íbúðaverðs undanfarið en bæði innflutningur á vinnuafli og sérstaklega bætt fjárhagsleg staða heimilanna ásamt skorti á framboði nýbygginga hefur vegið þyngra í þeirri þróun.

Útlit fyrir að Airbnb anni áfram umframeftirspurn eftir gistiþjónustu

Gangi spáin okkar eftir mun ferðamönnum fjölga um 530 þús. milli ára 2016 og 2017 sem er mesta fjölgun ferðamanna á einu ári hér á landi. Það þýðir að fjölga þurfi hótelherbergjum um 1.400 til að mæta aukinni gistiþörf ferðamanna á þessu ári. Áætluð fjölgun hótelherbergja á árinu 2017 er 465 eða um þriðjungur af áætlaðri þörf. Ef takast á að mæta þeirri gistiþörf sem áðurgreindur fjöldi ferðamanna myndar er ljóst að deilihagkerfið reynist okkur ómissandi. Að öðru óbreyttu mun deilihagkerfið því mæta væntanlegri fjölgun ferðamanna að talsverðu leyti og má ætla að afkastageta Airbnb í Reykjavík verði orðin sambærileg og hjá öllum hótelum höfuðborgarsvæðisins til samans á líðandi ári.

Íslandsbanki greining Airbnb
Íslandsbanki greining Airbnb
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Höfundur er sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka.