Sumir segja að allt hafi breyst í bankahruninu 2008 og víst er um það að það má greina margvísleg vatnaskil á þeim dögum umbrota og bræði. Um framhaldið höfðu menn svo margvíslegar hugmyndir eins og gengur og þær hafa ræst misvel.

En ætli nokkur hafi gert sér í hugarlund þær miklu breytingar sem væru yfirvofandi í atvinnulífi og á bæjarbragnum í höfuðborginni þegar ferðaiðnaðurinn varð á nokkrum nóttum einn helsti atvinnuvegur landsins? Eða allar þær víðtæku breytingar sem sigla myndu í kjölfarið á öllu þessu nýja, fundna fé?

Stundum finnst fjölmiðlarýni jafnvel nóg um hversu hiklaust er fjallað um þarfir ferðaiðnaðarins, nánast eins og ekkert geti klikkað á því síldarplani og allt annað verði eiginlega að víkja. Eins virðist nokkuð undirliggjandi í þjóðmálaumræðunni, að ekkert megi verða til þess að ýta við þeirri mögnuðu gullkvörn eða trufla hina duglegu malara hennar. Kannast lesendur við að svipað hugarfar hafi áður leitt menn í ógöngur?

★ ★ ★

Ferðamannaflaumurinn hefur ekki skilið fjölmiðlana eftir ósnortna fremur en annað og þá er ekki aðeins verið að ræða umfjöllun um ferðamannaiðnaðinn, heldur einnig fréttir fyrir ferðamenn og Íslandsvini alls konar.

Þannig eru það ekki lengur aðeins Iceland Review og Grapvine, sem flytja íslenskar fréttir á útlensku, að ógleymdum bloggunum öllum. Moggi hefur sinn Iceland Monitor á vefnum og Vísir og Iceland Magazine tóku nýverið höndum saman um sams konar verkefni.

Þá má ekki gleyma Radio Iceland, sem raunar rataði í rekstrarvandræði, en á elleftu stundu kom erlendur aðili útvarpsstöðinni til bjargar og fjármagnaði áframhaldandi rekstur hennar. Adolf Ingi Erlingsson, útvarpsstjóri og aðaleigandi, vildi ekki gefa upp hver erlendi fjárfestirinn væri þegar þetta gerðist um liðin mánaðamót, en sagði að framhaldið væri enn til umræðu. Hann taldi líklegt að huldumaðurinn myndi brátt bætast í eigendahópinn.

★ ★ ★

Það rifjar hins vegar upp umfjöllun um eignarhald fjölmiðla og leppun þeirra, sem lesa mátti hér í dálkinum í fyrri viku. Þar var minnst á kvaðir fjömiðlalaga um upplýsingu og opinbera skráningu á eignarhaldi fjölmiðla, en bent var á að sú skráning hefði verið með ýmsu móti, í sumum tilvikum, nei mörgum, beinlínis villandi og röng.

Hér er ekki verið að gefa til kynna að neitt sé athugavert við eignarhaldið á Radio Iceland, en samt liggur fyrir að þar hefur erlendur aðili reitt fram verulegt fé og hefur líf stöðvarinnar í raun í hendi sér. Vitaskuld væri eðlilegast að hann yrði einfaldlega eigandi og gæfi sig fram sem slíkur. En hvað sem verður, þá má ekki vera einhver feluleikur með það.

★ ★ ★

Það minnir aftur á vini okkar á Fréttatímanum, útbreiddasta tímariti landsins. Stofnun þess var fjármögnuð af erlendum fjárfesti, Michael Jenkins hjá Þórsgarði, sem sá góðkunni Joe Compton stýrir dags daglega, en lánið mun vera breytanlegt í hlutafé eða með veði í félaginu. Enn sem fyrr skal ítrekað að ekkert er athugavert við það, en eru þau tengsl ekki svo rík, að þau þyrftu að liggja fyrir í eignarhaldsskráningu miðilsins, svo hún sé til einhvers?

★ ★ ★

Ferðamennskufréttirnar geta stundum alveg ruglað mann í ríminu. Í einum fréttatímanum er fjallað með ábúðarfullri röddu um hvernig hávaðamengun vegna þyrluflugs sé við það að eyðileggja Þingvelli, en í hinum næsta glymur plögg frá Þyrluþjónustunni um að þyrlur séu ferðamáti framtíðarinnar. O.s.frv.

Svo má lesa í Fréttablaðinu einn daginn að vá sé fyrir dyrum, því hvalveiðar komi í veg fyrir að fleiri ferðamenn komi til landsins, en hinn næsta segir Fréttablaðið að vá sé fyrir dyrum, allt of margir ferðamenn komi til landsins, saurgi það og vefji í daunillum klósettpappír, sem svo fjúki um fjöll og dal og brúnan sand.

★ ★ ★

Um daginn var sagt upp tveimur útvarpskonum í Efstaleiti, sem þar hafa unnið um langt skeið. Um það mátti lesa eitt og annað í félagsmiðlum og jafnvel blöðunum, líkt og óbætanlegur skaði hefði verið unninn á þjóðarsálinni. Nú munu margir vafalaust sakna þessara radda, en fjölmiðlar verða líka að geta breyst, jafnvel þannig að einn fari og annar komi. Þannig gengur það bara. En á sama tíma les maður ekki múkk um fjöldauppsagnir í öðrum stéttum, engu veigaminni fyrir þjóðarlíkamann.

Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu 16. júlí síðastliðinn.